TÍMAVÉLIN – Rúna Einarsdóttir vildi gerast einsetukona

Það eru margir gullmolarnir sem leynast í safni Eiðfaxa og á næstunni verða nokkrir þeirra birtir hér á vefnum, enda alltaf skemmtilegt að rifja upp fyrri tíma í máli og myndum.
Tímavélin fer í sinni fyrstu ferð aftur til ársins 1986. Í 3. tölublaði Eiðfaxa það ár var viðtal við unga og bráðefnilega tamningakonu úr A-Húnavatnssýslu sem þá, aðeins tvítug að aldri, var flutt til höfuðborgarinnar og hafði tekið tamningastöð Fáks til leigu þá um veturinn. Rúna Einarsdóttir hafði þá þegar, þrátt fyrir ungan aldur, getið sér gott orð sem tamningakona og í viðtalinu segir hún frá uppvaxtarárunum norður á Mosfelli, búfræðináminu sem hún stundaði í Landbúnaðarskólanum á Hvanneyri og ýmsu fleira. Í lok viðtalsins er hún spurð um það hverjir framtíðardraumarnir séu:
„Ég vona að ég geti unnið við þetta áfram í næstu framtíð. Ég á óhemju margt ólært á þessu sviði, líklega verður maður aldrei fullnuma, það er hægt að læra eitthvað af hverjum nýjum hesti og hverjum einum hestamanni hvernig hlutirnir eiga að vera eða hvernig þeir eiga ekki að vera. Vissulega væri gaman að fást við einhverja hrossarækt en á slíku byrjar enginn með tvær hendur tómar. En draumurinn er auðvitað að verða einsetukerling, umkringd hrossum þó, á ættarsetrinu Vatnshorni í Skorradal.“
Tímavélin verður keyrð í gang með reglulegu millibili í vetur og mun áfram grafa upp skemmtilegt efni úr Eiðföxum fyrri tíma.