Landsmót 2024 Þrír stóðhestar náð afkvæmafjölda til heiðursverðlauna

  • 20. júní 2024
  • Fréttir

Álfaklettur stóð efstur í elsta flokki stóðhesta á Landssýningu árið 2020, stóð efstur 1.verðlauna stóðhesta fyrir afkvæmi á Landsmóti 2022 og telst líklegur til að verða Sleipnisbikarhafi á komandi Landsmóti.

Nýtt kynbótamat verður birt í næstu viku

Í dag fara fram kynbótasýningar á þremur stöðum á landinu þ.e. á Rangárbökkum, Selfossi og Hólum auk þess fer fram yfirlit í Spretti.

Nú þegar hafa þrír stóðhestar náð tilskildum fjölda afkvæma til heiðursverðlauna á komandi Landsmóti. Það eru þeir Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum, Hringur frá Gunnarsstöðum og Skaginn frá Skipaskaga.

Til að stóðhestur hljóti heiðursverðlaun fyrir afkvæmi verður hann að uppfylla tvö skilyrði; 118 stig í kynbótamati og 50 dæmd afkvæmi. Í framhaldi af því að hross hljóta nú tvær aðaleinkunnir, með og án skeiðs, eru stóðhestum sem hljóta 118 stig eða meira í aðaleinkunn kynbótamats án skeiðs nú líka veitt afkvæmaverðlaun. Áfram verður þó miðað við aðaleinkunn kynbótamatsins þegar hestum er raðað í verðlaunasæti á stórmótum.

Nýtt kynbótamat hrossa verður reiknað í næstu viku að loknum kynbótadómum á Íslandi og þá kemur endanlega í ljós hver þessara farsælu kynbótahesta hlýtur efsta sætið og hinn sögufræga Sleipnisbikar sem veittur er af Bændasamtökum Íslands.

 

Nafn Fjöldi afkvæma Núverandi kynbótamat
Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum 50 136
Skaginn frá Skipaskaga 53 126
Hringur frá Gunnarsstöðum 50 123

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar