Vignir Jónasson 1971-2024
Það var þyngra en tárum taki að fá þær fregnir frá aðstandendum Vignis að kvöldi 14. janúar að hann hefði látist af slysförum. Vignir var Hólmari í húð og hár og var stoltur af því. Gat sungið hástöfum “Láttu Hólminn heilla þig” eins og við Hólmararnir gerum á góðum stundum. Þeir sem alast upp í fallegu og góðu umhverfi tengjast því órjúfanlegum böndum. Það sem ekki síður skapar góðar minningar og tengsl er nánasta umhverfið. Vignir ólst upp á Sundabakkanum með yndislegum foreldrum og systkinum sem voru honum kær.
Vignir tengdist vel inn í hestamennskuna hér í Stykkishólmi. Hann hefur verið um 12-13 ára þegar hann var með hest í fyrsta sinn í Hólminum og var hryssan Donna frá Kóngsbakka í hesthúsinu hjá mér. Auðvitað var hryssan frá Kóngsbakka en þangað liggja ræturnar. Það var á þessum árum sem tengsl okkar Vignis hófust. Allar götur síðan vorum við í sambandi, mismiklu og misþétt en alltaf voru fagnaðar fundir þegar við hittumst. Á fyrstu árum Vignis í hestamennskunni hér í Hólminum var stór hópur stráka í hestamennskunni og mikið fjör. Það varð mjög fljótlega ljóst að þegar kæmi að reiðmennsku yrði Vignir okkur fremstur. Einhver sagði að ef saman færu hæfileikar, ástríða og gott bakland þá næðist árangur. Vignir hafði þessa þrjá þætti og mikið af þeim.
Það varð strax ljóst að Vignir ætlaði ekki að vera stór fiskur í lítilli tjörn, ekki heldur lítill fiskur í stórri tjörn. Hann hafði það sem þarf til að verða stór fiskur í stórri tjörn Íslandshestamennskunnar og sú varð raunin. Vignir varð strax áberandi góður knapi og hafði það sem þarf enda árangurinn frábær í öllum þáttum hestamennskunnar hvort sem um ræðir kynbótasýningar, íþróttakeppni eða gæðingakeppni. Hann var einnig góður, virtur og vinsæll reiðkennari enda átti hann auðvelt með að miðla af sinni þekkingu og næmni. Undanfarin ár hefur ræktun Vignis vakið athygli og náði hann að sjálfsögðu góðum árangri þar eins í öðrum þáttum hestamennskunnar.
Það sem ekki kemur fram í mótaskýrslum eða verðlaunagripum eru samverustundir og minningar. Þau eru ógleymanleg kvöldin þegar við þrír, Vignir, Óðinn og ég sátum fram á nætur í kringum Jólahátíðirnar og horfðum á spólur/diska, frá landsmótum annað árið og heimsmeistaramótum hitt árið. Þá var heldur betur tekið í konfektið og Egils appelsín drukkið með. Rætt um hesta og mögulega eitthvað smávegis annað. Heimsóknirnar í hesthúsin í Reykjavík og upp í Dal með tilheyrandi reiðtúrum eru eftirminnilegar. Það sem þó situr fastast og dýpst eru heimsóknir mínar til Vignis á Backome í Svíþjóð. Þá daga var margt spjallað og þá ekki eingöngu um hesta heldur margt fleira. Í þessum samtölum kom svo oft fram hversu vænt honum þótti um drengina sína og hversu samvistir við þá voru honum dýrmætar. Einnig fór það ekki á milli mála hversu hlýjar tilfinningar og virðingu hann bar til foreldra sinna og bræðra.
Eftir góðan tíma á Backome réðust Vignir og Rebecca konan hans í mikla uppbyggingu á búgarði sem að sjálfsögðu fékk nafnið Sundabakki. Aðstaðan þar er orðin stórkostleg og byggðist upp á mjög stuttum tíma enda metnaður og dugnaður alltaf í stafni þar sem Vignir stóð í brúnni með sinni góðu eiginkonu Rebeccu.
Lífið tekur stundum stefnu sem er illskiljanleg, óvænt og ósanngjörn. Með fráfalli Vignis varð mikil og erfið stefnubreyting fyrir marga ekki síst eftirlifandi aðstandendur Vignis Jónassonar.
Allar góðar vættir veiti þeim styrk í þeirra missi og sorg.
Far í friði kæri vin. Minningin lifir.
Lárus Ástmar Hannesson