Undirskriftasöfnun gegn víðtækri notkun flugelda

  • 7. janúar 2026
  • Fréttir
Tilefnið er meðal annars áhrif flugelda á dýr, umhverfi og öryggi almennings.

Á hverju ári spretta upp umræður og umfjallanir um flugelda notkun Íslendinga í kringum áramót. Sú umræða hefur náð töluverðu flugi síðustu daga. Meðal annars í facebook hópnum, Hestasamfélagið þar sem Dagrún Sunna hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem kallað er eftir hertum reglum um notkun flugelda hér á landi. Tilefnið er meðal annars áhrif flugelda á dýr, umhverfi og öryggi almennings.

Í færslu á Facebook bendir Dagrún á að núverandi reglur leyfi notkun flugelda yfir langan tíma í kringum áramót, sem geti haft alvarlegar afleiðingar. Hún nefnir aukna slysahættu, álag á heilbrigðis- og slökkvilið, verulega loftmengun og mengun í umhverfinu vegna rusls sem oft er ekki tínt upp. Sérstaka áherslu leggur hún á áhrif flugelda á dýr. Að hennar sögn eru bæði gæludýr, húsdýr og villt dýr berskjölduð gagnvart hávaða og hvellum sem standa dögum saman. Hún lýsir meðal annars eigin reynslu af hryssu sinni, Brjóstbirtu, sem hætti að éta vegna mikils kvíða þegar flugeldatímabilið hófst. Þá þekkir hún einnig dæmi um hesta sem hafa brotist út úr hesthúsum í skelfingu.

Dagrún veltir því upp hvort sanngjarnt sé að „skammtímaskemmtun“ fárra bitni á líðan, heilsu og öryggi manna og dýra. Hún bendir á að víða erlendis hafi verið farin önnur leið, til dæmis með því að banna almenna sölu flugelda og halda í staðinn skipulagðar flugelda- eða ljósasýningar.

Með undirskriftasöfnuninni vill hún hefja opna umræðu og þrýsta á að lög og reglur um flugelda verði endurskoðuð, meðal annars með takmörkunum á notkun utan þéttbýlis og á svæðum þar sem hrossahjarðir eru algengar. Undirskriftalistinn er aðgengilegur á island.is og þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum til að taka þátt.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar