Við kynnum til leiks – Eiðfaxa TV

  • 17. janúar 2025
  • Fréttir
Breytingar á útgáfu Eiðfaxa

Stofnuð hefur verið streymisveita undir merkjum Eiðfaxa, Eiðfaxi TV, með það að markmiði að Eiðfaxi haldi áfram að vera leiðandi fjölmiðill í Íslands hestaheiminun.

Í ljósi breytinga á fjölmiðlamarkaði þar sem hefðbundnir prentmiðlar eiga undir högg að sækja, hefur verið ákveðið að breyta starfsemi Eiðfaxa ehf. sem fjölmiðlafyrirtækis. Tilgangur breytinganna er að skjóta fleiri og styrkari stoðum undir rekstur félagsins en fyrst og fremst að auka á þjónustu og góða upplifun hjá fylgjendum miðilsins. Teljum við þetta mikið framfaraskref og enn eina rós í hnappagat miðilsins sem á að baki tæplega 50 ára sögu.

Eiðfaxi TV

Á streymisveitunni verður lagður metnaður í það að gera hinum fjölbreytta heimi hestamennskunnar góð skil. Þar sem lögð verður áhersla á viðtalsþætti og innlit hjá hestafólki bæði atvinnu- og áhugafólki, fræðsluefni tengt hestum, heimsóknir á hestabúgarða hér heima og erlendis og margt fleira. Einnig verður keppnishlutanum gerð góð skil í beinum útsendingum frá hinum ýmsu mótum.

Eftir því sem tækifæri gefast verða beinar útsendingar streymisveiturnar aðgengilegar á íslensku, ensku og þýsku. Á þetta verður lögð áhersla til að tryggja að streymisveitan nái fótfestu erlendis hjá tug þúsundum áhugafólks um íslenska hestinn um allan heim.

Í janúar opnaði vefsíðan eidfaxitv.is og smáforritið Eiðfaxi TV mun verða aðgengilegt í öllum snjalltækjum á næstu dögum. Þar verður hægt að nálgast allar beinar útsendingar og annað efni sem framleitt verður af Eiðfaxa. Í vetur verður boðið upp á hinar ýmsu innanhús deildir og byrja beinu útsendingarnar á fyrsta keppniskvöldi Meistaradeildar Líflands í hestaíþróttum þann 23. janúar !

Vefmiðilinn Eiðfaxi.is

Hinn nýi Eiðfaxi mun byggja á tveimur stoðum. Annars vegar öflugur fréttavefur, www.eiðfaxi.is, og hins vegar nýja streymisveitan, Eiðfaxi TV.

Vefurinn hefur verið að styrkja mjög stöðu sína að undanförnu en lesning á vefnum hefur aldrei verið meiri með tugi þúsunda notenda í hverjum mánuði. Fyrir þessar góðu viðtökur erum við starfsfólk miðilsins ákaflega þakklát. Munum við halda áfram að leggja aukinn kraft í vefinn þar sem áhersla verður á að standa fyrir vönduðum fréttaflutningi úr heimi hestsins hérlendis sem erlendis.

Árbók Eiðfaxa fyrir árið 2024 er því síðasta tímaritið sem gefið verður út á prenti en Árbókin er nú á leið til áskrifenda okkar, 300 blaðsíðna glæsilegt rit. Stóðhestabók Eiðfaxa mun þó áfram verða gefin út í tengslum við Stóðhestaveislu Eiðfaxa, enda er Stóðhestabókin vinsælasta bók hestamannsins á ári hverju og hlýtur mikla dreifingu og athygli.

Starfsfólk Eiðfaxa vill á þessum tímamótum þakka okkar tryggu áskrifendum sem margir hverjir hafa fylgt Eiðfaxa síðustu 48 ár, án ykkar værum við ekki Eiðfaxi í dag. Við hlökkum til framtíðarinnar og vonumst til að þið takið þátt í þessu framfaraskrefi með okkur.

HÉR ER HÆGT AÐ GERAST ÁSKRIFANDI AÐ EIÐFAXA TV

Eiðfaxi TV er aðgengilegt á vefnum, í snjallsímum, Apple TV, Android TV, Google TV og Amazon Fire TV.

Ef einhverjar spurningar vakna eða þú þarft aðstoð vegna kaupa á áskrift þá getur þú sent okkur tölvupóst á help@eidfaxitv.is.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar