„Það sem einkennir Trymbil er mýkt í geði og ganglagi“

  • 20. febrúar 2020
  • Sjónvarp Fréttir
Blaðamaður Eiðfaxa hafði samband við Gísla Gíslason sigurvegara í gæðingafimi í Meistaradeild KS

Gísli Gíslason sigraði keppni í gæðingafimi í Meistaradeild KS í gærkvöldi á stóðhestinum Trymbli frá Stóra-Ási. Trymbill er fæddur árið 2005 og er því á fimmtánda vetri. Hann er ræktaður af Láru Kristínu Gísladóttur, systur Gísla, en eigandi er Mette Mannseth.

Trymbill er undan Þokka frá Kýrholti og heiðursverðlaunahryssunni Nótu frá Stóra-Ási en hún var undan Oddi frá Selfossi og Gáskadótturinni Hörpu frá Hofsstöðum sem Gísli Höskuldsson, faðir Gísla ræktaði, það má því segja að þeir Trymbill tengist á margan hátt.

Hverjir eru kostir Trymbils samkvæmt Gísla „Þeir eru að mínu mati margir. Ef ég á að reyna að lýsa honum í stuttu máli myndi ég segja að hans einkenni væru mýkt, þá á ég bæði við mýkt í geðslagi og skrokkmýkt. Þá býr hann yfir miklum gangskilum. Helsta áskorunin fyrir mig sem knapa er að ég hafi stjórn á sjálfum mér og stífni ekki upp eða geri einhverja vitleysu. Hann er alltaf klár í að gera það sem ég bið hann um og því eins gott að vera tibúinn. Í keppni sem gæðingafimi þarf að framkvæma hlutina á réttum tíma þar sem í henni eru tímamörk, en við Trymbill erum vanari að hafa tímann fyrir okkur og þá verða oft til skemmtileg augnablik. Ég hef þjálfað Trymbil í 11 ár eða frá því hann var á fjórða vetri það má því segja að það sé tímabilið sem liggi til grundvallar við undirbúning á gærkvöldinu, svo þarf bara að ákveða hvernig sýningin á að vera uppbyggð með tilliti til æfinga og gangtegunda.“

En hvernig finnst Gísla keppnisgreinin gæðingafimi. „Mér finnst þetta ákaflega skemmtileg keppnisgrein og það er virkilega gaman að taka þátt í henni, þótt svo að maður kvíði því alltaf aðeins í hvert skipti þar sem þetta er ákveðin opinberun á hestinum og reiðmennsku knapans. Ef það er eitthvað sem má setja út á þá eru það tímamörkin sem knapanum eru sett. Ég skil ekki tilhneiginguna að þurfa að stytta prógramið sem allra mest á þeim forsendum að það þurfi að klára þetta á sem stystum tíma. Ég held að ef tímamörkin væru rýmri myndi skapast meiri ró hjá knapanum og þá þyrfti ekki að flýta sér í gegnum æfingarnar“.

Það var ákveðið fyrirfram að hafa ekki úrslit í gæðingafimi í KS deildinni hvernig fannst Gísla það fyrirkomulag. „Persónulega finnst mér skemmtilegra að hafa úrslit. Reynslan sýnir að þá er skrekkurinn farinn úr keppendum og þá verða oft til ennþá skemmtilegri sýningar. Þá munar líka um það að í hléinu sem myndast á milli úrslita og forkeppni að knapar geta hitað upp inn á reiðhallargólfinu en ekki úti þar sem oft er erfitt að athafna sig í allskyns færð. Ég er því hlynntur því að hafa úrslit.“

Gísli er liðsmaður í liði Þúfna en liðið stóð uppi sem sigurvegari í liðakeppninni, Mette Mannseth varð í öðru sæti á Skálmöld frá Þúfum og Barbara Wenzl í því þriðja á Krók frá bæ.

Myndband sem fylgir viðtalinu er af sigursýningu Gísla á Trymbli, vegna tæknilegra örðugleika fylgir myndbandinu ekki hljóð.

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar