„Við erum mjög sátt við landslagið í hestamennskunni, það er hugur í fólki“

  • 26. nóvember 2023
  • Fréttir
Viðtal við Jóhönnu Margréti og Gústaf Ásgeir

Blaðamenn Eiðfaxa eru nú á fullu að undirbúa Árbók Eiðfaxa og einn þeirrra kom við á Árbakka í þeim erindagjörðum. Það var ekki hægt að staldra við í kaffibolla öðruvísi en að taka tal af þeim Gústafi Ásgeir og Jóhönnu Margréti. „Árið var stórkostlegt og mjög jákvætt fyrir okkur persónulega. Við náðum markmiðum okkar og erum mjög sátt þegar við horfum til baka yfir það. Við erum samt strax farinn að horfa fram á veginn og ætlum að halda áfram á næsta ári að gera eins vel og við mögulega getum.“

Árið 2023 náðu þau bæði frábærum árangri. Jóhanna Margrét varð þrefaldur Íslandsmeistari og tvöfaldur heimsmeistari á hinum hvíta gæðingi, Bárði frá Melabergi. Hún var útnefndur íþróttaknapi ársins á uppskeruhátíð hestamanna. Gústaf Ásgeir hlaut útnefninguna gæðingaknapi ársins við sama tilefni en hann reið Bjarma frá Litlu-Tungu m.a. til sigurs á Fjórðungsmóti á austurlandi og eru þeir líklegir til stórafreka í framtíðinni í þeirri keppnisgrein.

Hulda Sif, dóttir þeirra Gústafs og Jóhönnu, fagnar mömmu sinni á HM í sumar. Bárður fylgist rólegur með.

Hvað hafið þið helst verið að brasa núna á haustdögum. „Við höfum verið að temja hér heima á Árbakka auk þess að sinna reiðkennslu töluvert mikið. Erum t.d. að fara saman til Danmerkur að kenna og svo heimsótti Jóhanna Margrét hann Bárð, en planið er að kíkja reglulega á hann. Hann hefur það feiknagott á nýjum stað og er í frábærum höndum, það er hugsað um hann eins og kóng, sem hann er að sjálfsögðu. Hestasala undanfarið hefur verið góð hjá okkur og líka þeim kollegum okkar sem við höfum talað við. Fólk er að leita sér að allskyns hestum en algengast er kannski þessi leit að framtíðarstjörnunni sem getur slegið í gegn á næsta ári. Við verðum vör við það að Heimsmeistaramótið í sumar var jákvæð auglýsing fyrir hestamennskuna.“

 „Við frumtömdum í kringum tíu tryppi og þar af voru 6 þeirra ræktuð hér á Árbakka.“  Þegar Gústaf og Jóhanna eru spurð út í hvað standi upp úr í þeim hópi þar nefna þau m.a. efnileg hross undan Sigri frá Stóra-Vatnsskarði og Hróki frá Hjarðartúni. Stóðhest undan Brynjari frá Bakkakoti og Lukku frá Stóra-Vatnsskarði auk hryssu undan Þránni frá Flagbjarnarholti og Framtíð frá Fellskoti.

Árbakki teflir fram liði í Meistaradeildinni í ár líkt og hin fyrri. „Það verða breytingar á liðinu hjá okkur í vetur.“ Segir Gústaf og heldur áfram. „Mamma og pabbi ætla að taka sér frí þetta keppnistímabil í deildinni. Þau hafa talað um það í nokkurn tíma að taka sér örlítið hlé og geta meira um frjálst höfuð strokið. Eru t.d. að byggja sér nýtt hús hér á Árbakka og hafa í nægu að snúast.“

Gústaf Ágeir og Bjarmi

En hvernig er hestakosturinn fyrir næsta tímabil, við byrjum á Jóhönnu Margréti.  „Hann er bara nokkuð góður. Ég mun halda áfram með Kormák frá Kvistum og geri ráð fyrir því að nota hann töluvert í Meistaradeildinni. Ég er einnig með Prins frá Vöðlum og skeiðhryssuna Bríeti frá Austurkoti. Gæðingurinn Útherji er einnig í áframhaldandi þjálfun með stefnu á keppni í tölti, fjórgangi og B-flokki. Auk þess er ég með nokkur önnur efnileg hross sem geta farið að láta til sín taka.“  En hvað með Gústaf? „Ég verð áfram með Sesar frá Rauðalæk í slaktaumatölt og fleiri greinar. Ég er einnig með hryssuna Össu frá Miðhúsum sem gerði það gott í töltkeppni á síðasta tímabili. Tvo efnilega fimmgangshesta og svo að sjálfsögðu hann Bjarma sem er hugsaður í A-flokk og stefnt á Landsmót með hann.“

Jóhanna Margrét og Útherji. Mynd: Aðsend

Talandi um Landsmót hvað finnst þeim um að hafa íþróttakeppni þar inni eins og gert var á síðasta Landsmóti? „Okkur finnst það ekki vera spurning. Þetta er stærsti vettvangurinn í hestamennskunni hér á landi og þarna eigum við að sjálfsögðu að keppa í öllum greinum. Við fáum til landsins heilmikið af gestum og við eigum að sýna þeim allt það helsta sem við erum að gera. Fólk getur að sjálfsögðu síðan valið sér hvað það vill horfa á en íþróttakeppnin á að vera á Landsmóti.“

En hvernig horfir framtíðin í hestamennskunni við þeim?

Við erum mjög sátt við landslagið í hestamennskunni, það er hugur í fólki. Uppbygging fer víða fram og flestum virðist líka vel í geiranum og margir að gera vel. Við sjáum allavega fyrir okkur bjarta framtíð í þessum heimi.“

 

 

Árbók Eiðfaxa kemur út nú í desember líkt og síðustu ár. Þar verður farið yfir allt það helsta af kynbóta og keppnisbrautinni árið 2023 í máli og myndum. Viðtöl við knapa og ræktendur ársins, tryggðu þér áskrift með því að smella hér. 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar