Útflutningur á sæði innan seilingar

Guðmundur Viðarsson og Jóhanna Þórhallsdóttir, hrossa- og ferðaþjónustubændur í Skálakoti, hafa verið að reisa einangrunar- og sæðingastöð á jörðinni Efra-Holti í Vestur-Eyjafjallahreppi. Starfsemi stöðvarinnar er að hefjast en 1. apríl munu fyrstu stóðhestar mæta á stöðina.
„Við erum núna á lokametrunum og 1. apríl mæta fyrstu hestar á stöðina. Ef allt fer eftir áætlun verðum við tilbúin til útflutnings á fersku og frosnu sæði eftir 1. maí,“ segir Guðmundur en stóðhestarnir þurfa að hafa verið í 30 daga einangrun áður en farið er að taka úr þeim sæði til útflutnings.
Nú þegar hefur Guðmundur fengið góð viðbrögð við áætlunum sínum og sérstaklega erlendis frá. „Ég setti út tilkynningu núna í hádeginu í dag og nokkrum mínútum seinna var stór aðili í Hollandi búinn að hafa samband við mig en það er greinilega mikill áhugi erlendis frá.“