Velferð hesta

  • 14. maí 2023
  • Fréttir
Grein eftir Dýraverndarsamband Íslands

Þekking manna á lífeðlisfræði, atferli og eðlisfari hesta er sífellt að aukast með faglegum rannsóknum, menntun og fræðslu. Þetta hefur skilað sér í aukinni hestavelferð og ánægðari hestaeigendum. Aðbúnaður og fóðrun hrossa er til að mynda langtum betri en áður var sem og tamninga- og þjálfunaraðferðir sem byggja í dag meira á jákvæðri styrkingu og auknum skilningi á eðli hrossa.

Skortur á eftirliti með velferð hesta í keppni

Fræðsla vegur þyngst varðandi bætta velferð hesta. Regluverk og eftirlit í keppni hefur einnig mikið vægi þar sem keppni og sýningar eru fordæmisgefandi. Því miður virðist oft skorta upp á eftirlit með hestavelferð í keppnum og að okkar mati þarf að auka áherslu á hestvæna reiðmennsku.

Hestar eru yfirleitt ekki heilsufarsskoðaðir fyrir og eftir keppni nema ef um stórmót er að ræða. Reiðbúnaður keppenda er oftast ekki skoðaður áður en farið er í braut, en það er nauðsynlegt til að koma t.d. í veg fyrir að reiðmúlar séu of strekktir. Því miður er algengt að sjá hesta í keppni sem látnir eru ganga með höfuðið svo mikið í lóð að það hefur áhrif á eðlilega öndun þeirra, þannig að þeir þurfa að notast að hluta til við loftfirrða öndun vegna stöðu höfuðsins. Oft sjást knapar nota mikinn og sífelldan taumstuðning í keppni sem getur verið sársaukafullt fyrir hestana. Það virðist einnig vera að aukast að knapar sitji of aftarlega og þungt í hnakknum í keppni sem er neikvætt fyrir bakheilsu hesta þar sem of mikil þyngd lendir á viðkvæmasta svæði baksins. Ekki er hægt að skella skuldinni eingöngu á knapa þegar ofantalið er farið að sjást oftar í keppni, heldur verður að skoða kröfur og aðstæður ef slíka reiðmennsku þarf til að fá háar einkunnir á hestamóti.

Hestavelferð er á réttri leið hér á landi. Mikilvægt er að halda umræðunni lifandi svo sífellt megi bæta vellíðan og velferð hesta á öllum sviðum hestamennskunnar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar