„Við eigum framúrskarandi hrossaræktendur um allt land“

Baldvin Kr. Baldvinsson í Torfunesi.
Eiðfaxi hafði samband í vetrarríkið norðan heiða, nánar tiltekið í Torfunes í Þingeyjarsýslu en þar ræður Baldvin Kr. Baldvinsson ríkjum. Baldvin þarf vart að kynna fyrir hestafólki, enda verið áberandi á flestum sviðum hestamennskunnar og ekki þarf heldur að fjölyrða um árangur hans í hrossaræktinni sem hefur verið farsæl og skilað fjölda úrvalsgripa á keppnis- og kynbótabrautina. Nýjasta flaggskip þeirrar ræktunar er stóðhesturinn Þór frá Torfunesi sem er með litla 8,80 í aðaleinkunn í kynbótadómi og jafnframt hæst dæmdi einstaklingurinn til þessa úr Torfunesræktuninni.

Birna Hólmgeirsdóttir með Meitil, ungan stóðhest af Torfuneskyni.
Baldvin var fyrst spurður að því hvað væri í tamningu og þjálfun frá honum þennan veturinn. „Það eru fjögur hross í tamningu í Torfunesi og þrjú þriggja vetra tryppi á Þúfum hjá Gísla og Mette, auk þess sem Þór er einnig í þjálfun þar“ segir hann. „Fyrri part vetrar var Bjarni Sveinsson hér við tamningar og eftir áramótin er Birna Hólmgeirsdóttir frá Staðarhóli í Aðaldal að temja hér í Torfunesi. Hún tekur hross í tamningu og býður einnig upp á reiðkennslu fyrir þá sem þess óska.“
Aðspurður um hvort það séu einhver spennandi tryppi í tamningu svarar hann „Það eru vissulega spennandi unghross í tamningu núna. Á Þúfum eru tryppi sem eru á fjórða vetur. Vakning heitir hryssa undan Blundi frá Þúfum og Myrkvu frá Torfunesi. Svo eru þeir þar einnig þeir Kinnungur undan Stefnu frá Torfunesi og Korg frá Ingólfshvoli og Myrkvi undan Musku frá Torfunesi og Vita frá Kagaðarhóli, allt gríðar efnileg hross. Síðan eru hross á fimmta og sjötta vetur sem lítur einnig nokkuð vel út með.

Þór frá Torfunesi, knapi er Gísli Gíslason.
Sem fyrr segir þá er stóðhesturinn Þór frá Torfunesi hæst dæmda kynbótahross sem komið hefur frá Torfunesi og rétt að hefja sinn feril því kappinn er aðeins á áttunda vetri. Hver eru framtíðaráformin með Þór? „Við höfum mikla trú á honum, hann er í þjálfun hjá Mette á Þúfum og það kemur i ljós í vetur hvort honum verður stillt upp í íþrottakeppni og/eða gæðingakeppni með vorinu“ segir Baldvin. „Það er ekki komin niðurstaða með notkunarstað en gaman væri að geta haft hann á heimavelli í sumar í fullri notkun.“
Hrossaræktin í Torfunesi er ekki stór í sniðum og fékk Baldvin t.a.m. sex folöld seinasta sumar. En hverjar eru hans áherslur í hrossaræktinni og hvaða stóðhesta notaði hann síðasta sumar? „Umfram allt þá leitast ég við að rækta fagursköpuð, hæfileikarík og fjölhæf hross með mjög gott geðslag. Þessar áherslur eru mitt leiðarljós þegar kemur að stóðhestavali á mínar hryssur. Síðasta sumar þá fóru tvær hryssur undir Hannibal frá Þúfum, ein undir Spaða frá Stuðlum, ein undir Glanna frá Varmalandi, ein hryssa fór til Álfakletts frá Syðri-Gegnishólum, Hróður frá Refsstöðum fór á eina og Þór frá Torfunesi á eina. Ég reyni að hafa þónokkra fjölbreytni í mínu stóðhestavali og vil hvetja allt áhugafólk um hrossarækt að kynna sér vel það sem í boði er víðsvegar um landið þegar kemur að því að velja stóðhest. Við eigum framúrskarandi hrossaræktendur um allt land og það er mikilvægt að nýta fjölbreytileika hrossastofnsins og festast ekki í tískustraumum sem stundum skilja lítið eftir.“

Frigg frá Torfunesi með afkvæmi sínu.
Og nú þegar birtustundum fer fjölgandi og styttist í vorið, er Baldvin farinn að huga að stóðhestavali sumarsins fyrir ræktunarhryssurnar í Torfunesi? „Nei, aldeilis ekki og það á eftir að fara í marga hringi en hugmynd þó komin með Hannibal frá Þúfum, Blund frá Þúfum, Þór frá Torfunesi, Kinnung frá Torfunesi og Myrkva frá Torfunesi. Þessir folar á fjórða vetur eru spurningamerki en ef fram fer sem horfir á vordögum, þá er stefnan að nota þá.“
Eiðfaxi þakkar Baldvini kærlega fyrir spjallið og sendir góðar kveðjur norður yfir heiðar.