„Við sjáum fram á dýrðardaga“

  • 4. maí 2024
  • Fréttir
Þorvaldur Kristjánsson hrossaræktarráðunautur í viðtali við Eiðfaxa

Þorvaldur Kristjánsson var ráðinn til RML sem hrossaræktarráðunautur í byrjun apríl á þessu ári en áður hafði hann starfað hjá fyrirtækinu á árunum 2015-2020. „Það var fyrst og fremst bara áhugi á hrossarækt og starfinu, sem ég þekki ágætlega. Það var möguleiki fyrir mig að taka þetta að mér aftur á þessum tímapunkti þannig að ég ákvað að slá til.“  Auk þess að vera hrossaræktarráðunautur er Þorvaldur einnig titlaður ræktunarleiðtogi Íslands (e.Breeding leader of Iceland). 

Verkefni á hrossaræktarsviði eru mörg og það er ýmislegt sem bíður Þorvaldar og þeirra er starfa á hrosssaræktarsviði hjá RML á næstu misserum.  „Ég hef verið að koma mér inní verkefnin og huga að vorinu, það er gott fólk á hrossaræktarsviði og búið er að undirbúa vorið að mestu leyti. Svo höfum við verið að huga að Landsmóti og fleiri hlutum.“

Á von á góðri þátttöku í kynbótasýningum

Það sem er oftast efst á baugi hjá þeim sem stunda hrossarækt eru kynbótasýningar og allt er þeim tengist. „Við sjáum fram á dýrðar daga, eins og segir í vísunni, með vorsýningar framundan og Landsmót í Reykjavík. Vorið er ávallt tilhlökkunarefni þegar nýjar stjörnur fæðast og eldri kempur þilja sýningarbrautirnar og sýna kosti nóga. Hrossarækt og kynbótasýningar eru í eðli sínu samstarfsverkefni á milli ræktenda, sýnenda og dómara þar sem ætlunin er að lýsa hverjum grip af kostgæfni og skapa verðmætar upplýsingar fyrir ræktunarstarfið. Vorið lítur vel út og ég held að við eigum von á góðri þátttöku í kynbótasýningum í ár, það voru heldur færri hross sýnd í fyrra og á ég von á því að hópar af til dæmis fimm og sex vetra hryssum komi til dóms í ár sem komu ekki í fyrra. Þá er alltaf gaman á Landsmótsárum en þá eru stóðhestseigendur að ná fjölda til afkvæmaverðlauna. Það er þó nokkur hópur stóðhesta sem eiga möguleika á fyrstu og heiðursverðlaunum og því þarf að sýna hóp af afkvæmum þeirra.“

Árið 2020 voru innleiddar breytingar á kynbótadómum sem hafa nú staðið óbreyttar í fjögur sýningarár. „Það eru engar breytingar á matinu í ár, hvorki í byggingu né hæfileikum. Ég ætla að senda út núna fyrir vorið punkta fyrir fólk að hafa í huga fyrir sýningarnar, sérstaklega hvað reiðdóminn varðar en það eru engar breytingar sem þarf að bregðast við.“ Umræðan um samræmi milli dómnefnda ber oftar en ekki á góma þegar dómstörf eru rædd. „Samræmi er eitt aðalatriðið við hvert dómkerfi og því er gaman að segja frá því og nefna það að við dómarar höfum á undanförnum árum aukið mjög við vinnu við samræmingu dómstarfanna. Við höfum alltaf haldið árlega fundi dómarar á Íslandi og svo þriggja daga námskeið annað hvert ár þar sem allur hópurinn af alþjóðlegum dómurum kemur saman. Fyrir nokkrum árum bættum við svo við fjórum fundum yfir veturinn sem hafa verið árlegir undanfarið þar sem allir dæma hross og senda inn sína dóma og svo er farið yfir það á sameiginlegum netfundum. Þetta hefur verið til mikilla bóta og mér sýnist að hafi verið að skila sér undanfarið í bættu samræmi. En þetta er að sjálfsögðu viðvarandi verkefni hjá okkur.“

Þorvaldur Kristjánsson ásamt Þorvaldi syni sínum tekur við heiðursverðlaunum fyrir Huginn frá Haga á LM2012. Kristinn Guðnason þáverandi formaður Félags Hrossaabænda stendur við Huginn

Þróun Worldfengs og dómkerfisins

Á ársþingi FEIF í byrjun þessa árs var samþykkt að skapa sterkari tekjugrundvöll fyrir Worldfeng með það að markmiði að koma honum í nútímalegri horfur. „Stærsta verkefnið í hrossarækt á næstunni er að koma þróun WorldFengs af stað. Það þarf að koma honum inn í nútímann hvað forritun varðar og það eru mikil tækifæri í því að gera hann að enn betra úrvalstæki fyrir ræktendur. Þá er spennandi að þróa dómkerfið áfram. Það voru gerðar nokkrar breytingar á dómkerfinu árið 2020 eins og fólk veit og nú er verkefnið að halda áfram þessari þróun; fara yfir hvernig til hefur tekist. Við þurfum að einfalda vissa hluti í matinu og passa að kynbótadómurinn verði sem aðgengilegastur. Við þurfum að hvetja til þess að fleiri hross séu sýnd eins og við vitum. Það er markmiðið að fá flest þau hross til dóms sem á að nota til ræktunar.“

Það er Þorvaldi hugleikið að við þurfum að passa upp á erfðafjölbreytileikann.

„Hvað stóðhestana varðar erum við að mestu leyti að nota sýnda hesta en við erum enn að nota of margar ósýndar hryssur í ræktun. Þá er verðmætt að dreifa notkun á stóðhestum meira en við erum að gera. Það eru tiltölulega fáir hestar sem eru að fá mikla notkun og svo margir góðir fyrstu verðlauna hestar sem fá of litla notkun. Þetta er mikilvægt að hafa í huga vegna verndunar á erfðafjölbreytileikanum en við erum með lokaðan erfðahóp á Íslandi og því þurfum við að passa vel upp á breytileikann til framtíðar. En einnig er mikilvægt að dreifa notkun á stóðhestum þannig að við fáum nægilega reynslu á nægilega marga stóðhesta.“

Þorvaldur við dómstörf

Margt öflugt fólk í hrossarækt

Það er ljóst að Þorvaldur hefur að ýmsu að huga á þessum fyrstu dögum í starfi en hann horfir bjartur fram á veginn. “Það verður spennandi að bjóða upp á námskeið og fræðslu fyrir hrossaræktendur og hestafólk næsta vetur og þróa leiðbeiningar í hrossarækt áfram. Þá er mikilvægt að hafa gott samstarf við hrossaræktendur og efla samstarfið á milli allra þátta hestamennskunnar. Við erum náttúrulega í afar góðri stöðu með svo margt öflugt fólk í hrossarækt, magnaða sýnendur og mikinn áhuga og metnað fyrir ræktun íslenska hestsins. Þegar þetta fer saman þá er ekki vafi í mínum huga að framtíðin er björt hjá okkur.“

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar