“Það þótti stórfrétt þegar tamningargerði reis á Sauðárkróki”
Leó Geir Arnarson er enginn nýgræðingur í hestamennsku enda haft hana að atvinnu um áratugaskeið. Hann stundar nú útreiðar og tamningar á Gaddstaðaflötum við Hellu.
„Ég stend á sextugu og hef sjaldan verið betri að því undanskildu að ég viðbeinsbrotnaði fyrir rúmum mánuði. Það er reyndar ekki í fyrsta skipti sem ég brotna en vonandi það síðasta,“ segir Leó Geir, sem er með í kringum 20 hross á járnum og líkar vel á Gaddstaðaflötum, þótt útreiðarleiðirnar mættu vera betri.
Uppgengni, skraut og fas
Mörg gæðingshross hafa komið úr ræktun Leós í gegnum tíðina. „Þegar ég vel mér stóðhesta horfi ég fyrst og fremst til þess að þeir séu burðarmiklir, uppgengir, fasmiklir og það komi svolítið skraut í þá á hægu tölti. Ég spái meira í þessum þáttum en rými og hraða en auðvitað vill ég það líka auk hreinleika á gangi. Ef ég nefni tvo ættfeður að þá líkar mér vel við blöndu af Ófeigi frá Flugumýri og Baldri frá Bakka.“
Þórshamar frá Reykjavík er úr ræktun Leós en hann var á meðal hæst dæmdu fimm vetra stóðhesta síðasta árs með 8,60 fyrir sköpulag, 8,37 fyrir hæfileika og í aðaleinkunn 8,45. „Ég er með Þórshamar á járnum og auk hans má nefna þrjú tryppi undan Austra frá Úlfsstöðum. Tvo stóðhesta á fimmta vetri annan undan Völu frá Reykjavík og hinn undan Viktoríu frá Reykjavík og auk þeirra hryssu undan Valhöll. Svo er vert að nefna stóðhest á fjórða vetri undan Hnokka frá Eylandi og Valhöll.“
Þá á Leó helminginn í heiðursverðlauna stóðhestinum Kjerúlf frá Kollaleiru með Hans Friðriki Kjerúlf. „Kjerúlf var norður í Eyjafirði síðasta sumar og það var bara töluverð notkun á honum. Hann skilar mjög góðum hrossum og ég er að mörgu leyti stoltur af Kjerúlf og því sem hann hefur gert. Afkvæmi hans geta látið lítið fyrir sér fara fyrstu mánuðina í tamningu en ef knapinn er þolinmóður þá gerist ansi mikið eftir nokkra mánuði í þjálfun. Hann var þannig sjálfur á fjórða vetri, byrjaði ekki að sýna mikið á spilin fyrr en komið var fram að vori.“
Fylgist vel með því sem er í gangi
„Mér líkar mjög vel við kynbótadóma kerfið og vil þar helst engu breyta. Þar er það sama upp á teningnum og í annarri dómgæslu, ef allir sitja við sama borð að þá virkar það stórvel. Ég skil t.d. ekki af hverju knapar þurfa að vera að rúnta á milli sýningarstaða og velja sér dómara, það er algjör vitleysa. Það mætti kannski skoða það að við mættum stundum hægja aðeins á öllu og aðgæta betur takt og form. Þá finnst mér of oft gefið hátt fyrir fjórtaktað skeið sem mér finnst alveg bagaleg gangtegund. Það getur farið ofboðslega illa með hesta sem eru fjórtaktaðir á skeiði að reyna að ríða þeim í gegnum það. Styttingurinn og þetta beina bak þarf að vera til líka. Það má helst ekki útrýma neinu úr hrossaræktinni því þá gætum við þurft að sækja í það síðar.“
Það er einnig ekki hægt annað en að spyrja Leó út í það hvort hann fylgist með vetrardeildunum. „Ég reyni að fylgjast með öllu sem um er að vera, sérstaklega þó Meistaradeildinni, sem mér finnst vera góð. Ég hefði þó viljað sjá dómgæslu á hægu tölti ýfið betri. Þ.e.a.s. mér finnst vera lögð að jöfnu hross sem bera sig lítið á hægu tölti og draga á eftir sér afturpartinn og þau sem eru uppgeng og burðarmikil, það þarf að skilja betur þarna á milli. Dómgæsla er þó að stærstum hluta góð. Þá verð ég að nefna það að í gæðingalistinni núna um daginn að þá stóð Olil Amble sig listavel sem lýsandi á Alendis. Þetta var faglegt, hreinskilið mat og mér fannst hún gera þetta ofboðslega vel. Ég ætlaði nú alltaf að hringja í hana og hrósa henni fyrir hennar frammistöðu.“
Mikill aðstöðumunur
„Stærsti munurinn í hestamennskunni frá því að ég byrjaði, fyrir um 50 árum, er helst fólgin í umgjörð og aðstöðu. Ég var að temja á Sauðárkróki árið 1979 og þá man ég að það þótti stórfrétt og grein um málið birtist, annað hvort í Eiðfaxa eða Hestinum Okkar, um það að reiðgerði væri risið á Sauðárkróki. Þegar maður var að byrja á ungum hrossum á þeim tíma klöngraðist maður á bak tryppum í fyrsta skipti með hjálp tveggja annarra og svo þegar maður var kominn í hnakkinn var bara húkkað úr.“
Leó væri þó mikið til í að vera ungur maður í dag. „Ég væri mjög mikið til í að vera ungur maður í dag á þessum tímum í hestamennskunni og myndi sjálfsagt fara allt öðruvísi í gegnum þetta en ég gerði. Ég hef að vísu aldrei verið mjög mikill keppnismaður en vill eiga möguleikann á því að vera með. Það eru margir fluggóðir reiðmenn sem keppa ekki mikið og það er svo margt annað sem skiptir máli. Mér þykir til dæmis sumt af unga fólkinu okkar í dag vera of einhæft sem keppnisknapar. Það er svo margt annað sem spilar inn í og þau ættu að einblína á. Til dæmis bara það að ríða allskyns hrossum, járna sjálf og reyna að fræðast og verða betri í öllum hliðum hestamennskunnar. Það má læra mikið af því að velta fyrir sér hinum og þessum mismunandi atriðum.“