„Vonumst enn eftir eðlilegu HM í Herning“

  • 21. febrúar 2021
  • Fréttir

Gunnar Sturluson, forseti FEIF. Mynd: Eiðfaxi

Viðtal við Gunnar Sturluson, forseta FEIF

Gunnar Sturluson var endurkjörinn forseti FEIF til tveggja ára á aðalfundi samtakanna, sem haldinn var með hjálp fjarfundabúnaðar þann 13. febrúar sl. Gunnar var einn í kjöri til forseta og hefur setið í stjórn FEIF frá 2011. Hann segir að ákvörðunin um að gefa kost á sér að nýju ekki hafa verið samkvæmt upphaflegu plani en í ljósi aðstæðna hafi hann ákveðið að láta til leiðast. „Covid19 hefur haft mikil áhrif á starf okkar hjá FEIF, líkt og hjá almenningi um víða veröld“ segir Gunnar. „Við höfum þó getað haldið starfinu gangandi með hjálp nútímatækni og héldum t.a.m. aðalfund samtakanna þannig nú um daginn. Framundan eru svo stór verkefni þar sem Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Herning í Danmörku ber hvað hæst.“

Frá HM í Herning 2015.

Enn er alls óvíst með hvaða hætti hægt verður að halda HM í Herning.  Til þess að hægt verði að halda mót þurfi landamæri að opnast og tilslakanir að eiga sér stað á samkomureglum.  Segir Gunnar að hjá FEIF sé unnið út frá þremur sviðsmyndum. „Í fyrsta lagi þá vonumst við enn til að geta haldið hefðbundið Heimsmeistaramót með u.þ.b. 5.000-8.000 áhorfendum. Til að svo geti orðið þurfa þó að eiga sér stað miklar tilslakanir á samkomureglum í Danmörku og alls óvíst hvernig þau mál þróast. Í öðru lagi gerum við ráð fyrir að geta haldið mótið með takmörkuðum fjölda áhorfenda, um eða undir 2.000 manns. Sú leið er hugsuð ef einhverjar tilslakanir verða gerðar en enn og aftur er það algjörlega háð afstöðu danskra stjórnvalda. Í þriðja lagi vinnum við með þá sviðsmynd að HM verði haldið án áhorfenda en aðgengilegt í beinu streymi. Ef sú leið verður farin þarf eftir sem áður að vera heimild fyrir samkomu fyrir um 500 manns, en við áætlum að knapar, aðstoðarfólk þeirra, dómarar, tæknimenn og annað starfsfólk nái þessum fjölda. Þessi leið er því einnig háð því hvort eða hversu miklar tilslakanir á reglum verða gerðar í Danmörku fram á sumarið.“

Jóhann R. Skúlason á Finnboga frá Minni-Reykjum á HM í Berlín 2019.

Upphaflega stóð til að ákvörðun um HM í Herning myndi liggja fyrir í kringum aðalfund FEIF nú í febrúar en Gunnar segir að fjölmargir óvissuþættir séu enn til staðar og því hafi menn sammælst um að fresta ákvarðanatöku um sinn. „Við leyfum okkur enn að vera bjartsýn á að staða mála muni batna umtalsvert á næstu vikum og mánuðum og að við getum haldið eðlilegt HM í Herning í ágúst. Um leið erum við þó meðvituð um að endanleg ákvörðun um þetta þarf að liggja fyrir tímanlega til að þeir gestir sem þegar hafa pantað flug og gistingu geti gert viðeigandi ráðstafanir ef á þarf að halda. Ég get ekki slegið neinu föstu um það hvenær þessi ákvörðun liggur fyrir en það verður væntanlega ekki síðar en í júní. Þangað til mun allt okkar fólk vinna hörðum höndum að undirbúningi HM í Herning og við leyfum okkur að vera bjartsýn eitthvað lengur“ segir Gunnar Sturluson, forseti FEIF.

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar

<