“Vorum orðin þreytt á veðrinu og harkinu”

  • 3. október 2021
  • Fréttir
Íslendingar erlendis - Viðtal við Elías Þórhallsson
Íslendingar erlendis er nýr liður á vef Eiðfaxa sem nú hefur göngu sína. Markmiðið er að fá að kynnast íslenskum hestamönnum og hestalífinu erlendis nánar. Elías Þórhallsson er næstur í röðinni en hann er búsettur í Frakklandi.

Elías Þórhallsson flutti til Frakklands með konu sinni og syni árið 2018 eftir að hafa unnið við hestamennsku í 20 ár á Íslandi. “Okkur langaði að breyta til og vorum bæðin orðin þreytt á veðrinu og þessu harki sem fylgir hestamennskunni á Íslandi. Ákváðum að drífa í þessu áður en við yrðum of gömul til að nenna þessu,” segir Elías en hann bjó áður í Mosfellsbæ þar sem hann stundaði tamningar og þjálfun ásamt því að rækta hross sem áður voru kennd við Koltursey en eru nú kennd við Örk. Einnig ráku þau hjónin reiðskóla fyrir börn og unglinga. Elías er giftur Berglindi Ingu Árnadóttur og saman eiga þau Rökkva Dan (f. 2005) en fyrir átti Elías Sigurð Heiðar (f. 1992) og Hrafndísi Kötlu (f.1999). En hvernig er venjulegur dagur í lífi fjölskyldunnar í Frakklandi “Dagurinn hefst snemma, Rökkvi fer í skólann og við í hesthúsið. Svo er bara þjálfað og reynt að komast yfir eins mikið og hægt er en svo eru alltaf einhver önnur störf sem þarf að sinna eins og sláttur, girðingarvinna, járningar og fleira. Hérna er svo auðvitað alltaf gott veður svo við erum úti nánast fram að kvöldmat en við erum svo heppin að búa við hliðina á hesthúsinu,” segir Elías

Elías starfar sem tamningamaður og bústjóri á Pur Cheval búgarðinum sem er staðsettur í La Huilerie, Breteau France, ca. 2,5 tíma frá París. “Við erum mest í tamningum og þjálfun, hestasölu og ræktun. Við erum með ræktunarhryssurnar okkar heima á Íslandi á Miðhrauni og erum við að fá um 5-6 folöld á ári þar en svo erum við með bestu hryssuna okkar hana Hnit frá Koltursey hérna hjá okkur í Frakklandi og er hún hér í folaldseignum,” en Hnit er Stáladóttir með 8,69 í aðaleinkunn. Aðrar ræktunarhryssur eru þær Hnoss frá Koltursey, Fjöður frá Gamla-Hrauni, Salka frá Sauðárkróki, Staka frá Koltursey, Stroka frá Kiðafelli og Klemma frá Koltursey. “Það er ekki mikið úrval af stóðhestum í Frakklandi enda kannski ekki mikil ræktun í gangi. Það eru þó nokkrir góðir eins og Herjólfur frá Ragnheiðarstöðum, Bjarkar frá Langholti, Glóðafeykir frá Halakoti og Hildingur frá Bergi. Í sumar notuðum við ungan 3v. fola sem við eigum undan Hnoss frá Koltursey og Stála frá Kjarri og heitir Örvar frá Örk svo notuðum við Glampa frá Skeiðháholti, Sjóð frá Kirkjubæ og svo auðvitað snillinginn hann Glóðafeyki frá Halakoti,” segir Elías

Elías og Berglind kepptu fyrir hönd franska landsliðsins á síðasta heimsmeistaramóti og stefna þau á það næsta, “Við höfum verið að keppa svolítið, kannski meira fyrir covid en svo aftur aðeins núna í sumar. Það hefur bara gengið ágætlega en við sækjum helst keppnir í Þýskalandi og höfum svo einnig farið til Sviss. Stefnum auðvitað á að keppa meira á næsta tímabili en við erum bæði með frekar ung keppnishross sem við stefnum vonandi með á næsta heimsmeistaramót ef allt gengur upp,” segir Elías en lítið er um íslenska hesta á þessu svæði sem þau eru á og því þarf oft að ferðast langar vegalengdir til að hitta annað hestafólk og sækja keppnir. “Okkur líður voða vel hér í Frakklandi og stefnum á að vera hérna áfram á þessum dásamlega stað og gera enn betur í því sem við erum að gera í dag varðandi hestasölu og markaðsstarf. Við reynum þó að koma reglulega til Íslands ca. 2-3 á ári og aldrei að vita nema við skellum okkur á Landsmót næsta sumar,” segir Elías að lokum.

 

 

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar