„Þessar sýningar eru náttúrulega bara orðnar eins og jarðarfarir“

  • 19. mars 2023
  • Fréttir
Viðtal við Herbert Ólason, Kóka.

Herbert Ólason eða Kóka þekkja allir hestamenn, hann hefur um 40 ára skeið verið einn af ötulustu fulltrúum íslenska hestsins á meginlandinu, rekið þar hrossabú eða hof eins og hestamenn á meginlandinu kalla það, verið ötull í sölu og markaðsmálum íslenska hestsins, stundað ræktun, keppni og í raun allt sem viðkemur hestamennskunni. Síðustu áratugi hefur Kóki byggt upp fyrirtækið Top Reiter og líklega eru ekki mörg hesthús í dag þar sem ekki finnst eitthvað af vörum þess fyrirtækis.

Í byrjun árs var Kóki staddur hér á landi og Eiðfaxi tók við hann spjall um hestamennskuna í Þýskalandi, stöðu hestsins í dag, framtíðarhorfur og ýmislegt fleira. Kóki er ekki vanur að liggja á skoðunum sínum og segir hlutina hreint út eins og þeir líta út frá hans sjónarhorni. Viðtalið mun birtast á vef Eiðfaxa í nokkrum hlutum á næstunni ég hér kemur annar hluti viðtalsins, en fyrsta hlutann er hægt að lesa HÉR

Hvernig ganga kynbótadómar fyrir sig í Þýskalandi og hvað finnst þér um dómskerfið?

Í Þýskalandi var það þannig að það var til kynbótadómakerfi IPO sem var annað kerfi en íslenska kerfið og FEIF kerfið sem er notað í dag. Þýska kerfið var ekkert alveg galið, það var til dæmis á undan íslenska kerfinu með að dæma fet og hægt stökk sem var lengi vel ekki inn í íslenska kerfinu. Við í Þýskalandi vorum með reiðdómara sem var ekki slæmt ef það hefði verið vel gert og það var það að sumu leyti, þetta var vel riðið af þessum strákum og allt það en þeir fóru oft of langt. Það var kannski búið að sýna ungt hross, allar gangtegundir og allt það en þá fóru þeir að mjólka meira, vildu sýna að þeir gætu náð meiru út úr hrossinu og það var oft of mikil rukkun á þessi ungu hross. Þjóðverjar vildu svo halda í sitt kerfi en við Íslendingarnir börðumst á móti því þó kerfið hafi ekkert verið neitt slæmt. Það er betra að hafa svoleiðis kerfi og láta fólk taka þátt í því heldur en að hafa kerfi sem enginn vill taka þátt í. Við komum því í gegn að íslenska kerfið eða alþjóðlega kerfið yrði tekið upp. Þá byrjaði það að menn hér úti fóru að fá Íslendinga til að sýna fyrir sig sem var gott að vissu marki, þetta eru flinkir strákar og ná miklum árangri og allt það en þetta varð til þess að það treystu sér voða fáir af þessum Þjóðverjum til þess að sýna, og nú er þetta orðið þannig að það eru bara örfáir aðilar sem eru að sýna þessi hross.

Þessar sýningar er síðan náttúrulega bara orðnar eins og jarðarfarir, fólk er þarna með fýlusvip, það má ekki segja neitt, þulurinn má ekki segja neitt, þulur má ekki hjálpa ef það eru einhverjir ungir reiðmenn sem eru að koma inná brautina og eru óvanir og stressaðir. Hvað væri að því að það mætti hjálpa þessu fólki og segja því til. Til dæmis að þetta var góð ferð hjá þér en vantar kannski aðeins uppá áttuna, betra að gera þetta eða gera hitt. Yrði það ekki bara til þess að fleiri myndu treysta sér til þess að sýna og taka þátt.

Eins og hér heima að þá er fólk þarna úti alveg hætt að skilja þessa dómara. Ég held að þetta sem kom fyrir hér heima um árið á sýningu á Selfossi 2013 eða 14 og dómarar gleymdu að loka fyrir míkrafóninn og umræðum milli dómara var óvart útvarpað, hafi haft meiri áhrif en menn gera sér grein fyrir. Auðvitað hugsaði fólk, ef það er svona sem dómarar tala sín á milli um þennan aðila hvernig tala þeir þá um mig. Nú við sáum á Landsmótinu í sumar að menn voru reiðir, við verðum að kryfja þetta og ef það kemur í ljós núna í ár að það verður miklu minna af hrossum sýnt þá er eitthvað að. Við verðum að nálgast hvorn annan, það þýðir ekkert að hafa þetta eins og tvær herdeildir, ræktendur og sýnendur og svo dómarar sem eru að berjast.

Dómararnir verða að skilja það að þeir verða að læra af þessum ræktendum, dómarar eru líka í leiðbeiningarstarfi. Ég horfi oft á ræktunina eins og tónverk, þú semur rosa flott tónverk og getur spilað það sjálfur svakalega flott, en ef þeir sem eiga svo að spila það hafa ekki tóneyra eða takt, þá er nátturulega eitthvað að. Það verður alltaf deilt um sjónhendinguna því menn hafa einfaldlega svo misjafnan smekk. Ég er samt klár á að menn væru fljótari að sjá hver væri sætasta stelpan ef það kæmu 10 fallegar stelpur labbandi inná svæðið, en af hverju sjá þeir ekki hvað er sætasta hrossið ?

Á Landsmótinu síðastliðið sumar var mjög athyglisvert að þegar þú horfir á gæðingadómana þá eru þeir miklu betri en íþróttadómararnir. Mér fannst það mjög áberandi, sérstaklega þegar var farið að gefa hærri tölurnar þá var samræmið mjög gott hjá gæðingadómurunum, enda ef þú kíktir inn í skúrana þá voru þetta allt hestamenn.

Mér fannst ofboðslega mikið af góðum hestum á Landsmótinu, alveg svakalega góðum og ekki síst í gæðingakeppninni. En við getum kannski pælt í því kynbótamegin af hverju margir af hestunum fengu ekki sömu einkunn og þeir voru með áður. Það eru kannski margar skýringar á því, en það er erfitt að halda hesti í toppþjálfun mjög lengi þegar þeir eru að springa út á kannski tveimur eða þremur vikum. Nú völlurinn á Hellu er eins og flugbraut, hann er mjög víður og langur. Það er fullt af svona hlutum sem maður getur velt fyrir sér. Auðvitað er hiti í mönnum, mikil keppni og allt það sem er eðlilegt en ég held að þessir menn sem eru komnir svona langt í þessu og búnir að vera svona lengi í þessu hafi rétt fyrir sér þó það séu þeirra eigin hestar sem verið er að tala um, þeir vilja ekkert fá meira en þeir eiga skilið. En eins og ég sagði áðan þá er þessi sjónhending svo mikilvæg og erfitt að finna marga sem hafa sama smekk á hlutnum og einhvernveginn er þetta kerfi, íslenska kerfi eða FIZO eins og það er kallað og bluppið búið að rugla marga, það er til dæmis mjög skrítið að Svíarnir voru með eitthvað extra blupp, svipað og ef við færum að keppa við þá í fótbolta og þeir væru með tvö mörk í forskot þegar leikurinn byrjaði.

Það er margt svona skrítið, en það er enginn vafi á því að Íslendingar eru á þvílíkri siglingu í ræktuninni sem er náttúrulega alveg yndislegt. En það er ekki útaf kerfinu heldur vegna þess að við eigum svo frábæra ræktendur og reiðmenn.

Hvað finnst þér um að setja kynbótadómara eina í skúrinn og láta þá dæma hvern fyrir sig ?

Það ætti alveg tvímælalaust að gera, það yrði alveg rosalegt aðhald á dómurunum, að þeir séu ekki inní skúr að rotta sig saman, heldur sé þetta bara eins og í sportinu og gæðingakeppninni. Þessu höfum við verið að berjast fyrir, við fáum til dæmis ekki einu sinni að vita í Þýskalandi hverjir séu dómarar, og mér skilst að það sé orðið það sama hér. Af hverju er þetta svona mikið leyndarmál ?

Auðvitað er þetta bara út af einu og það vita þeir dómararnir líka, þeir eru misjafnlega góðir. Og þessir strákar og þessar konur sem eru að þjálfa og sýna vita alveg nákvæmlega hvaða dómara þau vilja fá til þess að fá sem réttastan dóm, hverjum þau treysta. Af hverju er það til dæmis ekki þannig í sportinu að það séu þau skilyrði fyrir að dæma hæsta klassann að þú hafir sjálfur riðið hann? Af hverju er það ekki þannig í kynbótadómum?

Ef við förum aðeins yfir í kynbótahlutann aftur, hvernig gengur ræktunarstarf í Þýskalandi í dag?

Ég verð því miður bara að segja að það er meira framleiðslustarfsemi heldur en ræktunarstarfsemi í Þýskalandi í dag. Það eru svo svakalega fáir sem taka þessa ræktun alvarlega, árið 2017 voru 2200-2300 folöld fædd í Þýskalandi, árið 2022 eru þau 5 vetra gömul af þessum 2200-2300 hrossum skila sér 10 í dóm. Af þeim fara 4 hross í fyrstu verðlaun og 3 af þeim eru frá Kronshof. Kronshof hefur sýnt að sannað það að þeir eru mjög framarlega, við í Hrafnsholti höfum ræktað geysilega mikið af góðum hestum en ég er kominn á aldur þannig lagað séð. Það eru nokkrir fleiri þarna, Týri (Angantýr Þórðarson) er að verða stór ræktandi, Siggi Narfi er að rækta góð hross og nokkrir fleiri en það vantar þessa greddu sem er hérna.

En hver er ástæðan fyrir því að það koma 10 hross til dóms af 2200 fæddum folöldum ?

Ja það kemur ekkert út úr tamningunni eða lítið, það er málið. Sko þjóðverjar eru náttúrulega snillingar í ýmsu og ég var lengi í þessu ræktunarráði, í einhver 4 ár og allar tillögur sem ég kom með þóttu náttúrulega út úr kortinu. Ég var til dæmis í ræktunarráðinu þegar þeir fóru af stað með að gefa folöldum einkunn á folaldasýningum. Ég spurð þá hvort menn væru ekki í lagi ? Það er verið að setja tölur á folöld sem hlaupa einhverstaðar á brokki, eru tekin frá móðurinni og látin hlaupa um hneggjandi. Ég varaði eindregið við þessu og sá að þetta gæti leitt til þess að fólk mundi hreinlega hætta að sýna hrossin þegar þau yrðu eldri. Fólk er ekkert að fara með folald sem er búið að dæma í kannski 8,30 á folaldasýningu í dóm þegar það er orðið eldra og fá kannski 7,20.

Þetta er það sem þjóðverjinn gerir, og nú er komið það sem þeir kalla futurity, sem er unghestasportefni. Nú fara allir með hestana sína í futurity, þá fá þeir miklu hærri einkunnir með því að bomsa þetta upp og með botnum og öllu saman. Og einhverjir að dæma, en þú villt auðvitað miklu frekar eiga hryssu sem fær 7,30 eða 40 í futurity í fimmgangi heldur en hryssu sem fær 7,30 eða 7,50 í kynbótadómi. Þeir eru í raun búnir að finna upp annað kerfi sem menn nota sem er sýnilega markaðsvænna, að því leitinu til að hestur sem þarf kannski hlífar og botna til að geta gengið fær dóm og umsögn í futurity og svo er hægt að selja hestinn með það. Þessir hestar skila sér svo ekkert í kynbótadóm. Við verðum svo að skilja þetta aðeins út frá markaðslegu sjónarmiði, við megum ekki gleyma því að við verðum að hafa kynbótadómin markaðsvænan. Hann var lengi vel ekki markaðsvænn, hestar fengu bara 9 og 10 í vilja og geðslagi sem þurfti að stoppa á einhverri heyrúllu eða ruku bara á vegg.

Til allrar hamingju er það búið, við erum búnir að taka inn fet og stökk sem er mjög gott fyrir markaðinn en við megum ekki stoppa. Við þurfum að áfram að hugsa hvort við eigum að breyta kerfinu, eigum við að ríða hægu gangtegundirnar á hringvelli þannig að við sjáum hvort hesturinn getur brokkað í gegnum beygju eða stokkið í gegnum beygju?

Hvað finnst þér um það að kynbótadómur fari á hringvöll ?

Þó að ég hafi kannski byrjað seint í hestamennsku þá er ég búinn að vera lengi í þessu, ég er búinn að vera 50 ár í þessu og í 40 ár úti og alltaf á fullu í þessu. Ég er búinn að sjá ýmislegt, sjá hesta lamda á bakvið tré og gerða tryllta áður en þeir koma inná völlinn og fleira, ég er ekki hrifinn af þessu. Ég mundi vilja að dómarinn sæji meira, til dæmis þegar knapinn færi á bak. Ímyndum okkur kynbótadóm þar sem þú hitar upp hestinn, kemur svo labbandi með hann í taumi inná völlinn og ferð á bak. Svo sýnir þú fet, brokk, stökk og tölt, hægu gangtegundirnar á hringvellinum, sýnir að hesturinn getur brokkað og stokkið í gegnum beygjurnar, síðan ferðu á beinu brautina í yfirferðargang. Þetta er svona framtíðarsýn en þá mundum sjá markaðsvænni sýningu.
Við erum að berjast við það sem ég hef alltaf sagt og ég skrifaði um fyrir 25 árum hvernig við ættum að markaðssetja íslenska hestinn. Ekki vera að eyða í einhverja bölvaða vitleysu eins og var verið að gera. Það er fullt af reiðkennurum hérna úti sem tala málin, þýsku, ensku og norðurlandamálin, sendið þið þá af stað og gefið námskeiðin frítt, borgið námskeiðin niður. Þá kemur fullt af fólki og það verður allt annar skilningur á þessu. Því við getum ekki selt hestinn nema kenna fólkinu líka að ríða honum. En ég fékk aldrei svar við þessu. Það sem þá var gert að Félag hrossabænda vildi losna við okkur milliliðina og stofnaði búgarð í Þýskalandi sem fór svo á hausinn eftir tvö ár.

En hvað er hægt að gera þarna í Þýskalandi til þess að eitthvað meira af þessum 2200 folöldum skili sér betur til dóms ?

Finnst þeir eru búnir að uppgötva þessa leið, með futurity þá er ég hræddur um að við séum búnir að missa af lestinni, þó þetta futurity sé ekki viðurkennt af FEIF og sé bara í Þýskalandi. Hérna áður fyrr voru ræktunarlandsmót í Þýskalandi, ég sé alveg fyrir mér að þetta gæti þróast þannig að þýska meistaramótið verði áfram í sportinu og svo verði þýskt ræktunarmót þar sem futurity verður dæmt og notað. Og hvað sem um þetta verður sagt er þetta einfallt og markaðsvænt. Ég á sennilega hrossið sem hefur farið hæst í tölti og fjórgangi í futurity dómi, hún fór líka í kynbótadóm 5 vetra, mundi sjálfsagt fá 9 eða 9,5 fyrir tölt í dag, en ég er heldur ekki sáttur við kynbótadómin svo ég er heldur ekki viss um að ég taki þátt í honum. Og það er rosalega stórt mál ef að við þessir útverðir, sem höfum verið að predika í öll þessi ár, plægja akurinn og sýna hrossin, ef við missum trúna á þessu.

 

Höfundur: Hrafnkell Guðnason

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar