“Vinnan er hafin en hópurinn er að taka á sig endanlega mynd“

  • 1. mars 2023
  • Fréttir
Starfshópur LH og barna- og menntamálaráðuneytsins í tengslum við nýliðun innan hestaíþróttarinnar

Á síðasta Landsþingi Landssambands hestamannafélaga sem haldið var í byrjun nóvember 2022 var mikið rætt um nýliðun en þetta er brýnt málefni innan hestaíþróttarinnar.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra tilkynnti það formlega á Landsþinginu að skipa ætti starfshóp sem falið væri að greina þær áskoranir og hindranir sem eru til staðar fyrir börn og unglinga sem hafa áhuga á að hefja æfingar á hestaíþróttum. Markmið hópsins er að finna leiðir til að auðvelda börnum og unglingum aðgengi að hestaíþróttinni eins og öðrum íþróttagreinum.

Í nefndaráliti æskulýðsnefndarinnar kom fram að starfshópurinn ætti að vera tekinn til starfa eigi síðar en 1. febrúar 2023.

“Vinnan er hafin en hópurinn er að taka á sig endanlega mynd. Kallað var eftir að LH myndi skipa einn fulltrúa í hópinn og ÍSÍ annan, ásamt starfsmönnum ráðuneytisins. ÍSÍ bað okkur um að skipa fulltrúa fyrir hönd ÍSÍ sem hefði betur skilning á málefninu og í hópinn eru þau komin Hákon Hákonarson, ritari LH, og Edda Rún Ragnarsdóttir, stjórnarmaður LH en hún er mikill reynslubolti þegar kemur að æskulýðsmálum og reiðkennslu,” segir Guðni Halldórsson formaður LH sem er einnig í hópnum og mun leiða hann ásamt starfsmönnum ráðuneytisins en enn liggur ekki fyrir hverjir verða í hópnum fyrir hönd þess.

“Við lítum á þetta sem sterkt innlegg í nýliðunarstarfið. Hópnum er ætlað að greina og kalla til fagaðila hvort sem þeir eru frá ríki, sveitarfélagi eða menntastofnunum og finna út hvernig hægt er að koma hestaíþróttinni betur inn í almennt barna- og unglingastarf og samræma þessa vinnu m.a. við frístundakortin. Þetta er viðamikið og metnaðarfullt verkefni. Það er öðruvísi að vera með ráðherraskipaðan hóp heldur enn einhverja nefnd innan LH. Þetta hefur meira vægi, meiri stuðning og fjárhagslegan styrk,” bætir hann við.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar