„Viljum finna framtíðarlausn á þessu máli.“

Á fimmtudag gaf Landssamband hestamannafélaga það út að árlegri Miðbæjarreið LH væri aflýst eftir ákvörðun Reykjavíkurborgar að innheimta viðburðargjald. Gjaldið er tekið vegna afnotaleyfis, götulokana og hreinsunarstarfs og samkvæmt heimildum er upphæðin 477.500 kr.
„LH hefur aldrei þurft að að greiða fyrir Miðbæjarreiðina, þangað til í fyrra, en þá greiddi LH fyrir afnotaleyfið sem eru rúmar 50 þúsund krónur. Það er í sjálfu sér ekki það sem málið snýst um heldur hreinsunargjaldið sem er rúmlega fjögur hundruð þúsund sem LH er ekki í stakk búið til að borga,“ segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir formaður Landssambands hestamanna.
Alltaf erfiðara og erfiðara að fá leyfi
Samkvæmt Lindu hefur undanfarin ár alltaf verið erfiðara og erfiðara að fá leyfi fyrir Miðbæjarreiðinni sem er sorglegt enda um áratuga gamla hefð að ræða. Í fyrra var leyfinu synjað en þá var settur pólitískur þrýstingur á borgina sem endaði með því að borgarstjóri ákvað að veita leyfi.
„Það er ekki gott til framtíðar og langar okkur að finna lausn sem væri þá til framtíðar og í samstarfi við Reykjavíkurborg. LH lifir á fjármagni frá aðildarfélögum hringinn í kringum landið og okkur ber skylda til að fara vel með þá peninga. Það er nánast allt í hestamennsku unnið í sjálfboðavinnu og við höfum ekki peninga til að borga þetta. Við lítum þannig á að þessi viðburður sé ekki sérstakur LH viðburður heldur sameiginlegur viðburður allra íslendinga til að fagna íslenska hestinum og sögunni. Þetta er áratuga löng hefð og sorglegt ef þetta endar svona. Við viljum finna framtíðarlausn á þessu máli.“
Vonast til að ná samkomulagi við borgina
Þegar blaðamaður heyrði í Lindu sat hún Íþróttaþing ÍSÍ. Á þinginu hitti Linda borgarstjóra Reykjavíkurborgar, Heiðu Björg Hilmisdóttur, og tók hana tali. Vonast Linda að þær geti náð farsælri lausn saman.
„Íslenski hesturinn er mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og hópast fólk niður í bæ til að sjá hestinn. Við sjáum fyrir okkur að Miðbæjarreiðin verði partur af þeim viðburðum sem borgin heldur á hverju ári. Viðburður sem Reykjavíkurborg getur auglýst og fengið fólk til að leggja leið sína í bæinn. Borgin græðir á þessum viðburði því fólk mætir niður í bæ. Ég veit að verslunareigendur eru mjög ánægðir með þetta framtak og telur þetta vera einn af hápunktum sumarsins,“ segir Linda að lokum og vonast til að geta náð samkomulagi við borgina og geta haldið áfram þessum skemmtilega viðburði.