“Vissum ekkert hvað við vorum að gera í upphafi”

  • 23. janúar 2022
  • Fréttir

Steinn Guðjónsson, Brynja Guðmundsdóttir, Kári Steinsson og María frá Feti við verðlaunafhendingu í flokki sex vetra hryssna á Landsmóti 2011 þar sem María stóð efst.

Hrossabændur teknir tali - Lerkiholt

Eiðfaxi ætlar að halda áfram að taka nokkra ræktendur landsins á tali sem eru í óðaönn að undirbúa komandi tímabil. Næsta hrossaræktarbú sem við kynnum til leiks er Lerkiholt

Lerkiholt er frekar ungt og lítið hrossræktarbú en á bakvið búið er Kári Steinsson og foreldrar hans Steinn Guðjónsson og Brynja Guðmundsdóttir. Lerkiholt er útaf Meiri Tungu í Holtahrepp og er staðsett ská á móti Landvegamótum. Lerkiholt er 26 ha jörð og ræktunin hefst árið 2010 þegar fyrsta folaldið fæðist sem kennt er við staðinn.

Stóðhestabókin kveikti ræktunaráhugann
Kári Steinsson og María frá Feti slógu í gegn á Landsmóti 2011 þegar María stendur þar efst í flokki sex vetra hryssna en það var líka hún sem ýtti þeim feðgum út í ræktun. “Við kaupum tvær vetur gamlar hryssur árið 2006, þær Marglyttu og Maríu frá Feti. Ástæðan var nú eiginlega sú að ég var búin að vera keppa lengi og vantaði nýjan hest en hesturinn sem okkur langaði að kaupa var ekki til sölu. Síðan vorum við að fletta í stóðhestabókinni á kaffistofunni og við pabbi fengum þá hugdettu að kaupa bara trippi í staðinn og byrja prófa okkur áfram í ræktun,” segir Kári en ræktunarbúið Fet var valið sem fyrsti áfangastaðurinn í leit að ræktunarhryssunni en helsta ástæðan fyrir því var að búið var mjög áberandi í bókinni og síðan var vindóttur stóðhestur í henni, Víglundur frá Feti, sem þeir heilluðust af og því stefnan tekin þangað. “Við tókum bíltúr og ætluðum bara að skoða. Töluðum við Sigurð Vigni Matthíasson á leiðinni og hann sagðist lofa því að við kæmum ekki tómhentir heim. Það væri alveg sama hvað við myndum reyna að þá myndi kallinn selja okkur eitthvað. Hann reyndist sannspár en við keyptum bæði Víglund og þessar tvær hryssur,” segir Kári og bætir þó við að þeir hafi nú ekki keypt þetta allt í sömu ferðinni, Víglund eignuðust þeir sumarið 2007. “Við keyptum Marglyttu fyrst eina. Pabbi er góður að taka myndir og tók mikið af myndum úr túrnum og á þeim sáum við brúnt merfolald merkt 5FET1 sem heillaði okkur. Við höfðum ekkert vit á þessu og fórum að spyrja út í hana og Brynjar segir okkur það að hún sé vel ættuð og var hann tilbúinn til að selja okkur hana en hún var reyndar töluvert dýrari en hin. Þær voru þó báðar Orradætur og undan fyrstu verðlauna merum líka. Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá vissum við ekki neitt hvað við vorum að gera. Þetta var bara svört hryssa sem hét María, fallegt nafn og vel ættuð hryssa. Lýsingarnar frá Brynjari voru líka góðar en hann sagði okkur hvernig þetta yrði og það stóðst allt sem hann sagði. En svona byrjar ræktunin hjá okkur” bætir Kári við en María átti eftir að marka djúp spor í hjörtu fjölskyldunnar.

Gæðingurinn María
María fór í frumtamningu í Austurás en þar var Sigursteinn Sumarliðason að vinna. “Ég tók Maríu og Marglyttu inn á hús sem folöld og er eitthvað að kemba þeim og teyma þær um dalinn en við erum með hesthús í Fáki. Brynjar kemur til mín um vorið og er að kíkja á hryssurnar og fylgjast með mér og býður mér í vinnu um sumarið. Þar kynnist ég þeim Ævari Erni Guðjónssyni og Sigursteini en Marglytta fór til Ævars og Steini tekur Maríu,” segir Kári en Sigursteinn sýndi síðan hryssuna um vorið, fjögurra vetra, og fór hún strax í fyrstu verðlaun. “Þegar hann er að sýna hryssuna þá kemur Kristján Ketilsson upp að okkur og óskar okkur til hamingju með fyrstu verðlauna hryssuna okkar þó sýningin væri ekki búin. Við vissum ekki neitt og áttum ekki von á neinu. Við fórum einu sinni að skoða hana um veturinn, Sigursteinn eiginlega píndi okkur í það. Við áttuðum okkur ekkert á hversu góð hún væri. Eins og alltaf tók pabbi myndir af henni og þegar maður skoðar þær í dag áttum við okkur alveg á að þetta var kannski óvenjulegt trippi,” bætir Kári við og hlær.

María frá Feti á fjórða vetur

 

Ein versta og ein besta upplifunin á hestbaki
Fimm vetra fer hryssan undir Grun frá Oddhóli en hún fyljast ekki og Kári ákveður því að hafa hana á járnum um veturinn og halda henni síðan aftur um vorið. “Þarna er hún sex vetra og ég prófa að keppa aðeins á henni sem gekk mjög vel og fórum við hæst í 7,67 í úrslitum í tölti. Um vorið fer ég síðan að vinna með John Kristni Sigurjónssyni á Ármóti og langar aðeins að reyna koma hryssunni inn í töltið á Landsmóti en hún var alveg við það að komast inn. John, og Hrefna María Ómarsdóttir sem var mikið þarna voru þó alltaf að nefna það við mig að ég ætti að fara með hryssuna í kynbótadóm. Það var svo þegar Hrefna María segir við mig; “ætlarðu virkilega að hafa hryssuna heima úti á túni meðan Landsmótið er,” að ég ákveða að sýna hryssuna og gera það sjálfur. María var tekin af botnunum og þau redduðu tíma fyrir mig. Ég reið afleggjarann fram og til baka og John segir þetta vera í lagi. Daginn eftir er ég mættur með hana á sýningu á Hellu sem er ein mín versta upplifun á brautinni. Ég man ég hætti á endanum fjær af því mér leið eins og ég væri búin að eyðileggja orðspor hennar. Mér fannst þetta hafa gengið ömurlega og ég var næstum því farin að gráta þegar ég labba með hana að hesthúsinu,” segir Kári en það var þó ekki staðan því hryssan hlaut 8,49 fyrir hæfileika og endaði með 8,44 í aðaleinkunn. María og Kári því komin með farmiða á Landsmót á Vindheimamelum seinna um sumarið. “Ég var orðlaus. Ég bara trúði þessu ekki. Síðan á Landsmótinu var ég svo glaður að vera með hryssuna á mótinu og að sýna í fyrsta skiptið, og hvað þá hross í okkar eigu. Ég var ekki að pæla í neinu öðru. Mikið af hrossunum hafði verið að lækka á mótinu fyrstu dagana svo ef ég myndi halda mínum tölum þá yrði það sigur,” segir Kári en á mótinu átti hann eftir að eiga eina af sínum bestu upplifun á hestbaki. “Ég mæti þarna 8:30 um morguninn á brautina. Sýni hryssuna með John með mér á hliðarlínunni og Þórð Þorgeirsson líka. Þeir voru báðir að segja mér til. Þórður var með hryssuna sem endaði í öðru sæti en hann var samt þarna að hjálpa mér. Hann hefði alveg getað verið að rugla í mér en hann kom með þvílíkt góða punkta og sagði mér hvað ég ætti að gera síðustu ferðirnar. Þetta var ekkert smá dýrmætt og peppandi fyrir ungan knapa að hafa þessa goðsögn á hliðarlínunni,” segir hann en María endaði þarna efst í flokki sex vetra hryssna og fyrsti Landsmóts sigur Kára í höfn.

“Þetta var svakalegt kjaftshögg”
María fór síðan í ræktun og átti sex folöld áður en þeir feðgar misstu hana sumarið 2018 en þá festist í henni folald í köstun með þeim afleiðingum að þau drápust bæði. “Pabbi kemur að henni dauðri út í haga og folaldið hálft út úr henni. Þau fórust bæði. Eins mikil gleði sem hafði fylgt Maríu að þá var þetta svakalegt kjaftshögg fyrir okkur feðga. Ég held að pabbi sé ennþá að jafna sig. Hann fer alltaf austur tvisvar í viku, fyrir utan það að Þórdís og Tyrfingur í Meiri-Tungu sjá um gjafir og eftirlit fyrir okkur. Hann fær alltaf smá hnút í magann, sérstaklega síðustu metrana að hryssunum, um hvort allir séu á lífi og í standi,” segir Kári en öll afkvæmi Maríu eru nú á húsi hjá Kára í Fáki en fjögur af þeim hafa verið sýnd. Frægust er þó örugglega Líf frá Lerkiholti, Stáladóttir, sem vakti mikla athygli 2020 þegar hún hlaut 8,88 fyrir hæfileika og 8,61 í aðaleinkunn, aðra hæstu einkunn ársins í flokki sex vetra hryssna. “Ég á öll þessi hross sem eru til undan henni og eru þau rosalega góð. Líf er alveg einstök og stefnum við með hana á Landsmót, ekki viss alveg í hvað enn þá. Þetta eru allt hryssur undan henni fyrir utan einn hest. Það getur svo vel verið að allar þessar Maríudætur endi í ræktun hjá okkur. Manni finnst einhvern veginn ekki hægt að láta þær fara frá sér,” bætir Kári við.

Ræktunin er frekar smá í smíðum en í dag eiga þau 15 hross í heildina og eru að fá vanalega eitt folald á ári. “Við felldum Marglyttu en hún var ósýnd og var erfið í lund. Hún gaf skapið frá sér og við sáum hana ekki fyrir í ræktuninni hjá okkur í framtíðinni. Við erum vanalega að fá eitt folald á ári stundum tvö en við ætlum að setja kraft í þetta í vor, eða það sem við köllum að setja kraft í ræktunina, og stefnum á að halda þremur hryssum; Binný frá Björgum, Líf og Lóu sem er Kráksdóttir undan Maríu. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá hafði ég ekki mikla trú á ræktuninni til að byrja með. Margir hafa sagt við mann að þetta sé ekkert nema vesenið og vonbrigðin, og var það raunin hjá okkur í upphafi. Allt í einu núna eru hlutirnir byrjaðir að ganga og þá hef ég orðið tröllatrú á þessu hjá okkur,” segir Kári sem langar helst að bæta enn meira í enda séu þeir líka farnir að vita eitthvað meira hvað þeir eru að gera.

Líf frá Lerkiholti, undan Maríu frá Feti og Stála frá Kjarri, aðaleinkunn 8,61

 

Logi frá Lerkiholti undan Marglyttu frá Feti og Framherja frá Flagbjarnarholti

 

Lóa frá Lerkiholti, undan Maríu frá Feti og Kráki frá Blesastöðum 1a, aðaleinkunn 8,01

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar