Það styttist óðfluga í Ræktunardag Eiðfaxa

Arthúr frá Baldurshaga er einn af þeim stóðhestum sem mæta á ræktunardaginn. Mynd: Bjarney Anna Þórsdóttir
Það verður nóg til að gleðja augu hestafólks á Ræktunardegi Eiðfaxa næstkomandi laugardag, enda bætist stöðugt í hóp þeirra úrvalshrossa og knapa sem þar munu koma fram.
Arthúr frá Baldurshaga er glæsilegur stóðhestur á alla kanta bæði hvað sköpulag, hæfileika og ekki síður litfegurð varðar. Í kynbótadómi hefur hann hlotið 9,5 fyrir stökk og fegurð í reið en auk þess heilan hellingum af níum. Þá hefur hann verið að stíga fyrstu skref í keppni og lofar góðu á því sviði.
Gaumur frá Auðsholtshjáleigu hefur fyrir löngu sannað gildi sitt sem einstaklingur og kynbótahestur en hann hlaut heiðursverðlaun fyrir afkvæmi á Landsmóti 2016. en eins og segir m.a. í afkvæmaorðum hans „Gaumur gefur mikla ganghæfni, rými og góðan vilja. Töltið er taktgott með háu og rúmu skrefi og brokkið skrefmikið og taktgott.“ Afkvæmi Gaums munu dans um Víðidalinn á laugardaginn sem fulltrúar föður síns.
Margir frábærir stóðhestar til viðbótar munu mæta á svæðið og má þar nefna Feng frá Auðsholtshjáleigusem er eftirtektarverður klárhestur sem nú þegar hefur, þrátt fyrir ungan aldur, náð frábærum árangri í keppni auk þess að hafa hlotið 1.verðlaun í kynbótadómi. Eldur frá Torfunesi er öllum hestamönnum kunnugur sem hefur nú þegar sannað gildi sitt sem kynbótahestur og hlotið 1.verðlaun fyrir afkvæmi auk þess að vera hátt dæmdur og hafa náð góðum árangri í keppni. Vörður frá Vindási er gegnheill íslenskur gæðingur sem hlotið hefur m.a. 9,5 fyrir skeið og fet, hann mun sýna hvers hann er megnugur á ræktunardegi Eiðfaxa.
Sýnt verður beint frá deginum um heim allan hér á eidfaxi.is og verður honum lýst á þremur tungumálum íslensku, þýsku og ensku. Ekki missa af rjómanum af íslenskri ræktun á laugardaginn. Frekari upplýsingar og slóð á útsendingu munu birtast á vefsíðu Eiðfaxa á morgun föstudag, takið daginn frá!