Við trúum að það séu bjartir tímar framundan í hestamennskunni

  • 4. apríl 2021
  • Fréttir
Viðal við Stefán Birgi Stefánsson í Litla-Garði

Norðan heiða, nánar tiltekið í botni Eyjafjarðar, er jörðin Litli-Garður. Þar búa hjónin Stefán Birgir Stefánsson og Herdís Ármannsdóttir ásamt fjölskyldu.

Hestamennskan spilar stóran sess  hjá þeim og eru að jafnaði 20-25 hross í þjálfun í Litla-Garði.

Eiðfaxi sló á þráðinn norður og spurði Stefán tíðinda.

Litli-Garður í Eyjafirði.

 

„Það hefur verið nóg að gera hjá okkur í vetur og má segja að það hafi verið sprenging í hrossasölu hjá okkur eins og fleirum sem er náttúrulega hið besta mál og hefur blásið miklu súrefni í greinina“ segir Stefán. „Við erum með tvær stúlkur sem vinna ásamt okkur við hrossin þennan veturinn, þær Signýju Aðalsteinsdóttur frá Austurríki og Sigríði Aðalsteinsdóttur sem kemur úr Reykjavík. Við sjáum um tamningu og þjálfun á nær öllum okkar hrossum þó auðvitað fari einn og einn stöku sinnum af bæ eins og gengur og gerist.“

Aðspurður um það hvað sé best í hesthúsinu þessa stundina nefnir Stefán fyrst höfðingjann Gangster frá Árgerði. „Auk þess er vert að nefna sex vetra Hróðsdótturina Glódísi frá Litla-Garði, undan Glettingu frá Árgerði, léttstíg og næm klárhryssa. Önnur efnileg hryssa er Gangstersdóttirin Hlökk frá Litla-Garði undan Hremmsu frá Litla-Garði, mjög efnileg alhliðahryssa þar á ferð. Einnig eru hér efnilegir fjögurra og fimm vetra stóðhestar sem væri of langur listi að telja upp.“

Gangster og Stefán Birgir

Fyrrnefndur Gangster frá Árgerði er flaggskip búsins og margverðlaunaður stóðhestur og gæðingur, undan Hágangi frá Narfastöðum og Glæðu frá Árgerði. Hann hefur hæst hlotið 8,63 í kynbótadómi, auk þess að hafa staðið framarlega bæði í íþrótta og gæðingakeppnum. Gangster er nú á fimmtánda vetri en hvernig er standið á kappanum þessa dagana? „Það er allt gott að frétta af Gangster, hann er hér heima í léttu trimmi. Gangster hefur skilað okkur mjög söluvænum hrossum sem að hafa góð gangskil. Hann virðist vera að skila afbragðs vekurð og þau hafa góðan samstarfsvilja. Hugsanlega skreppum við suður yfir heiðar í vor með Gangster ásamt nokkrum afkvæmum á Eiðfaxadaginn 8. maí, en við sjáum til hvað Covid leyfir okkur að gera.“

En á hvað leggur Stefán megináherslu í sinni hrossarækt? „Geðslagið er þar efst á lista. Ræktunarmarkmiðið er að framleiða sjálfberandi og auðtamin hross með góða beisliseiginleika. Hross sem hafa góð gangskil og fara fallega. Það eru alltaf einhver tryppi í uppvexti sem maður leyfir sér að binda vonir við að muni koma vel út þegar tamningin hefst. Þessa stundina þá er það hún Stórborg sem er undan Kolbak frá Lita-Garði og Væntingu frá Ási 1 sem kemur fyrst upp í hugann. Hún verður þriggja vetra í vor og minnir óneitanlega á systur sínar Eldborgu og Mirru.  Eldborgarsynirnir Dynjandi tveggja vetra undan Hrók frá Hjarðartúni og Draumur sem er veturgamall undan Skaganum fylgja þar fast á eftir.“

Tandri er undan Gangster og Tývu frá Árgerði

Og að sjálfsögðu bættust nokkrar vonarstjörnur í unghrossahópinn síðasta sumar “ Við fengum níu folöld í fyrra. Mest spennandi já, það er áðurnefndur Draumur frá Litla-Garði, virkilega spengilegur foli. Í hryssuhópnum er það Jódís frá Litla-Garði brúnskjótt hryssa undan Kolbak frá Litla-Garði og Aldísi frá Krossum. Við fórum svo með ræktunarhryssurnar undir fjölbreyttan flokk stóðhesta; Draupni frá Stuðlum, Kolbak frá Litla-Garði, Veg frá Kagaðarhóli, Dag frá Hjarðartúni, Gangster frá Árgerði og svo Muninn frá Litla-Garði, þriggja vetra ungfola sem er gullfallegur Skagasonur undan Mirru frá Litla-Garði. Hvað varðar stóðhestaval næsta sumars þá er það nú að mestu óákveðið en við erum þó búin að staðfesta pláss hjá Ljósvaka frá Valstrýtu.“

Kolbakur er undan Gangster og Snældu frá Árgerði

Og Stefán Birgir horfir björtum augum fram á veginn. „Við trúum að það séu bjartir tímar framundan í hestamennskunni, fleiri og fleiri eru að koma inn í greinina sem er gott. Hestamenn þurfa að standa þétt saman að sameiginegu markmiði að efla hag íslenska hestsins sem og nýliðun.“

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar