Til minningar um Ragnheiði Hrund
Ragnheiður Hrund situr hér stóðhestinn Arion frá Eystra-Fróðholti
Ragnheiður Hrund Ársælsdóttir lést þann 30. desember, aðeins 34 ára að aldri. Útför hennar fer fram í dag frá Víkurkirkju og hefst athöfnin klukkan 13:00.
Ragnheiður Hrund var frá unga aldri vel þekkt í heimi hestamanna. Áhugi hennar á hrossum kviknaði snemma og var eðlilegur hluti af uppvexti hennar, enda dóttir hjónanna Ársæls Jónssonar og Önnu Fíu Finnsdóttur, sem um áratugaskeið hafa stundað öfluga og farsæla hrossarækt frá Bakkakoti og Eystra-Fróðholti. Þar ólst Ragnheiður upp í nánum tengslum við hesta og mótaðist snemma áhugi fyrir þessum mikilfenglegu dýrum.
Ragnheiður tók virkan þátt í ræktuninni að Eystra-Fróðholti og lagði sitt af mörkum bæði sem ræktandi og knapi. Hún var eigandi og ræktandi að fjölmörgum stórgæðingum og sýndi jafnan mikla natni og næmni í umgengni við hrossin.
Þar má meðal annars nefna alsystkinin og gæðinganna Glímu frá Bakkakoti, sem Ragnheiður náði eftirtektarverðum árangri með í keppni, Landsmótssigurvegarann Spá frá Eystra-Fróðholti og hinn fallna stórgæðing Arion frá Eystra-Fróðholti, sem skipaði sérstakan sess í hennar lífi.
Megi Guð og allir góðir vættir styrkja og styðja fjölskyldu og vini Ragnheiðar Hrundar á þessari erfiðu stundu.
Starfsfólk Eiðfaxa vottar aðstandendum og öllum þeim sem syrgja þeirra dýpstu samúð.
Beint streymi frá útförinni verður hér á vef Eiðfaxa í dag.
Til minningar um Ragnheiði Hrund