Heimsmeistaramót Yfirburðir Árna og Kastaníu ótvíræðir – Védís efst ungmenna!

  • 6. ágúst 2025
  • Fréttir

Árni Björn og Kastanía Ljósmynd: Henk & Patty

Íslensku knaparnir stóðu sig vel í forkeppni í tölt

Það er alltaf mikil spenna fyrir forkeppni í tölti T1 því og afar áhugavert að sjá samanburð á bestu tölturum þátttökuþjóðanna. Alls tóku sjö íslenskir knapar þátt í forkeppninni og stóðu sig mjög vel.

Fyrst inn á af íslensku keppendunum var ríkjandi heimsmeistari ungmenna í greininni, Herdís Björg Jóhannsdóttir á Kormáki frá Kvistum. Hún lenti í erfiðleikum strax í upphafi og sagði í samtalið við Eiðfaxa að hún hafi ekki náð því flæði í sýninguna sem hún hefði viljað, einkunn þeirra 6,27 sem þýðir að hún keppir ekki til úrslita í tölti. Næst var komið að Védísi Huld Sigurðardóttur á Ísaki frá Þjórsárbakka, þau náðu að laða fram frábæra sýningu og uppskáru 7,50 í einkunn sem skilar þeim efsta sætinu í forkeppni og sterka stöðu fyrir úrslitin.

Herdís og Spuni Ljósmynd: Henk & Patty

Védís og Ísak. Ljósmynd: Henk & Patty

Nýbakaðir heimsmeistarar í gæðingaskeiði ungmenna, Jón Ársæll Bergmann og Harpa frá Höskuldsstöðum, tóku þátt í töltinu sem er liður í því hjá þeim til þess að berjast um heimsmeistaratitil í samanlögðum fimmgangsgreinum. Þau gerðu vel og uppskáru í einkunn 6,43 sem gefur þeim góða stöðu fyrir samanlagðan sigur, ef allt saman fer eftir bókinni í fimmgangi.

Jón Ársæll og Harpa. Ljósmynd: Henk & Patty

Þá var komið að Þórgunni Þórarinsdóttur á Djarfi frá Flatatungu en þeirra sterkasta grein er fimmgangur. Þau gerðu mjög vel í töltinu og stóðu sig frábærlega en hún tók einnig þátt í gæðingaskeiði í gærkvöldi þar sem hlutirnir gengu ekki upp. Gott upp á sjálfstraustið fyrir fimmgang og framhaldið að sýna Djarf  svo góðan á tölti, einkunn þeirra var  7,13 sem tryggir þeim A-úrslita sæti í tölti ungmenna, miðað við upplitið á Djarfi hafa þau svo sannarlega ekki sagt sitt síðasta á mótinu!

Þórgunnur og Djarfur. Ljósmynd: Henk & Patty

Lilja Rún Sigurjónsdóttir og Arion frá Miklholti tóku einnig þátt í töltinu eftir að hafa staðið sig frábærlega í slaktaumatöltinu fyrr í dag. Gæðin skinu af þeim í þessari grein og þau hlutu í einkunn 7,10 og sæti í A-úrslitum.

Lilja Rún og Arion. Ljósmynd: Henk & Patty

Í síðasta holli dagsins var svo komið að knöpum okkar í fullorðinsflokk þeim Árna Birni og Jóhönnu Margréti. Jóhanna sýndi hryssuna Össu frá Miðhúsum listavel og uppskar einkunnina 7,83 sem gefur þeim efsta sætið í B-úrslitum. Árni Björn og Kastanía frá Kvistum framkölluðu svo gæsahúðarsýningu og hlutu fyrir hana 8,80 og lang efsta sætið í forkeppninni. Frábær frammistaða hjá íslensku knöpunum í tölti og nú er bara að bíða eftir úrslitunum í þeirri grein sem án vafa verða spennandi, þangað til má horfa á viðtöl við alla keppendur dagsins hér á vefsíðu Eiðfaxa.

 

10 efstur í flokki fullorðinna

# Knapi Hestur Einkunn
1 Árni Björn Pálsson Kastanía frá Kvistum 8.80
2 Anna Lisa Zingsheim Glaður frá Kálfhóli 2 8.23
3 Lisa Schürger Kjalar frá Strandarhjáleigu 8.20
4 Jóhann Rúnar Skúlason Evert fra Slippen 8.07
5 Jamila Berg Toppur frá Auðsholtshjáleigu 7.93
6 Jóhanna Margrét Snorradóttir Assa frá Miðhúsum 7.83
7 Lena Maxheimer Abel fra Nordal 7.77
7 James Boás Faulkner Hálfmáni frá Steinsholti 7.77
9 Lilja Thordarson Hjúpur frá Herríðarhóli 7.73
10 Veronika Kremmer Ísbjörn vom Vindstaðir 7.57

 

10 efstu í ungmennaflokki

# Knapi Hestur Einkunn
1 Védís Huld Sigurðardóttir Ísak frá Þjórsárbakka 7.50
1 Daniel Rechten Óskar från Lindeberg 7.50
3 Þórgunnur Þórarinsdóttir Djarfur frá Flatatungu 7.13
4 Lilja Rún Sigurjónsdóttir Arion frá Miklholti 7.10
5 Amanda Frandsen Tinna frá Litlalandi 6.80
5 Miina Sarsama Freir fra Kaakkola 6.80
7 Jule Fülles Múli frá Bergi 6.70
7 Lilly Björsell Börkur fra Kleiva 6.70
7 Viviana Jäger Vala fra Vesterhald 6.70
10 Lina-Marie Neuber Safír frá Kvistum 6.63

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar