TÍMAVÉLIN – Þegar ísinn brast…

Frá deginum viðburðaríka fyrir 12 árum. Mynd: Mbl/Golli
Tímavél Eiðfaxa getur aðeins stoppað á einum stað því í dag, 3. febrúar 2021, eru liðin 12 ár frá því þegar ísinn á Tjörninni í Reykjavík brast undan knöpum og hestum. Það var 3. febrúar árið 2009 sem Meistaradeildin í hestaíþróttum var með uppákomu á Tjörninni þar sem knapar og hestar nýttu frábært veður til að kynna Meistaradeildina fyrir gestum og gangandi. Þegar á reyndi var ísinn þó ekki jafn traustur og menn höfðu ætlað og ellefu hestar og knapar fóru niður.
Úr varð mikil dramatík þar sem reynt var að bjarga hrossunum upp úr ísköldu vatninu áður en illa færi og að öðrum ólöstuðum fór Fjölnir Þorgeirsson, ritstjóri Hestafrétta þar fremstur í flokki. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Fjölnir um atburðarásina: „Ég sagði þeim að taka einn hest í einu, en allir voru að tosa í beislin á hestunum sínum. Það var mitt mottó: Einn í einu.“
Daníel Ben Þorgeirsson var á vegum Hestafrétta á staðnum þennan dag og náði að festa dramatísk augnblik á filmu sem er aðgengilegt á Youtube. Sjón er sögu ríkari.