Védís Huld og Ísak heimsmeistarar í tölti ungmenna

Védís Huld og Ísak frá Þjórsárbakka. Ljósmynd: Henk & Patty
Spennan var mikil fyrir úrslitum í tölti ungmenna. Þar áttu Íslendingar þrjá fulltrúa þær Lilju Rún Sigurjónsdóttur, Védísi Huld Sigurðardóttur og Þórgunni Þórarinsdóttur. Védís Huld kom efst inn í úrslitin ásamt hinum þýska Daniel Rechten og fyrirfram var búist við því að þau myndu berjast um sigurinn.
Að loknu sýningum á hægu tölti og hraðabreytingum var Védís örlítið hærri en Daniel. Á greiða töltinu skyldi þó á milli og Védís Huld og Ísak frá Þjórsárbakka náðu í sinn annan heimsmeistaratitil á mótinu. Daniel Rechten og Óskar frá Lindeberg hlutu þó ekki verðlaun í greininni þar sem þeir stóðust ekki dýralæknaskoðun að loknum úrslitum, þeir fara þó ekki tómhentir heim frá mótinu þar sem þeir urðu samanlagði heimsmeistarar í fjórgangsgreinum.
Þær Þórgunnur á Djarfi og Lilja Rún á Arion stóðu sig einnig mjög vel þar sem Lilja hlaut silfur og Þórgunnur varð í fimmta sætinu. Þórgunnur og Djarfur mæta svo til A-úrslita í fimmgangi síðar í dag.
# | Knapi | Hestur | Einkunn |
1 | Védís Huld Sigurðardóttir | Ísak frá Þjórsárbakka | 7.50 |
2 | Lilja Rún Sigurjónsdóttir | Arion frá Miklholti | 7.11 |
3 | Miina Sarsama | Freir fra Kaakkola | 7.00 |
4 | Livni Leitner | Klassi frá Arnarstaðakoti | 6.78 |
5 | Þórgunnur Þórarinsdóttir | Djarfur frá Flatatungu | 6.61 |
6 | Daniel Rechten | Óskar från Lindeberg | 7.33 |