Útiganga að vetrarlagi er ekki slæm fyrir hross
Í kvöldfréttatíma RÚV í gær var viðtal við Sigríði Björnsdóttur, sérgreinadýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun, um útigöngu hrossa að vetri. Veðrið undanfarnar vikur hefur verið vont á norðanverðu landinu og víða snjóað mikið. Fjöldi hrossa er á útigangi og þegar svona árar hafa margir áhyggjur af velferð þeirra og telja þessar aðstæður skaðlegar fyrir hrossin.
Sigríður segir skipta miklu máli hvernig hross eru haldin þegar vetur skellur á. „Og þá er auðvitað mikilvægt að hrossin fái tækifæri til að safna aðeins forða. Þá þurfa þau að vera á góðri haustbeit þannig að þau séu með ágætt fitulag,“ segir hún. Þá verði að flokka hross eftir fóðurþörf. Hryssur, folöld og trippi í vexti þurfi til dæmis meira fóður en hraustir fullorðnir hestar. „Og bara umfram allt að fylgjast reglulega með holdafari. Holdafarið er besti mælikvarðinn á það hvernig þau þrífast og hvernig þeim líður.“
Hægt er að sjá fréttina og viðtalið við Sigríði á vef RÚV.