Vill að RML endurgreiði sér sýningargjald

  • 25. júlí 2021
  • Fréttir

Á myndinni situr Viðja Sóllilja Ágústsdóttir hryssuna Dögg frá Sauðanesi á móti í Ásbyrgi. Ljósmynd/Aðsend

Ágúst Marinó Ágústsson hrossaræktandi að Sauðanesi á Langanesi er ekki sáttur við það verklag sem viðhaft var á Hólum þegar hryssa hans, Dögg frá Sauðanesi, lækkaði fyrir skeið úr 8,5 í 8,0 fjórtán klukkustundum eftir að dómur var uppkveðinn og vill að RML endurgreiði sér sýningargjaldið.

Ég er ósáttur við þessa lækkun, en báðar einkunnir tel ég þó vera verjanlegar bæði 8,5 og 8,0, en finnst  þó einkennilegt að mörgum klukkustundum eftir að dómur er fallinn lækki hryssan mín um hálfan fyrir skeið og útskýringarnar sem ég fæ, eftir að ég leitaði eftir þeim sjálfur, eru þær að um mistök hafi verið að ræða. Ég veit um dæmi frá því á síðasta ári þar sem þessu var öfugt farið. Dómnefnd gerði þá greinileg mistök þegar þau sáu ekki að knapi leisti verkefnið að losa um taum sómasamlega og hrossið sem hann sýndi uppfyllti öll skilyrði til að hljóta 9,0 fyrir tölt en hlaut 8,5. Þegar þeim var svo sýnt það á myndbandi báðust þau afsökunar en sögðu þó að dómurinn stæði þar sem ekki væri hægt að leiðrétta mistök eftir á. Þessi leiðrétting á minni hryssu er því í mótsögn við það og maður spyr sjálfan sig hvað sé rétt í þessu öllu saman. Ef að dómurinn á hryssunni minni flokkast undir mistök að þá finnst mér eðlilegt að hann verði niðurfelldur og RML endurgreiði mér sýningargjaldið og hugsanlega fer ég fram á það líka að þeir borgi mér þá tvo mánuði sem hún hefur verið í þjálfun frá því á vorsýningum. Það sem svíður þó mest er það að enginn af dómnefndarmönnum skyldi taka upp símann og láta mig eða knapa hryssunar vita af lækuninni um leið og hún var stimpluð inn. Þau höfðu þrjá kosti að láta þetta standa þ.e.a.s. 8,5 fyrir skeið, eða þá hringja í mig strax og þetta fattaðist og láta mig vita um mistökin og þá hefði ég fengið eðlilegar útskýringar á þessu þriðji og síðasti kosturinn og þann versta völdu þau.“  Sagði Ágúst m.a. í samtali við Eiðfaxa.

Í dómnefndinni á Hólum sátu þau Elsa Albertsdóttir, Eyþór Einarsson og Einar Ásgeirsson en Elsa var formaður dómnefndarinnar. Blaðamaður Eiðfaxa hafði samband við hana og spurði hana út í hver ástæða þessarar lækkunar væri. „Það var ekki um lækkun að ræða heldur leiðréttingu á misskráningu. Hryssan hlaut 8,0 fyrir skeið í dómi. Það er mikilvægt þegar það verða mistök að þau séu leiðrétt við fyrsta tækifæri og vissulega hefði verið gott að hringja í knapa eða eiganda hryssunar strax en dómstörf voru hafin þegar misskráningin var leiðrétt og því gafst ekki tími til þess, en umráðamönnum hryssunar var gert þetta ljóst um leið og tækifæri gafst.“

Bjarni Jónasson var knapi á Dögg frá Sauðanesi en hún mætti ekki til yfirlits. Hér fyrir neðan er myndband af skeiðsprettinum í forsýningu birtur með góðfúslegu leyfi AlendisTV sem sýndi beint frá sýningunni eins og öðrum kynbótasýningum og flestum viðburðum hér á landi í ár.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar