“Þetta á ekki að vera keppni í tamningum”

  • 18. desember 2021
  • Fréttir
Hrossabændur teknir tali - Skipaskagi

Nú þegar líða fer að jólum ætlar Eiðfaxi að stytta okkur stundirnar og taka nokkra ræktendur landsins á tali sem eru í óðaönn að undirbúa komandi tímabil. Næsta hrossaræktarbú sem við kynnum til leiks er Skipaskagi.

Ræktendur á Skipaskaga eru þau Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir. Þau byrjuðu að nota ræktunarnafnið Skipaskagi árið 2006 og þar áður ræktuðu þau hross kennd við Akranes, en það eru orðin 35 ár síðan þau hófu ræktun. Ræktunin Skipaskagi er staðsett á jörðinni Litlu-Fellsöxl rétt hjá Akranesi en jörðin er um 530 ha. “Við eigum líka land stutt frá Litlu-Fellsöxl svo heildar fjöldi hektara eru rétt rúmir 600. Þetta eru u.þ.b. 100 hross sem við eigum en hesthúsið hjá okkur tekur 33 hross, allt eins hesta stíur en einnig erum við með reiðhöll, hringekju, víbrabretti, rekstrarhring og frábærar útreiðaleiðir,” segir Jón en það er greinilega allt til alls á Skipaskaga til að reka farsælt hrossaræktarbú.


Not
uðu stóðhesta frá sér í sumar

Þau Jón og Sigurveig hafa verið að fá u.þ.b. 10 folöld á ári en í sumar fengu þau 6. “Við erum að reyna fækka þessu. Fá frekar færri og betri. Megnið af hryssunum sem við erum með í ræktun eru 1.verðlauna hryssur. Við höfum líka aðeins verið að leigja hryssurnar frá okkur sem er síðan annað hvort haldið undir hesta frá okkur eða við sjáum um að koma þeim annað, bara eftir því hvað fólk vill. Eins eigum við þrjár af ræktunarhryssunum til helminga með öðrum og höldum þeim þá annaðhvert ár” segir Sigurveig en flestar hryssurnar í ræktuninni eru úr þeirra ræktun. “Helstu ræktunarhryssurnar okkar eru; Sjöfn frá Akranesi, Assa frá Akranesi móðir Skagans en fjarlægja þurfti annann eggjastokkinn hjá henni vegna æxlis og því hefur gengið brösulega hjá henni að fyljast eftir það, en við höfum leigt hana sl. 2 ár og hefur hún í bæði skiptin fyljast í sæðingu. Svo eru það dætur heiðursverðlauna hryssunnar Kviku þær Formúla og Skynjun frá Skipaskaga, en Kvika sjálf er hætt að halda“ segir Sigurveig og nefnir einnig þær Dömu frá Neðra-Skarði,  Visku frá Skipaskaga, Rebekku frá Skipaskaga, Sögu frá Skipaskaga, Glettu frá Skipaskaga, Krús frá Skipaskaga, Gjólu frá Skipaskaga, Kjarnorku frá Kálfhóli og Örnu frá Skipaskaga. “Við fáum undan Örnu og Veigari næsta vor, það verður spennandi,” bætir hún við en Arna sló eftirminnilega í gegn undir stjórn Sigurðar Sigurðarsonar en þar vantaði ekki fasið og fótaburðinn.

“Í sumar héldum við undir Skagann, Veigar, Skyggni, Eldjárn og Vörð (undan Elvu frá Árbakka og Veigari) en það er gullfallegur tveggja vetra foli sem við erum spennt fyrir. Við eigum annan undan Veigari og Kviku frá Akranesi sem er mjög hreyfingarmikill,” segir Jón en þau hafa mest verið að nota hesta úr sinni ræktun síðustu ár.

 

Stór og myndarleg með mikið fas og fótaburð

Þeim Jóni og Sigurveigu leist vel á tamningatryppin í haust en þau eru sammála um að þetta hafi verið óvenju góður hópur. “Tamningarnar fóru vel af stað, mjög góð tryppi; 9 hryssur, 2 graðir folar og 1 geldingur. Allt ótrúlega góð og efnileg hross. Öll líka fljót til,” segir Jón og bætir við; „Leifur Gunnarsson hefur verið tamningamaður hjá okkur í 7 ár núna og hefur staðið sig með mikilli prýði og á sinn þátt í velgengni síðustu ára, því ekki er nóg að rækta hross heldur þarf einnig að temja þau og koma þeim á framfæri“. Þau fengu líka Begga á Minni-Völlum, hestamann og skemmmtikraft, til að aðstoða við frumtamningarnar í tvær vikur. “Þeim gekk mjög vel saman enda tveir toppmenn,” bætir Jón við.

Skaginn, Eldjárn og Veigar frá Skipaskaga eru nafntoguðustueinstaklingarnir úr ræktuninni þessu sinni en þeir hafa mikið verið notaðir á bænum og eru mörg spennandi ung hross að koma í þjálfun. “Það er nú svona megnið af hrossunum komiðinn. Af ungu hrossunum eru flest undan Skaganum og Veigari. Við erum með mjög ungt hesthús í ár, en flest af hrossunum sem við erum með inni í vetur eru þriggja til fimm vetra“ segir Sigurveig.

„Í gegnum tíðina hefur Skaginn verið að gefa okkur mjög góð afkvæmi og eins er virkilega gaman að fylgjast með afkvæmum hans sem eru í eigu annarra, t.d. ungu hryssurnar Valdís frá Auðsholtshjáleigu, List frá Efsta-Seli og Sögn frá Skipaskagasem allar náðu góðum árangri í sumar. Fyrsti árgangurinn undan Veigari er nú í tamningu en það eru þrjár þriggja vetra hryssur. Þeim svipar mikið til föður síns og þær eiga nú líka ágætis mæður. Þær eru stórar og myndarlegar með mikið fas og fótaburð,” segir Sigurveig.

En hver eru framtíðarplönin með þá Skagann og Veigar? “Skaginn verður reiðhestur hjá mér eins og undanfarin ár og Veigar verður reiðhestur hjá gömlu konunni. Við verðum vel ríðandi í vetur,” segir Jón og Sigurveig bætir við; “það gekk ekki vel með frjósemina í sumar hjá Veigari og því mun það hafa algjöran forgang að bæta úr því. Við vitum ekki hvað olli því en þegar hann kom heim um mitt sumar þá fór allt í rétta gírinn og fyljaði hann allar hryssurnar sem við settum undir hann. Kannski er hann bara heimakær eins og annar eigandinn. Hann verður því bara heima hjá okkur og allt kapp lagt á að gera allt sem hægt er fyrir hann upp á frjósemina. Það er aðalmálið hjá okkur að bæta fyljunarprósentuna hjá honum og ef hann vill helst fylja heima þá er það hið besta mál. Það er ekkert annað á stefnuskránni með hann þetta árið, enginn dómur eða keppni. Þetta mun hafa algjöran forgang, Veigar er ungur og á framtíðina fyrir sér”

 

Ræktunarmarkmiðið er að rækta fallegan alhliða íslenskan gæðing

Talið berst að dómstörfum sumarsins en Skipaskagi sýndi sexhross á árinu sem tókst vel til. Þau áttu efsta fimm vetra stóðhestinn á fjórðungsmótinu, Skyggni frá Skipaskaga og eins var Tromla frá Skipaskaga efst í flokki sex vetra hryssna og Sögn frá Skipaskaga var efsta fimm vetra hryssan á mótinu. Sigurdís frá Skipaskaga var í áttunda sæti í flokki 5 vetra hryssna á landssýningu en hún slasaðist lítillega rétt fyrir fjórðungsmót og kom því ekki fram þar í reið. “Ég hef mjög ákveðna skoðun á dómstörfunum, en veit ekki hvað ég má láta flakka hér. Þessi slaki taumur og allt það, það á ekki að vera þörf á þessu. Líka þessi aðaleinkunn án skeiðs og hæfileikar án skeiðs, ég þoli þetta ekki. Ræktunarmarkmiðið er að ræktafallegan alhliða íslenskan gæðing með fimm gangtegundir. Það er um að gera að hygla klárhestunum en ekki svona,” segir Jón og eru þau einnig sammála um að of hart sé tekið á unghrossunum. “Ungu hrossunum er refsað of mikið fyrir smá mistök. Ef þú sérð fallegar hreyfingar og mikið grip, þó þau missi aðeins taktinn, þá breytir það engu. Þú átt að sjá gæðingsefnið sem býr í hrossinu. Þetta er ekki keppni í tamningu. Þú átt að sjá gæðinginn í gegn,” bætir hann við. “Það hefur alltaf verið þörf á því að sjá stóðhestana sem við erum að hugsa um að nota, sérstaklega unga stóðhesta, en nú er það bara nauðsynlegt – tölur á blaði eða blup segja ekki allt!” bætir Sigurveig við.

„Í heildina litið eftir sumarið erum við nokkuð sátt við dómana á okkar hrossum, það eru alltaf einhverjar tölur sem maður er hissa á, bæði upp og niður. Dómarar, sýnendur og eigendur þurfa líka að hjálpast að við að bæta mannleg samskipti til að létta yfirbragðið. Það á að vera ánægjuleg upplifun að mæta með hross í dóm. Dómarar og starfsfólk er í þjónustustörfum sem við borgum heilmikið fyrir en að sjálfsögðu þurfa þeir sem nýta sér þá þjónustu að sýna kurteisi og allir aðilar þurfa að sýna gagnkvæma virðingu. Eins finnst mér undarlegt að það sé hernaðarleyndarmál hvaða dómarar munu dæma á hverri sýningu, er þessi leynd ekki vantraust á dómarana? Og ef svo er, er það þá ekki eitthvað sem þarf að bæta?“ segir Jón en við endum þetta ræktunarspjall hér og hendum okkur í jólaspurningarnar.

 

Hvað er í matinn á aðfangadag? Við erum orðin svo gömul að börn og barnabörn koma ekki lengur til okkar, heldur erum við farin að fara til þeirra til skiptis. Ég veit það verður hamborgarhryggur og humar. Svo verðum við að mestu í rólegheitum að sinna hestunum yfir hátíðisdagana.

 

Hvernig er gamlársdag háttað? Við verðum með börnum og barnabörnum á Akranesi fram yfir áramótin. Svo vonum viðalltaf að það verði vont veður á gamlárskvöld svo við verðum ekki að eltast við hross hálfa nóttina sem hafa fælst á girðingar út af flugeldum. Við setjum folaldshryssurnar inn í reiðhöll ef það er flugeldaveður. Við vonum að það verði minna um flugelda í ár, þeir eru orðnir svo dýrir og margir orðnir svo umhverfisvænir. Vonandi hugsar fólk líka um umhverfið og velferð dýra á gamlaárskvöld!

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar