Andlát Unn Kroghen látin

  • 19. ágúst 2024
  • Andlát Fréttir

Unn Kroghen og Kraki á Landsmóti árið 1990. Ljósmynd: Eiríkur Jónsson

Látin er Unn Kroghen Aðalsteinsson eftir langa baráttu við krabbamein, 63 ára að aldri

Unn Kroghen var fædd þann 15. október 1960 í Noregi þar sem hún ólst upp og komst þar snemma í kynni við íslenska hestinn sem varð hennar helsta viðfangsefni á æviferlinum. Með fráfalli hennar er horfin á braut ein af merkilegri persónum Íslandshestamennskunnar, manneskja með einstaka hæfileika í samskiptum við dýr og þá sér í lagi hesta og hunda.

Segja má að Unn hafi skotist upp á stjörnuhimin Íslandshestamennskunnar á Evrópumóti íslenska hestsins sem haldið var 1981 í Larvik í Noregi. Keppti hún þar á hestinum Seifi frá Kirkjubæ og urðu þau þar, öllum að óvörum,  í öðru sæti í tölti og fjórgangi. Vakti frammistaða þeirra verðskuldaða athygli á mótinu og skapaði Unn brautargengi til frekari afreka á þessum vettvangi.

Síðar flutti Unn til Íslands og starfaði hér við þjálfun hrossa við góðan orðstír. Hæst bar orðspor hennar hér á landi þegar hún reið hinum mjallhvíta Kraka frá Helgastöðum í annað sæti í B-flokki á landsmótinu á Vindheimamelum 1990. Segja má að með þeirri sýningu hafi hún markað djúp spor í þróun íslenskrar reiðmennsku þegar hún reið þessum vandmeðfarna hesti “við taum” með höfuð í lóð á brokki sem var að heita mátti óþekkt fyrirbæri á þeim vettvangi á þessum tíma. Unn varð einnig íslandsmeistari í tölti og fjórgang sama ár.

Eftirlifandi eiginmaður hennar er sá kunni skeiðknapi Aðalsteinn Aðalsteinsson en saman eiga þau dótturina Helenu Kroghen Aðalsteinsson. Þau bjuggu lengst af í Svíþjóð.

Starfsfólk Eiðfaxa sendir aðstandendum Unn innilegar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Unn Kroghen

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar