Tilnefningar til ræktunarbús og kynbótaknapa ársins væntanlegar

Syðri-Gegnishólar/Ketilsstaðir var ræktunarbú ársins 2022
Tilnefningar til hinna ýmsu verðlauna sem veittar verða á uppskeruhátíð hestamanna um næstu helgi voru kunngjörðar fyrir nokkru síðan, í kjölfarið hafa margir sett sig í samband við Eiðfaxa og undrað sig á því að ekki sé búið að tilkynna um tilnefningar til ræktunarbús ársins og kynbótaknapa ársins, en þetta á sér eðlilegar skýringar.
Nanna Jónsdóttir, formaður fagráðs í hrossarækt og búgreinadeildar hrossabænda, hafði þetta um málið að segja í samtali við Eiðfaxa.
„Stefnt er að því að halda ráðstefnu fagráðs hátíðlega þann 3. desember næstkomandi í félagsheimili Fáks í Víðidal. Þar verða ræktunarbú ársins heiðruð ásamt kynbótaknapa ársins og hinum ýmsu öðrum viðurkenningum. Á ráðstefnunni gerum við einnig ráð fyrir að kynna greiningarvinnu sem fagráð fór í haust vegna kynbótasýninga og taka opið samtal við ráðstefnugesti ásamt því að fá áhugaverðar kynningar á rannsóknum sem eru í gangi, hvet alla til að taka daginn frá og taka þátt í ráðstefnunni með okkur. Tilnefningar verða kunngjörðar von bráðar ásamt frekari kynningu á ráðstefnunni.“
Mikil spenna ríkir á meðal hestamanna hverjir hljóta þessar útnefningar en mikill heiður er af því að fá viðurkenningu fyrir góðan ræktunarárangur.
Reglur fagráðs um tilnefningar til ræktunarbúa má lesa hér.