Útskriftar nemar á Hólum kynntu lokaverkefni sín

Glæsilegur hópur nemenda ásamt stoltum kennurum að kynningum loknum. Ljósmynd: vefsíða Hólaskóla
Á heimasíðu Háskólans á Hólum er að finna frétt þess efnis að dagana 7.-8. apríl hafi verið haldin lítil ráðstefna á vegum Hestafræðideildar Háskólans á Hólum. Um er að ræða uppskeruhátíð hjá nemendum á þriðja og síðasta ári í BS námi í reiðmennsku og reiðkennslu þar sem þeir kynna rannsóknarniðurstöður úr lokaverkefnum sínum. Auk þess kynnti einn meistaranemi rannsóknarniðurstöður sínar.
Ráðstefnan var haldin í gamla íþróttasalnum í aðalbyggingu Háskólans á Hólum, en sá salur hefur nýverið fengið mikla andlitslyftingu.
Þarna mættu til að hlýða á nemendur, starfsmenn Hestafræðideildar, stoðdeildar Háskólans, rektor og örfáir utanaðkomandi gestir til dæmis eldri nemendur og einn sérstakur velunnari skólans. Einnig mættu 1. árs nemendur Hestafræðideildar til að undirbúa sig fyrir það sem koma skal á 3. árinu sínu, en nemendur á 2. ári eru nýlega farnir í verknám vítt og breitt um landið og gátu því ekki nema einstaka mætt úr þeirra hópi.
Nemendur geta valið að skrifa og kynna verkefnin sín annað hvort á íslensku eða ensku. Rannsóknarverkefnin sem þarna voru kynnt höfðu fjölbreytt viðfangsefni tengt hestum og/eða knöpum og báru eftirfarandi titla:
1. Könnun á lífstílsþáttunum; íþróttaiðkun, mataræði, svefni, reglusemi og andlegri þjálfun hjá afreksknöpum á Íslandi.
2. Body measurements and assymmetry in equestrian university students.
3. Hvíldarhegðun hesta á mismunandi undirburði við húsvist.
4. Þróun á hlutföllum á milli hæðar á herðar og skrokklengdar íslenskra hrossa.
5. Könnun á efnum sem notuð eru í reiðhallargólf hjá atvinnuknöpum á Íslandi.
6. Exploring the Association Between Dental Health and Equine Glandular Gastric Disease in Icelandic Horses.
7. Áhrif hraða á einkunnir hjá afrekshrossum í töltkeppni (T1).
8. Áhrifaþættir fyrir hraða á 100 m fljúgandi skeiði.
9. Áhrif aldurs á tíma íslenskra skeiðhesta í 250 m kappreiðum.
10. Endurheimt mjólkursýru hjá 250 m skeiðkappreiðahestum.
11. Áhrif 250 m skeiðspretts á endurheimtarhjartslátt hjá íslenskum hestum.
12. Líkamsmál og þungi hesta og knapa á HM íslenska hestsins 2023: Niðurstöður úr meistaraverefni.