1. deildin í hestaíþróttum „Það vantaði vettvang fyrir ákveðinn hóp knapa“

  • 12. janúar 2024
  • Fréttir

Garðar Hólm Birgisson formaður 1. deildarinnar í hestíþróttum en deildin verður haldin í Samskipahöllinni í Spretti í vetur. Mynd:aðsend

Viðtal við Garðar Hólm Birgisson formann 1. deildarinnar í hestaíþróttum.

Fyrsta deildin í hestaíþróttum hefst núna 23. febrúar á keppni í fjórgangi. Garðar Hólm Birgisson er formaður fyrstu deildarinnar í hestaíþróttum en deildinni er ætlað að koma á milli Áhugamannadeildarinnar og Meistaradeildarinnar sem báðar hafa notið mikilla vinsælda.

„Það vantaði vettvang fyrir ákveðinn hóp knapa á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu sem passaði ekki inn í hinar deildirnar. Það sýndi sig síðan í því að það voru miklu fleiri sem vildu vera með en komust að,“ segir Garðar Hólm aðspurður út í tilurð deildarinnar. „Okkur langaði að búa til deild sem myndi tengja Áhugamanna- og Meistaradeildina. Að þetta yrði eins og í öðrum íþróttum þar sem lið færast á milli deilda. Þá yrði líka komið ákveðið kerfi sem síar knapana og umræðan um hvort fólk sé að skrá sig í vitlausar deildir myndi minnka.“<

Það eru átta lið í 1. deildinni og er henni stillt upp á mjög svipuðum nótum og Meistaradeildinni í hestaíþróttum. Keppt verður í meistaraflokksgreinum þ.e.a.s tölt T1, fjórgangi V1, fimmgangi F1 o.s.frv. Keppt verður í sömu greinum og í Meistaradeildinni þó ekki í 150 m. skeiði og verður keppt í stigi tvö í gæðingalistinni en ekki stigi 1 eins og í Meistaradeildinni.

Mikil aðsókn í deildina

Nokkrar áhyggjur voru um að ekki væri pláss fyrir „enn eina“ deildina á markaðnum en það hefur ekki verið raunin. Fjórtán lið sóttu um pláss í 1. deildinni og þrátt fyrir að þrjú lið hafi farið úr Áhugamannadeildinni yfir í 1. deildina þá voru fjögur ný lið sem sóttu um í Áhugamannadeildinni.

„Áhugamannadeildin stækkaði við þessa aðferð en núna eiga líka kannski fleiri erindi í deildina. Það var orðið pínu misskipt og komin smá gjá á milli liða innan deildarinnar getulega séð. Þessi nýja deild hefur kannski komið meira jafnvægi á áhugamannadeildina.“

Hugmyndin um að lið myndu færast á milli deilda verður að einhverjum hluta að veruleika en liðið sem vinnur Áhugamannadeildina mun færa sig yfir í 1. deildina og liðið sem verður neðst í 1. deildinni mun falla.

„Við vonum að á einhverjum tímapunkti náum við að tengjast Meistaradeildinni líka en það gerist ekki í ár. Hver veit þegar sportið verður orðið ennþá stærra að stofnuð verið ein deild í viðbót og það undir Áhugamannadeildinni.“

Mótin fara fram í Samskipahöllinni

Deildin verður haldin í Samskipahöllinni en það er hestamannafélagið Sprettur sem er mótshaldari. Það verður frítt inn á deildina og verður henni einnig streymt í beinni á Alendis.is. Fyrir áhugasama verða sér þættir fyrir hvert mót þar sem spáð verður í spilin og farið yfir ráslista tiltekins keppniskvölds.

„Sprettshöllin er mjög hest- og áhorfendavæn. Deildin verður haldin ýmist daginn á undan eða daginn á eftir Áhugamannadeildinni en það er ákveðin vinnuhagræðing í því að þurfa bara að setja upp keppnisvöllinn einu sinni. Lokagreinin er gæðingaskeiðið og verður það haldið sama dag og Áhugamannadeildinni 20. apríl. Þann sama dag, um kvöldið, mun lokahóf deildarinnar fara fram ásamt lokahófi Áhugamannadeildarinnar.“

“Ekki er búið að klára samninga við aðalstyrktaraðila mótsins og ef áhugasöm fyrirtæki vilja taka þátt mega þau endilega hafa samband,” bætir Garðar við að lokum.

Keppniskvöldin verða eftirfarandi:
  • 23.feb (föstudag) – Fjórgangur V1
  • 7.mars (fimmtudag) – Gæðingalist 2
  • 16.mars (laugardag) – Slaktaumatölt T2
  • 4.apríl (fimmtudag) – Fimmgangur F1
  • 18. apríl (fimmtudag) – 100 m. skeið P2 og tölt T1
  • 20.apríl (laugardag) – Gæðingaskeið PP1 og lokahóf
Liðin í 1. deildinni eru eftirfarandi:

Hringdu

Reynir Örn Pálmason
Játvarður Jökull Ingvarsson
Vigdís Matthíasdóttir
Kári Steinsson
Ylfa Guðrún Svafarsdóttir

Heimahagi

Jóhann Ólafsson
Gunnhildur Sveinbjarnardóttir
Ríkharður Flemming Jenssen
Guðmunda Ellen Sigurðardóttir
Hákon Dan Ólafsson

Kidka/Hestakofi

Haukur Bjarnason
Randi Holaker
Elvar Logi Friðriksson
Siguroddur Pétursson
Eysteinn Kristinnsson

Laxárholt/Mýrdalur

Tinna Rut Jónsdóttir
Rakel Katrin Sigurhansdóttir
Sigriður Pétursdóttir
Sunna Sigriður Guðmundsdóttir
Ásdís Ósk Elvarsdóttir

Team X

Haukur Tryggvason
Telma L. Tómasson
Súsanna Sand Ólafsdóttir
Friðdóra Friðriksdóttir
Anna Valdimarsdóttir

Sportfákar

Snorri Dal
Anna Björk Ólafsdóttir
Arnhildur Helgadóttir
Erlendur Ari Óskarsson
Ingibergur Árnason

Stjörnublikk

Þorvarður Friðbjörnsson
Katrín Sigurðardóttir
Sigurður Halldórsson
Sanne Van Hezel
Elín Hrönn Sigurðardóttir

Vindás

Auður Stefánsdóttir
Hermann Arason
Kristin Ingólfsdóttir
Vilborg Smáradóttir
Birna Olivia Ödqvist

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar