„Við vorum í svaka gír“

  • 27. janúar 2023
  • Fréttir
Viðtal við Aðalheiði Önnu Guðjónsdóttur, sigurvegara fjórgangsins.

Aðalheiður Anna Guðjónsdóttir og Flóvent frá Breiðsstöðum voru stjörnur gærdagsins þegar Meistaradeildin í hestaíþróttum hóf göngu sína á nýjan leik. Óhætt er að segja að hestamenn hafi beðið spenntir eftir því að keppnistímabilið byrjaði aftur en fullt var út úr dyrum á HorseDay höllinni og var mikil stemning og gleði meðal áhorfenda.

“Vá þetta var ótrúlega gaman. Fullur salur af fólki, en maður er búinn að sakna þess síðustu þrjú árin, sterkir hestar og virkilega flott mót. Það var gaman að vera í Ölfushöllinni og algjör “game changer” að hafa inniaðstöðu til að hita upp í en það, fyrir mér, er algjört lykilatriði að vera með deildina í höllum sem bjóða upp á það. Við erum að mæta með besta hestana okkar og við viljum hafa sem bestar aðstæður fyrir þá,” segir Aðalheiður Anna sem svífur enn um að bleiku skýi eftir sigur gærdagsins.

Það er ekki oft sem það gerist að sigurvegarinn séu bestur á öllum gagntegundunum en þeim Aðalheiði og Flóvent tókst það. Með frábærri fet sýningu og enn betri sýningu á stökki tókst þeim að tryggja sér sigurinn.

“Mér fannst þetta geggjað. Það gekk allt upp eins og ég vildi nema ein gangskipting í forkeppni, frá stökki niður í brokk. Það var bara kæruleysi í mér. Mér fannst svo gaman á stökki, hann var alveg geggjaður og það voru allir að klappa að ég eiginlega gleymdi aðeins að hægja niður. Við vorum í svaka gír. Annars á þessu tímapunkti er hann bara frábær og mikið sterkari enn í fyrra,” segir Aðalheiður.

Aðalheiður er búin að vera með Flóvent í þjálfun í þrjú ár en Flóvent er ræktaður á Breiðsstöðum af Guðrúnu Astrid en hún var með hann sem reiðhest hjá sér. Flóvent var sex vetra þá og hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan.

“Hesturinn er einstakur höfðingi, mjög mannelskur og klár. Hann reynir sitt allra besta og er bara ótrúlega magnaður hestur. Allar gangtegundir jafnar og yfirburðagóðar,” segir Aðalheiður en Flóvent er ekki falur og í framtíðinni vonast hún til að börnin hennar muni geta notið góðs af honum. “Það er stefnan að ef krakkarnir mínir hafa einhvern áhuga á hestum í framtíðinni að þau taki hann. Það er líka ótrúleg forréttindi að vera með svona hest í lengri tíma og geta komið sér lengra reiðmennskulega séð. Mjög verðmætt.”

Í Meistaradeildinni er bæði keppt í liða- og einstaklingskeppni. Aðalheiður stendur efst í einstaklingskeppninni eins og er og ætlar sér að vera þar áfram.

“Ég stefni með Flóvent í slaktaumatöltið, gæðingafimina og töltið. Ég ætla að fara all in fyrst tímabilið byrjaði svona vel hjá mér. Það er auðvitað alltaf markmiðið að vinna. Ég er með Ásu frá Fremri-Gufudal og Skemil frá Dalvík í gæðingaskeiðið og básana og svo er ég með aðgang að mjög góðri skeiðhryssu sem Sigríður Ingibjörg varð Íslandsmeistari á í 100m. skeiði í ungmennaflokki á Hólum 2021. Það er aðeins óljóst hvað ég verð með í fimmgangnum enn það kemur í ljós á næstu dögum,” segir hún en liðið hennar Ganghestar/Margrétarhof er einnig efst í liðakeppninni eftir frábært gengi í gærkvöldi en Ragnhildur Haraldsdóttir, liðsfélagi hennar, endaði í fjórða sæti í fjórgangnum og Glódís Rún Sigurðardóttir var í ellefta sæti.

“Ég myndi segja að við verðum sterk í slaktaumatölti, gæðingafimi og tölti. Við erum eiginlega sterk í þessu öllu. Við erum mjög vel sett í allar hringvallagreinarnar en skeiðgreinarnar eiga kannski aðeins eftir að koma í ljós en við höfum verið að selja þau hross frá okkur,” segir Aðalheiður að lokum.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar