Velferð hrossa á útigangi

  • 19. mars 2020
  • Fréttir

Mynd af hrossum í óveðri, þessi hross höfðu aðgang að skjóli og útihúsum en kusu frekar að standa á berangri. Mynd: Michaela Raždíková

í nýjasta tölublaði Eiðfaxa – Eiðfaxa Vetur – birtist grein eftir Sigríði Björnsdóttur sérgreinadýralækni hrossa um velferð hrossa á útigangi. Greinin birtist hér í heild sinni enda um ákaflega nauðsynlegan lestur að ræða í kjölfar óveðurs sem geysaði í desember síðastliðnum.

 

Velferð hrossa á útigangi

Íslenski hesturinn er aðlagaður að veðurfari á norðlægum slóðum og því vel í stakk búinn til að ganga úti að vetri. Af líffræðilegri aðlögun ber fyrst að nefna vetrarfeldinn sem veitir einstaka einangrun, loftkenndur sem dúnn næst húðinni með löngum vindhárum. Fita í feldinum hrindir frá sér vatni. Húðin er þykk og við kaldar aðstæður dregur nær alveg úr blóðstreymi til hennar til að minnka hitatap. Þá safna hross fituforða undir húð til að auka einangrunina. Hross hafa þann hæfileika að geta sofið standandi og eru með sérstaklega þróað æðakerfi í fótum sem hindrar að kalt blóð frá fótum kæli líkamann og kemur í veg fyrir að hrossum verði kalt á fótunum. Þannig geta þau staðið í snjó langtímum saman  án þess að eyða í það umtalsverðri orku. Örverumelting gróffóðurs í víðgirni og botnlanga er innbyggður hitagjafi sem endist lengi eftir að beit eða annað fóður þrýtur. Þá koma ennfremur við sögu sérþróuð efnaskipti sem auðvelda hrossum að nýta fitu sem aðal orkugjafa en auk fitulagsins undir húðinni geyma hross miklar orkubirgðir í fitu í vöðvum og kviðarholi. Þá er ótalið hjarðeðlið sem þjappar hrossum saman í vondu veðri þannig að þau skýla hvert öðru á meðan snjó skefur undir fótum þeirra. Taglið ver afturendann sem þau snúa undantekningalaust upp í veðrið á meðan höfuðið er lágreist í skjóli búksins. Folöldin eru vel varin í skjóli mæðra sinna, gjarnan mitt inni í hópnum og þar kemur annað ungviði sér einnig fyrir. Hætta er á að einstaklingar sem eiga undir högg að sækja, t.d. gömul hross, lendi á jaðrinum og þurfa umráðamenn að vera vakandi fyrir því en alla jafna skiptast hrossin á við að standa áveðurs. Fleira sem snýr að atferli hrossa mætti nefna; þau forðast greinilega allar aðþrengdar aðstæður, sviptivinda sem einkum myndast í kringum mannvirki og hvers kyns hávaða. Að öðru leyti stjórnar aðgengi að fóðri miklu um hvar þau halda sig. Því er mikilvægt að velja gjafastaði sem eru heppilegir út frá veðurhorfum og halda hrossum þar sem slysahættur eru sem minnstar.

Stóðhross eru í raun allt sumarið að undirbúa áhlaup komandi vetrar þó segja megi að haustið sé mikilvægasti tíminn. Þá þurfa öll hross sem ætlað er að ganga úti frameftir vetri, eða vetrarlangt, að hafa aðgang að góðri beit og mikilvægt er að þau nái 3,5 í holdastigun, sem svarar til ríflegra reiðhestsholda. Best er að halda hross á rúmgóðum úthaga því þau eru viðkvæm fyrir sterku grasi og öðru fóðri sem inniheldur léttleystar sykrur. Þegar líður á haustið er hrossum þó óhætt á ræktuðu landi en það hentar helst fyrir mjólkandi hryssur, ungviði í vexti og hesta í reiðhestsholdum. Meltingarvegur hrossa er sérhannaður til að melta gróffóður og þeim nýtist haustgróðurinn vel og sama má segja um sinu að vetri til. Örverur í botnlanga og ristli brjóta niður sellulósann sem að öðrum kosti væri ómeltanlegur. Við það ferli losnar mikill hiti sem nýtist hrossum vel í kuldatíð, eins og áður sagði. Einstakur vetrarfeldurinn ásamt fitulagi undir húð eru til einangrunar sem sést einmitt vel á því hversu lengi hross eru að bræða af sér snjó.

Hross eru einna viðkvæmust fyrir blautviðri, og þá sérstaklega kalsarigningum að hausti og vori þegar þau eru ekki í fullum vetrarfeldi. Við þessar aðstæður skiptir miklu að hrossin séu á skjólgóðu landi eða hafi aðgang að manngerðum skjólveggjum. Aðgengi að skjóli er einnig mikilvægt við ýmsar aðstæður að vetri. Það á þó ekki endilega við í verstu veðrum þegar snjór safnast á skjólsæla staði með miklu kófi þar í kring. Þar vilja hross alls ekki standa og getur raunar verið hætta búin í aftakaveðrum. Þá reynist betur að hross hafi aðstæður til að hópa sig saman á berangri þar sem blæs undan þeim.

Snöggar fóðurbreytingar, sér í lagi úr grófu fóðri í sterkara, auka hættu á meltingartruflunum sem geta endað með hrossasótt. Óheppilegt getur verið að gefa fyrstu heygjöf vetrarins rétt fyrir mikið óveður þar sem ekki er mögulegt að fylgjast með heilbrigði hrossanna eða  erfitt að koma þeim til hjálpar. Þá getur verið tryggara að þau standi af sér veðrið og fái góða gjöf að því afstöðnu, enda hafi þau verið á beit og ekki svöng þegar veðrið skall á. Mikilvægt er að útigangshross hafi aðgang að beit samhliða gjöf ef snjóalög leyfa svo þau séu ekki með öllu háð fóðurgjöfinni. Hafa ber í huga að feit hross (holdastig 4 eða hærra) þurfa að ganga á fituforðann yfir veturinn til að draga úr hættunni á efnaskiptaröskun (áþekkri sykursýki 2) sem er helsta orsök hófsperru og landlægt vandamál í seinni tíð. Því er langt í frá algilt að hross eigi að standa í heyi yfir veturinn. Við jarðbönn ber að sjálfsögðu að fóðra hross og tilteknir hópar, svo sem mjólkandi hryssur, hryssur á seinni hluta meðgöngu, ungviði í vexti og hross sem ekki eru í ríflegum holdum eins og að framan greinir, þurfa á góðri fóðrun að halda samhliða vetrarbeit, enda er skylt að flokka hross eftir fóðurþörfum.

Hross geta uppfyllt þarfir sína fyrir vatn með því að éta snjó en oft og tíðum tekur fyrir aðgengi að vatni í fannfergi. Mjólkandi hryssur eru í mestri vökvaþörf en aðrir viðkvæmir hópar eru ungviði í vexti og hross sem fyrir aldurs sakir eru farin að ganga á vöðva og/eða með undirliggjandi efnaskipta- eða hormónatengda sjúkdóma. Í frostatíð verður snjórinn óaðgengilegur og getur við þær aðstæður þurft að vatna hrossum eða brjóta upp snjó fyrir þau. Mikilvægt er að auka ekki frekar á vatnsþörfina með saltgjöf, bætiefnum steyptu í melassa eða próteinríku fóðri á meðan vatn er af skornum skammti. Hægt er að gefa slíkt í annan tíma.

Slysahættur eru margar í umhverfi hrossa og því fleiri eftir því sem áhrifa mansins gætir meira. Skurðir og girðingar, sem alla jafna koma að gagni við að halda stjórn á hestahaldinu, geta á augabragði breyst í andstæðu sína. Náttúran býður líka uppá hættur af ýmsum toga sem seint verður ráðið við að öllu leyti. Æskilegt er því að þrengja sem minnst að hrossum á útigangi þannig að þau geti varast þessar hættur.

 

Sérstakur lærdómur af hamfaraveðri í desember 2019

Hamfaraveður gekk yfir norðvestanvert landið dagana 9. – 12. desember 2019. Við þær aðstæður reyndi á þolmörk hesta á útigangi. Þar sem veðrið kom verst niður urðu afleiðingar þess að ríflega hundrað hross drápust, annað hvort á meðan á veðrinu stóð eða í kjölfar þess. Um var að ræða stök eða fá hross á tiltölulega mörgum bæjum (46). Dreifingin bar með sér að afföllin verða ekki rakin til óviðunandi aðbúnaðar eða undirbúnings á einstaka bæjum.

Algengast var að stök hross hefði hrakið undan veðri í skurði, girðingar eða aðrar hættur, en einnig fennti hross sem stóðu á skjólgóðum stöðum, þ.m.t. hross sem rekin höfðu verið sérstaklega í skjól og gefið þar. Dæmi voru um að klakabrynjuð folöld og trippi buguðust undan þunganum en þeim varð sem betur fer mörgum bjargað.

Ætla má að hluti þeirra hrossa sem hröktust frá hópnum sínum og drápust, hafi gert það vegna veikinda, svo sem hrossasóttar eða efnaskiptasjúkdóma (klums, rauðmiga). Í öðrum tilfellum var um hreinar slysfarir að ræða. Fáheyrt er að hross fenni, hvað þá heim við bæi og á jafn stuttum tíma og raun bar vitni. Lærdómurinn af því er að halda hross fremur á opnum svæðum í verstu stórviðrum. Enginn vafi leikur á að þau eru öruggust í skjóli hóps sem þau hafa aðlagast og á rúmgóðu landi sem þau þekkja vel. Þannig geta þau helst varast hættur og valið hvar þau standa í breytilegu landslagi. Það getur orkað tvímælis að flytja hross úr framangreindum aðstæðum í meira skjól og aðþrengdar aðstæður stuttu fyrir óveður enda hætta á að það valdi stressi og taki frá hrossunum möguleikann á að undirbúa sig sjálf. Aðrar skyndi aðgerðir stuttu fyrir óveður, t.d. fóðrun hrossa sem ekki hafa verið vanin við hey og að reka heilu stóðin inn í þröngar aðstæður, svo sem skemmur eða annað húsnæði sem ekki uppfyllir reglur um aðbúnað hrossa á húsi, geta einnig verið óheppilegar þó stundum eigi þær við. Þetta verða bændur og aðrir umráðamenn hrossa að meta miðað við aðstæður á hverjum stað.

 

Yngstu og elstu aldurshóparnir urðu verst úti í veðrinu.

Folöld eru alla jafna örugg í skjóli móður sinnar og þeim er hollast að ganga undir sem lengst. Hryssurnar venja undan sér sjálfar þegar líða tekur á veturinn, en eru folöldunum áfram til halds og traust og kenna þeim góða „hrossasiði“. Með góðri fóðrun þola hryssurnar þetta vel en þó ber að hafa í huga að geldar hryssur venja seinna undan sér og er því hættara við að leggja af. Húsaskjól þarf að vera tiltækt fyrir folöld sem vanin hafa verið undan, svo hægt sé að hýsa þau í vondum veðrum, þó ekki sé mælst til þess að folöld eða annað ungviði sé alfarið haldið á húsi. Koma þarf í veg fyrir að ormasýkingar og ytri óværa magnist upp í hrossum en þar er ungviðið viðkvæmast.

Fullorðin hross eru líkleg til að eiga við undirliggjandi efnaskipta- og/eða hormónatengda sjúkdóma að stríða þó svo þau líti út fyrir að vera frísk og eigendum finnist freistandi að setja þau á „einn vetur enn“. Þau eru alla jafna byrjuð að ganga á vöðva og ná oft og tíðum ekki að fitna nógu vel fyrir veturinn. Allt þetta gerir þau veikari fyrir að standa af sér stórviðri. Þetta er því hópur sem huga þarf sérstaklega að og nauðsynlegt getur verið að hýsa elstu hrossin til að tryggja velferð þeirra.

 

Almennar leiðbeiningar:

Flokka hross eftir fóðurþörfum tímanlega að hausti og tryggja öllum hópum hentuga beit og/eða fóðrun. Útgangshross skulu ná 3,5 í holdastigun, að öðrum kosti skulu þau njóta sérstakrar umhirðu.

Ormahreinsa viðkvæma hópa eða alla hjörðina eftir aðstæðum.

Halda útigangshross á rúmgóðu beitilandi með breytilegu landslagi og/eða manngerðu skjóli.

Draga úr slysahættum.

Hýsa einstaklinga sem standa höllum fæti í aðdraganda óveðurs.

Gefa hrossum, sem þá þegar eru komin á gjöf, vel fyrir yfirvofandi stórviðri. Gefa á opnu svæði. Meta þörfina fyrir aðra hópa eftir aðstæðum.

Vitja hrossa strax og færi gefst eftir óveður, fóðra og vatna eftir þörfum.

Leita til dýralækna vegna veikra hrossa og laskaðra.

 

Kjarni málsins

Möguleikinn á að lifa í samræmi við náttúrulegt atferli er grundvallaratriði fyrir velferð hrossa. Þar má nefna hópeðlið, félagsleg samskipti og mikla hreyfiþörf þessara hlaupadýra sem einnig er nauðsynlegt að uppfylla fyrir þroska þeirra og heilsu. Þau hafa mikla þörf fyrir eigið rými og að flóttaleiðir séu tiltækar. Ekkert búskaparform uppfyllir þessar þarfir betur fyrir stóðhross en útigangur enda skapaði það fyrirkomulag grunninn að íslenska hrossastofninum. Útigangur hrossa hefur gengið áfallalaust í áratugi og í raun þarf heila öld aftur í tímann til að finna heimildir um viðlíka hrossadauða og varð í desember 2019. Hugtakið náttúrleg afföll ekki notað í hrossarækt nútímans enda hefur orðið bylting í fóðrun hrossa og annarri umhirðu. Enginn skortur er á hentugu fóðri í landinu og öflugar vélar til á hverjum bæ til að koma því til hrossa eftir þörfum.

Ekki hefur frést af frekari hrossadauða undangengna mánuði þrátt fyrir látlaus áhlaupaveður. Það endurspeglar hversu öfgakenndar aðstæður sköpuðust 9.-12. desember og hversu vel útigangshross standa af sér allt venjulegt óveður hér á landi, þrátt fyrir að það vari vikum saman og þrátt fyrir að hafa orðið fyrir hrakningum í byrjun þessa óveðurstímabils.

Ekkert mælir gegn því að hross verði áfram haldin á útigangi eins og verið hefur og lög og reglur gera ráð fyrir. Eigendur bera ábyrgð á velferð hrossa sinna nema þeir hafi tilgreint annan umráðamann í gagnarunninn Worldfeng. Þeim ber að sjálfsögðu að kynna sér vel reglugerð um velferð hrossa og framfylgja henni í hvívetna. En umfram allt ber þeim að meta aðstæður og bregðast við eins og best hentar á hverjum stað til að tryggja velferð hrossa á útigangi.

 

  1. febrúar 2020

Dr Sigríður Björnsdóttir

Sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar