Umfang Stóðhestastöðvar Íslands eykst

  • 6. nóvember 2025
  • Fréttir

Guðmundur í Skálakoti heldur hér í hest sinn Skýr að lokinni sæðistöku nú í haust

Ræktendur íslenska hestsins víðsvegar um heiminn fá nú aðgang að fjölbreyttara úrvali gæðinga með aukinni starfsemi á Efri-Holtum.

Umfang Stóðhestastöðvar Íslands, sem rekinn er af  Guðmundi Jóni Viðarssyni, eykst til muna nú á komandi ári þar sem margir hátt dæmdir og afkastamiklir stóðhestar hafa bæst í hóp þeirra sem í boði verða til notkunar.

Stóðhestastöðin er staðsett að Efri-Holtum í Vestur-Eyjafjallahreppi, starfsemi hófst þar fyrir rúmu ári síðan og voru fyrstu skammtar af sæði fluttir út síðastliðið sumar. En nú þegar haldið er inn í annað tímabilið er ljóst að slá á í klárinn og bjóða ræktendum íslenska hestsins, víðsvegar um heim, aðgang að úrvals erfðaefni með tilkomu nýrra gæðinga til viðbótar við þá sem voru í boði á síðasta sumri.

„Mér lýst vel á framvinduna í þessu og ég finn mikinn áhuga erlendis. Ég byrjaði með tvo endursölu aðila niður í Þýskalandi síðasta sumar og er nú alla daga í samskiptum við fólk sem vill halda hryssunum sínum við þá stóðhesta sem ég hef í boði. Ég lít á mig sem heildsala frekar en smásala og er á höttunum eftir góðum samstarfsaðilum, samt ekki of mörgum, sem víðast í heiminum til að þétta netið. Þannig að einstaklingur sem vill halda sinni hryssu eða hryssum þurfi ekki að sækja í sæðið úr stóðhestunum um of langan veg. Stefnan hjá mér í vetur er því að heimsækja slíka aðila og koma á fót samstarfi við þá.“  Sagði Guðmundur í samtali við Eiðfaxa um hvernig honum litist á framvinduna.

Þeir hestar sem nú hafa mætt eða eru að mæta til sæðistöku og verða í boði fyrir hryssueigendur nær hvar sem er í heiminum eru, samkvæmt Guðmundi, eftirtaldir:

Adrían frá Garðshorni á Þelamörk, Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum, Dalvar frá Efsta-Seli, Ellert frá Baldurshaga, Kastor frá Garðshorni á Þelamörk, Kór frá Skálakoti, Vísir frá Kagaðarhóli, Skýr frá Skálakoti og Þráinn frá Flagbjarnarholti.

Þá hefur ný heimasíða stóðhestastöðvarinnar verið sett í loftið og hægt er að skoða hana með því að smella hér.

 

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar