,,Þetta var eins og versta martröð“

  • 20. nóvember 2020
  • Fréttir

Raggi Hinriks er goðsögn í lifanda lífi

Nýjasta tímarit Eiðfaxa er nú farið í prentvélarnar, stútfullt af skemmtilegu efni og fróðleik.Vegna óviðráðanlegra ástæðna varð örlítil töf varð á útgáfu tímaritsins en það ætti að berast áskrifendum í næstu viku.

Í Eiðfaxa Haust er m.a. að finna viðamikið viðtal við Ragnar Hinriksson sem er hestamönnum að góðu kunnur og hefur frá ýmsu skemmtilegu að segja. Við skulum grípa niður í viðtalið þar sem Ragnar talar um Evrópumótið 1979 sem var að mörgu leyti eftirminnilegt. Viðtalið í heild sinni verður hægt að lesa í Eiðfaxa Haust.

EVRÓPUMEISTARI Á ROKUHESTI

Árið 1979 var ákaflega eftirminnilegt ár í hestamennsku Ragnars Hinrikssonar. Þá vann hann afrek sem verður líkast til aldrei leikið eftir aftur. Þetta sumar var haldið Evrópumót í Uddel í Hollandi og var í aðdraganda þess talað um að íslenska landsliðið hefði aldrei farið jafn vel hestað til leiks þar sem valdir hestar og knapar voru í hverju rúmi. Ragnar vann sér þátttökurétt með Gust frá Stykkishólmi í skeiði einnig með varahestinn Vála frá Akureyri í fimmgang. Keppnishestarnir fóru út ca 2-3 vikum fyrir mót en skömmu áður en keppni hófst fóru hestarnir síðan að veikjast hver af öðrum, fengu hita og urðu slappir. Í umfjöllun Eiðfaxa um mótið segir:

Það var átakanleg reynsla fyrir knapana að horfa upp á það að hver hestur á fætur öðrum tók að hósta og hiti á þeim fór upp í 40-41 stig. Í stað þess að þjálfa og búa sig undir keppni og sýna yfirburði hestanna frá norðurhjara var verkefni eigenda og knapa það eitt að hjúkra vansælum hrossum.“

„Þetta var eins og versta martröð“ segir Ragnar þegar hann rifjar þessa daga upp. „Við vorum með geysisterkan hóp af bæði knöpum og hestum á þessu móti en allar vonir og væntingar um að geta sýnt hestana fuðruðu upp hreinlega. Og til að bæta gráu ofan á svart þá veiktust nokkrir knapar einnig af einhverri pest svo bæði hestar og menn voru komnir að fótum fram. En í öllu þessu volæði fundum við um leið sterkt fyrir miklum velvilja frá öðrum keppendum og velunnurum frá öllum löndum sem þótti ómögulegt að halda mót án íslenskra keppenda. Þarna gekk hver undir annars hönd með að útvega okkur nýja keppnishesta og á örskömmum tíma fengum við aðgang að mörgum prýðisgóðum hestum til að keppa á. Þegar kom að því að úthluta hestum til knapa voru margir með sínar séróskir byggðar á fyrri kynnum af ákveðnum hrossum og ég hálfpartinn sat hjá þar til að potturinn var tæmdur og aðeins tveir hestar eftir. Annar þeirra var Fróði frá Ásgeirsbrekku. Þetta var hæfileikahestur en þótti ansi harður í skapi, var stimplaður rokuhundur þarna úti og var ekki vænlegur til árangurs. Ég fékk bara einn reiðtúr til að kynnast hestinum og svo beint í keppni. Ég fann að hann bjó yfir talsverðri getu og tölti vel en var stífur á tauminn. Það var enginn tími til að leggjast yfir slíkt svo ég lét vaða og hóf keppni í fimmgangi. Það fór vel af stað en inni í miðju prógrammi fann ég að hann var að mynda sig við að taka stökkið útúr brautinni. Þá var ekki um annað að ræða en leysa það á stað og stund og ég greip til þess ráðs að setja löppina á mér sem sneri frá dómurunum í snoppuna á hestinum. Það dugði til að hesturinn hætti að hugsa út fyrir braut og hélt áfram. Við stóðum efstir eftir forkeppnina og í úrslitum einnig. Ég varð svo þriðji á Fróða í 250 metra skeiði sem dugði til þess að við vorum stigahæsta par mótsins. Það var óneitanlega skemmtilegt að standa uppi sem sigurvegari þarna eftir allt sem á undan var gengið og minningin yljar.“

Tryggðu þér áskrift að Eiðfaxa, fáðu hann sendan heim að dyrum og styddu um leið við faglega umfjöllun um íslenska hestinn og allt það sem honum tengist með því að smella hér.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<