Heimsmeistaramót „Við lofum ógleymanlegri viku – HM25 er fyrir alla!“

  • 3. maí 2025
  • Fréttir

Það er alltaf stemming í stúkunni á HM

Roman Spieler, framkvæmdastjóri Heimsmeistaramótsins 2025, segir stemninguna verða stórkostlega í Sviss í ágúst.

Heimsmeistaramótið í hestaíþróttum snýst um miklu meira en bara að horfa á frábæra hesta og knapa. Roman Spieler, framkvæmdastjóri mótsins, segir að þetta sé einnig hátíð þar sem gestir hittist víðsvegar að úr heiminum, njóti góðrar stemningar og búi til minningar sem endast þeim ævilangt. „Ég mæli eindregið með að allir komi til Sviss í ágúst 2025 og taki þátt í þessari einstöku viku – fullri af frábærum gæðingum, gleði, afþreyingu, verslun og ógleymanlegum stundum,“ segir hann.

Séð yfir mótssvæðið

Miðasalan gengur vel og er enn nægt pláss í boði, Roman hvetur þá sem vilja sitja með vinum í ákveðnum hluta stúkunnar að tryggja sér miða sem fyrst.

Ferðalagið er einfalt – beint flug er frá Keflavík og Akureyri til Zürich með Icelandair eða Edelweiss, og flugvöllurinn er í innan við 30 mínútna akstursfjarlægð frá mótssvæðinu. Einnig er hægt að fljúga til Basel, Genf, München eða Mílanó og komast með stuttri lestarferð til Birmenstorf. Innanlands í Sviss er auðvelt að ferðast, hvort sem er með bílaleigubíl eða áreiðanlegum almenningssamgöngum.

Frá miðvikudegi til sunnudags verður í boði rútuþjónusta á milli Baden og mótssvæðisins sem gengur allan daginn og skilar gestum heim eftir kvöldpartýin. Nánari upplýsingar um tímatöflur og gjöld má finna á heimasíðu mótsins.

Roman framkvæmdarstjóri HM

Fyrir alla aldurshópa – innan sem utan vallar

Þeir sem ekki hafa ná sér í gistingu í Baden þurfa ekki að örvænta – hótel í nágrannabæjum eins og Spreitenbach, Dietikon og Regensdorf eru góðir kostir, og miðbær Zürich er aðeins í 30 mínútna fjarlægð. Fyrir þá sem kjósa skipulagða ferð getur ferðaskrifstofan Verdi séð um allt.

En keppnin sjálf er aðeins hluti af upplifuninni. Mótssvæðið verður fullt af verslunum og 14 matarvagnar bjóða upp á fjölbreytta rétti – allt frá hamborgurum til momos, mexíkóskan mat og svissneska rétti. Fyrir þá sem vilja fræðast verða ókeypis fyrirlestrar tvisvar á dag í „Symposium“-inu, þar sem margir þekktir fyrirlesarar koma fram, þar á meðal Olil Amble, Benedikt Ólafsson og prófessor Michael Weishaupt.

„Við hugsum líka um börnin,“ bætir Roman við. „Það verður barnagæsla með andlitsmálun, leikjum og föndri.“ Kvöldin verða svo full af tónlist, dansi og skemmtun. „Við verðum með hljómsveitir á hverju kvöldi og allir eru velkomnir að koma og fá sér ískaldan mjöð á sólsetursbarnum okkar. Þetta verður hátíð sem enginn ætti að missa af.“

Yfirlitsmynd af mótssvæðinu og skipulagningu þess

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar