Andlát Til minningar um Guðlaug Tryggva

  • 15. október 2024
  • Andlát

Hinn þekkti hestaljósmyndari og blaðamaður Guðlaugur Tryggvi Karlsson lést þann 22.september síðastliðinn og fór útför hans fram frá Vídalínskirkju í Reykjavík síðastliðinn föstudag, þann 11.október.

Hann var fæddur þann 9.september árið 1943 og skilur hann eftir sig fjögur börn þau eru Valdimar Karl, Karl Höskuldur, Bjarni Karl og Guðný. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin 8.

Guðlaugur var ötull í starfi sínu sem hestaljósmyndari og sjálfsagt eru þeir fáir sem komu hestaíþróttinni jafn vel á framfæri og hann. Hann var iðinn við það að koma helstu fréttum móta og ljósmyndum á framfæri við  alla fjölmiðla landsins. Hann reyndist Eiðfaxa vel og í gömlum tímaritum okkar má finna fjölda mynda sem hann tók. Þá segir Guðlaugur í viðtali við Dagblaðið Vísi árið 1987 að Eiðfaxi sé á meðal uppáhalds tímarita hans. Guðlaugur stundaði hestamennsku af miklu kappi og ferðaðist víða um land í lengri og styttri ferðalögum.

Eitt minnisstæðasta atvik í sögu Landsmóta er tengt Guðlaugi Tryggva. Á Landsmóti árið 1994 var Lúðrasveitin Svanur fenginn til þess að spila undir í úrslitum í tölti við lítinn fögnuð þeirra hrossa sem í þeim kepptu. Skipti engum togum að eitt hrossanna, Börkur frá Efri-Brú, sem setinn var af Sigvalda Ægissyni tók á rás inn í miðjan hringinn stefndi í átt að Guðlaugi sem átti fótum sínum fjör að launa en vék sér fimlega undan, líkt og í nautaati.

Hér fyrir neðan má sjá þetta atvik sem lifir enn þann dag í dag, 30 árum seinna, í minni þeirra sem sáu.

Fyrir hönd Eiðfaxa þökkum við þá velvild sem hann sýndi miðlinum á sínum tíma og sendum hans nánustu samúðarkveðjur.


Eiðfaxi birtir minngarorð og andlátsfréttir af hestamönnum. Viljir þú koma á framfæri slíku efni má senda póst á eidfaxi@eidfaxi.is

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar