Þrettán hross hlutu 9,5 fyrir fótagerð
Nú þegar kynbótasýningum árið 2022 er lokið þá er gaman að renna yfir níufimmur og tíur ársins í einstökum eiginleikum. Næsti eiginleiki sem við tökum fyrir hér á vef Eiðfaxa er fótagerð.
Alls hlutu þrettán hross á árinu einkunnina 9,5 fyrir fótagerð en ekkert hross hlaut einkunnina 10,0 í ár. Öll hrossin voru sýnd á Íslandi fyrir utan þrjú, eitt í Danmörku, eitt í Noregi og eitt í Svíþjóð.
Til þess að fá glögga mynd af því eftir hverju er verið að leita þegar eiginleikinn er metin er gripið niður í stigunarkvarða einstaklingadóma og lýsing á einkunninni 9,5-10 í þeim eiginleikum sem teknir eru fyrir hverju sinni.
Fótagerð
Dómur á fótagerð skiptist í mat á útliti fótanna þar sem staða fram- og afturfóta er metin, sverleiki liða, lengdarhlutföll beina, vöðvafylling og prúðleiki þeirra; einnig er átak á fótum metið en þar er skoðuð þykkt sina, aðgreining þeirra frá leggjum og hversu þurrar sinar eru. Útlit fótanna vegur þyngra við einkunnagjöfina en átakið.
9,5 – 10
Rétt staða séð frá hlið á fram- og afturfótum; framfætur eru staðsettir framarlega við bóginn, eru beinir frá olnboga að kjúkum sem eru hæfilega langar og hallandi, afturfætur eru staðsettir undir hestinn þannig að setbein, hækill og afturleggur eru í lóðréttri línu og horn beina í mjaðmalið, hnjálið og hækli eru hæfilega kröpp. Þurrar, mjög sterklegar sinar og mjög góð skil sina og leggja. Liðir eru traustlegir, framfætur eru vöðvaðir og fætur eru prúðir.
Listi yfir þau hross sem hlutu 9,5 fyrir fótagerð
Nafn | Uppruni í þgf. | Sýnandi |
Bálkur | Litlu-Reykjum | Maiju Maaria Varis |
Bjartur | Strandarhjáleigu | Elvar Þormarsson |
Díva | Austurási | Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir |
Esja | Rauðalæk | Fanney Guðrún Valsdóttir |
Hrafndís | Hemlu II | Vignir Siggeirsson |
Hraunar | Sauðárkróki | Líney María Hjálmarsdóttir |
Ljósálfur | Syðri-Gegnishólum | Olil Amble |
Náttfari | Gunvarbyn | Anne Stine Haugen |
Rakel | Hólaborg | Þorgeir Ólafsson |
Sindri | Lækjamóti II | Ísólfur Líndal Þórisson |
Skýr | Ljosvoll | Erlingur Erlingsson |
Sparon | Íbishóli | Guðmar Freyr Magnússon |
Þistill | Lækjamóti II | Guðmar Þór Pétursson |