Tromma og Tenór efst á Hellu
Síðustu kynbótasýningu ársins hér á landi lauk í dag þegar yfirlit fór fram á Rangárbökkum við Hellu. Alls voru 88 hross sýnd í vikunni og þar af 70 þeirra í fullnaðardómi. Dómarar á sýningunni voru þau Þorvaldur Kristjánsson, Elisabeth Trost og Óðinn Örn Jóhannsson.
Hæst dæmdi stóðhestur sýningarinnar var hinn 12.vetra gamli Tenór frá Litlu-Sandvík, sem hefur gert það gott í sumar í keppni í barnaflokki með knapa sínum Emmu Rún Arnardóttur. Ræktandi Tenórs er Kristjón Benediktsson en eigendur eru Emma Rún Arnardóttir og Sigríður Óladóttir. Faðir Tenórs er Eldjárn frá Tjaldhólum og móðir er Glódís frá Litlu-Sandvík. Fyrir sköpulag hlaut hann 8,37, fyrir hæfileika 8,19 og í aðaleinkunn 8,26. Hann hlaut 9,0 fyrir tölt, brokk, samstarfsvilja og fegurð í reið sýndur af Jóni Ársæli Bergmann.
Hryssan Tromma frá Kjarnholtum var hæst dæmda hryssa sýningarinnar með 8,26 í aðaleinkunn. Hún er 10.vetra gömul undan Trymbli frá Stóra-Ási og Heru frá Kjarnholtum 1. Ræktandi er Magnús Einarsson en eigandi Guðlaugur Birnir Ásgeirsson. Hún hlaut fyrir sköpulag 8,34, fyrir hæfileika 8,21 og í aðaleinkunn 8,26. Sýnandi var Sigurð Sigurðarson.
Eitt hross á sýningunni hlaut úrvals einkunnina 9,5 fyrir einstakan eiginleika í hæfileikum. Það var hinn þekkti keppnishestur Vísir frá Kagaðarhóli sem hlaut einkunnina 9,5 fyrir hægt tölt, sýndur af Páli Braga Hólmarssyni.