Þytsfélagar og ræktendur í Vestur-Húnavatnssýslu verðlaunaðir

  • 15. nóvember 2024
  • Fréttir
Sameiginleg hátíð Þyts og hrossaræktarsamtaka V-Hún

Hestamannafélagið Þytur og hrossaræktarsamtök V-Húnavatnssýslu héldu sameiginlega uppskeruhátið laugardaginn 2.nóvember. Á heimasíðu Þyts segir frá því að þar hafi verið dásamlegur matur, góð skemmtiatriði, verðlaunaafhendingar venju samkvæmt og frábær félagsskapur.

Knapi ársins hjá Þýt var útnefndur Elvar Logi Friðriksson. Hann átti gott keppnistímabil og þá sérstaklega á Teningi frá Víðivöllum-Fremri í hinum ýmsu keppnisgreinum bæði í gæðinga- og íþróttakeppni. Knapi ársins í ungmennaflokki var Guðmar Hólm Ingólfsson en hann átti gott tímabil á hinum ýmsu hrossum og má þar nefna Alviðru frá Kagaðarhóli, Jökull frá Rauðlæk, Sindra frá Lækjamóti og Gretti frá Hólum. Þá var Jóhann B. Magnússon skeiðknapi ársins en hann keppti með góðum árangri í skeiðgreinum á Pílu frá Íbishóli. Þá hlaut sérstaka viðurkenningu, Þorgeir Jóhannesson, sem verður 80 ára á næsta ári en gefur öðrum knöpum ekkert eftir í útreiðum og keppni.

Aðrir verðlaunahafar voru eftirfarandi.

Þytsfélagi ársins: Herdís Einarsdóttir
Knapi ársins í 2.flokki: Halldór P. Sigurðsson
Knapi ársins í 3.flokki: Eva-Lena Lohi

Hrossaræktarbú ársins hjá HSVH er Lækjamót. Lækjamót komu fram með 13 hryssur til kynbótadóms á árinu og þar af voru 8 þeirra í verðlaunasæti á hátíðinni, ásamt því að ein þeirra stóð uppi sem hæst dæmda hryssa samtakanna. Meðalaldur þessarra hryssna var 5,4 ár og sex þeirra voru með yfir 8,40 í aðaleinkunn aldursleiðrétt.

Önnur tilnefnd bú voru: Bessastaðir, Efri-Fitjar, Grafarkot og Gröf

Hæst dæmdi stóðhestur HSVH er Hreggviður frá Efri-Fitjum 5 vetra aðaleinkunn 8,38. 

Hreggviður er myndar hestur afar fótahár og framhár með mjög öfluga fótagerð en hann hlaut 9 fyrir bæði samræmi og fótagerð og 8,5 fyrir háls, bak og lend og hófa. Þess utan er hann einstaklega prúður og hlaut hvorki meira né minna en 10 fyrir prúðleika. Hreggviður er takthreinn, rúmur og viljugur alhliðahestur með 8,5 fyrir tölt, skeið, greitt stökk og samstarfsvilja.

Hæst dæmda hryssa HSVH er Olga frá Lækjamóti 6 vetra. Aðaleinkunn 8,53. Olga er óvenjulega há fyrir sköpulag þar sem hún hlaut 9 fyrir höfuð, háls, bak, samræmi og prúðleika, hún er svipgóð, framhá og fótahá með afar góða yfirlínu. Svo er hún taktgóð, skrefmikil, hágeng og yfirveguð alhliðahryssa með 9 fyrir stökk og 8,5 fyrir tölt og hægt tölt, brokk, vilja og fegurð í reið. Olga var í 2.sæti í 6 vetra flokki hryssna á Landsmótinu í sumar

Hæst dæmda klárhrossið er Hátíð frá Efri-Fitjum 7 vetra. Aðaleinkunn 8,52. Aðaleinkunn án skeiðs 8,93. Hátíð er úrvals klárhryssa. Hún er vel sköpuð, framhá með afar góða baklínu og öfluga lend en hún hlaut 9 fyrir bæði bak og lend og samræmi og 8,5 fyrir háls/herðar/bóga, hófa og prúðleika. Hún er fótahá, með mikinn fótaburð, mikla þjálni og frábærar gangtegundir og hlaut hún hvorki meira né minna en þrjár 9,5ur í hæfileikum fyrir brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið og þrjár 9ur fyrir tölt, hægt tölt og greitt stökk.

Önnur verðlaunahross voru:

4 vetra hryssur:

1. Píla frá Lækjamóti

2. Lukka frá Lækjamóti

3. Vinátta frá Lækjamóti

 

5 vetra hryssur:

1. Ólga frá Lækjamóti

2. Óskastund frá Lækjamóti

3. Hetja frá Bessastöðum

5 vetra stóðhestar:

1. Hreggviður frá Efri-Fitjum

2. Frár frá Bessastöðum

3. Skjár frá Syðra-Kolugili

6 vetra hryssur

1. Olga frá Lækjamóti

2. Þrá frá Lækjamóti

3. Hekla frá Efri-Fitjum og Olía frá Lækjamóti

6 vetra stóðhestar

1. Dimmir frá Stóru-Ásgeirsá

2. Sjarmur frá Fagralundi

7 vetra og eldri hryssur

1. Hátíð frá Efri-Fitjum

2. Eind frá Grafarkoti

3. Rauðhetta frá Bessastöðum

7 vetra og eldri stóðhestar

1. Brandur frá Gröf

2. Saumur frá Efri-Fitjum

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar