Landsamband hestamanna Viðtal við dýralækni landsliðsins, Matthias Rettig

  • 8. júlí 2025
  • Fréttir
Íslenska landsliðið verður kynnt á morgu, miðvikudag, í beinni á EiðfaxaTV

Í síðustu viku og um helgina fór fram dýralæknaskoðun á þeim hestum og knöpum sem taldir eru líklegastir til að skipa lið Íslands á heimsmeistaramótinu í Sviss. Nokkuð margir voru kallaðir í skoðun og mátti greinilega skynja eftirvæntingu og spennu. Liðið verður tilkynnt miðvikudaginn 9. júlí, EiðfaxiTV verður með beina útsendingu frá viðburðinum.

Það er dýralæknir landsliðsins, Matthias Rettig, sem sér um skoðanirnar. Hann starfar að jafnaði í Þýskalandi þar sem hann rekur stóra dýralæknastofu skammt frá Frankfurt. Matthias hefur sérhæft sig í hestadýralækningum með áherslu á greiningu á helti og skurðlækningar. Sem dýralæknir landsliðsins skoðar hann hestana vel fyrir mót og tryggir að allur búnaður sem fylgir þeim standist kröfur auk þess að sjá um þá flóknu pappírsvinnu sem liggur að baki því að senda hesta á HM. Íslenski hesturinn hefur sannarlega verið vendipunktur í hans lífi og við ákváðum því að heyra í honum og kynnast honum örlítið betur.

Hvernig vill það til að þýskur dýralæknir myndi svo sterk tengsl við land og þjóð?

„Fjölskyldan mín eignaðist fyrsta íslenska hestinn þegar ég var þriggja ára, systir mín sem er árinu eldri en ég var að glíma við bakvandamál og læknarnir ráðlögðu foreldrum okkar að senda hana í sund eða á hestbak. Það fór þannig að við fengum sundlaug í garðinn og fljótlega vorum við einnig komin með tvo Íslenska hesta þá Kembing og Ritschi, báðir ræktaðir í Þýskalandi. Það varð fljótt ljóst að tveir hestar dugðu ekki fyrir alla fjölskylduna og stóðið stækkaði sem og áhugi okkar á þessu frábæra hestakyni sem við völdum út frá skapgerð og því hversu fjölskylduvæn íslandshestamennskan er.“

„Árið 1993 fórum við fjölskyldan til Íslands í viku reiðtúr um Borgarnes með Benna Þorbjörnssyni. Þessi ferð varð upphafið af djúpstæðum tengslum við Ísland og íslenska hestamennsku. Foreldrar mínir eru mjög metnaðarfull og fengu snemma áhuga á að rækta Íslenska hesta. Í framhaldi af þessari ferð hittu þau Didda (Sigurbjörn Bárðarson) og keyptu af honum hestinn Kolskegg frá Ásmundarstöðum. Þetta var fyrsti alvöru keppnishesturinn minn og ég lærði ótrúlega mikið af honum.“

„Tengslin við Ísland dýpkuðu bara og ég hef fengið að kynnast mörgum frábærum hestamönnum Siggi Matt var til að mynda mikið hjá okkur út í Þýskalandi og ég lærði margt af honum. Á unglings árunum varði ég svo sumarfríunum mínum á Íslandi og var þá hjá Didda og fjölskyldunni hans við þjálfun og tamningar. Það má því segja að ég hafi fengið úrvalstækifæri til að verða alvöru keppnisknapi en þetta dugði ekki til og ég varð að halda mig við það sem hafði í raun legið fyrir alla tíð, að verða dýralæknir, eins og foreldrar mínir.“

Frá knapa til dýralæknis

Matthias stundaði nám í Búdapest og München, lauk því árið 2009 og starfaði síðan í Kentucky í Bandaríkjunum, Bretlandi og sem yfirdýralæknir við háskólaspítalann í Berlín. Fyrir sex og hálfu ári stofnaði hann eigin dýralæknastofu milli Kölnar og Frankfurt þar sem nú starfa 14 dýralæknar og 40 starfsmenn. Hann er alþjóðlega löggiltur hestadýralæknir og starfar einnig sem dýralæknir á vegum FEI og í kírópraktík. En hvernig varð hann hluti af landsliðsteyminu?

„Þegar Diddi hafði samband við mig og bauð mér að verða hluti af íslenska landsliðsteyminu varð ég mjög stoltur og upplifði það sem mikinn heiður. Á þessum tímapunkti var ég að starfa fyrir þýska landsliðið en ég þurfti ekki að hugsa mig lengi um. Ég hafði alltaf haldið sambandi við Didda, enda var hann mér góður leiðbeinandi, fyrirmynd og vinur þegar ég var að vaxa úr grasi. Ég hef lært mikið af honum og dáist af þeim árangri sem hann hefur náð og er enn að ná.“

„Ég er heillaður af Íslenska hestinum sem er svo yfirvegaður miða við margar aðrar tegundir, þeir hafa sérstakan anda og nærveru einkum þegar þeir alast upp í íslenskri náttúru. Þeir eru fullkomnir íþróttahestar, fjölskylduhestar, vinir og félagar – það gerir þá svo sérstaka og það að fá að vera hluti af landsliðsteymi Ísland er mér mjög kært.“

,,Áður en að hestur fer úr landi þarf hann að undirgangast læknisskoðun, en það eru einnig mjög strangar heilsufarskröfur gerðar á mótinu sjálfu og þar fer hesturinn líka í skoðun af dýralæknum mótsins. Sem dýralæknir landsliðins legg ég mikinn metnað í að fylgja hestunum vel eftir. Við viljum tryggja sem best við getum að hestarnir sem fara héðan séu ekki að glíma við meiðsl eða veikindi og því fá þeir nákvæma skoðun áður en þeir eru tilkynntir inn sem hluti af liðinu. Þá er líka að ýmsu að huga á mótsstað þar sem hesturinn er kominn í nýtt umhverfi eftir langt ferðalag. Hestarnir eru til að mynda mældir á hverjum degi til að hægt sé að fylgjast með líkamshita þeirra. Þá þarf að passa að öll krem, sprey, fóður og annað slíkt sem notað er á staðnum eins og t.d. flugnasprey innihaldi ekki efni sem eru bönnuð í keppni.“

Hvaða áhrif hefur þetta haft á tengsl þín við Ísland og framtíðar plön?

„Þetta hefur orðið til þess að tengsl mín við Ísland eru orðin enn sterkari, ég kem reglulega hingað vegna undirbúnings fyrir stórmót, en einnig til þess að vera hér í fríi með fjölskyldunni. Nýlega keyptum við smá land þar sem við ætlum að byggja okkur lítið hús. Ísland er ekki bara vinnustaður heldur líka okkar annað heimili. Eftir Heimsmeistaramótið ætla ég að koma og dvelja hér með konunni minni og syni okkar og taka þátt í Reykjarvíkurmaraþoninu. “

„Ég var svo heppinn sem ungur knapi að fá að læra af bestu knöpum Íslands. Kannski hafði ég ekki næga hæfileika til að verða atvinnuknapi – en ég fann mína leið sem dýralæknir. Hestar eru enn miðpunktur alls sem ég geri og ég reyni að njóta þess að fara í hnakkinn þegar tími gefst til.“

En stefnir þú á að starfa á Íslandi?

„Ég er með leyfi frá MAST og gæti unnið sem dýralæknir á Íslandi, þó ég hafi ekki búnað hér eins og er. En hver veit? Kannski einn daginn. Aldrei segja aldrei!“

Við þökkum Matthias fyrir spjallið og óskum honum og liðinu öllu góðs gengis á HM.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar