„Trúir þessu enginn nema verða vitni að því“

  • 19. mars 2020
  • Fréttir

Séð yfir bæinn í Gauksmýri glöggt má sjá hvernig snjórinn flæðir yfir þakið á hesthúsinu. Mynd: Kolbrún Grétarsdóttir

Að Gauksmýri í Vestur-Húnavatnssýslu býr Jóhann Albertsson ásamt konu sinni Kolbrúnu Grétarsdóttur og börnum sínum Alberti og Hrund og tengdasyninum Gunnari Páli. Á bænum er rekin myndarleg ferðaþjónusta þar sem m.a. er boðið upp á kynningu á íslenska hestinum.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að ástandið á norðurlandi hefur verið slæmt hvað veðurfar varðar og urðu bændur þar fyrir miklum áföllum í kjölfar óveðurs sem geisaði dagana 10.-12. desember.
Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa, skrifaði viðamikla grein um velferð hrossa á útigangi í kjölfar óveðursins sem allir ættu að lesa, greinina má finna í nýútkomnu tímariti Eiðfaxa Vetur.

Áföllin dunið á okkur

Blaðamaður Eiðfaxa hafði samband við Jóhann bónda á Gauksmýri þar sem hann var að leita að rúllum sínum í fönninni og spurði hann út í ástandið.
„Þetta er án alls vafa erfiðasti vetur sem ég hef lifað veðurfarslega síðan ég flutti að Gauksmýri, en þetta er 24 veturinn minn hér. Veður hefur í raun verið afleitt frá hríðinni í byrjun desember og einungis komið einn og einn þokkalegur dagur inn á milli. Við erum t.d. þrisvar sinnum búinn að þurfa að moka snjó af þökum með hjálp góðs fólks úr samfélaginu, en þökin hafa verið við það að sligast undan fannferginu. Mér sýnist að eftir úrkomu næturinnar bíði okkar að moka af þeim einu sinni enn. Hér eru miklar byggingar sem safna að sér snjó og þá höfum við plantað mikið af trjám sem snjórinn safnast í kringum. Ég held að enginn trúi því hvernig staðan er hér norðanlands sem ekki hefur orðið vitni að því. Snjósöfnunin er það mikil að það sést vart milli húsa.

Fólk hefur hjálpast að við það að moka snjó af þökum

En hvernig er ástandið á bústofninum á bænum. „Það er svo skrýtið að jörð er víða auð í úthaganum og hafa hrossin því haft haga en við manngerð skjól er allt á kafi. Við vorum svo lánsöm að hafa ekki misst neina skepnu í þessu árferði en við höfum gefið mikið og má reikna með að rúmlega tvöfalt heymagn hafi verið gefið það sem af er vetri miðað við venjulegt árferði. Við höfum þurft að hækka mikið af girðingunum til þess að halda hrossum innan þeirra. Allar skepnur hafa því í rauninni haft það ágætt. Við höfum þó ekki náð að þjálfa sem skyldi en við erum með rúmlega 20 hross á járnum og höfum nánast eingöngu þurft að þjálfa innandyra að undanskildum afleggjaranum sem hægt er að ríða fram og til baka.“ 

Oft hefur þurft að leita að rúllum í fannferginu

 

Eins og áður segir er rekin ferðaþjónusta að Gauksmýri og því hefur Covid-19 einnig sett strik í reikninginn. „Ástandið skánaði ekki þegar þessi veira bættist ofan á allt það sem hefur gengið á. Það hafa nú þegar orðið miklar afbókanir í gistingu og því miklir óvissutímar fram undan. Maður varla sér orðið ferðamann að undanskildum þeim sex sem eru veðurtepptir hér á staðnum akkúrat núna. Ég myndi því segja að ástandið væri frekar svart í ljósi veðurfars og veiru.“

 

Eiðfaxi þakkar Jóhanni fyrir spjallið og óskar honum og hans fólki velfarnaðar í komandi verkefnum.

Öllum skepnum lýður vel hjá þeim á Gauksmýri, hér má sjá hversu háir skaflarnir eru

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar