Védís og Ísak heimsmeistarar í fjórgangi ungmenna

Védís Huld og Ísak. Ljósmynd: Henk og Patty
Einu A-úrslitin sem fram fóru í dag í hringvallargrein voru í fjórgangi ungmenna. Þar átti Ísland einn fulltrúa, Védísi Huld Sigurðardóttur á Ísaki frá Þjórsárbakka, hún stóð uppi sem sigurvegari og er því heimsmeistari í greinni. Hún fær tækifæri til að endurtaka leikinn á morgun þegar hún mætir til úrslita í tölti en fær þá samkeppni m.a. frá íslensku knöpunum þeim Þórgunni Þórarinsdóttur og Lilju Rún Sigurjósdóttur.
Vel af sér vikið hjá Védísu sem sigrar þrátt fyrir að hafa lent í smávægilegum vandræðum með sýningu á brokki.
Sæti. | Knapi | Hestur | Einkunn |
1 | Védís Huld Sigurðardóttir | Ísak frá Þjórsárbakka | 7.13 |
2 | Amanda Frandsen | Tinna frá Litlalandi | 6.90 |
3 | Thea Hansen | Varða frá Feti | 6.83 |
4 | Leni Köster | Rögnir frá Hvoli | 6.63 |
5 | Miina Sarsama | Freir fra Kaakkola | 6.37 |
6 | Daniel Rechten | Óskar från Lindeberg | 5.03 |