Skýr efstur reynslumikilla afkvæmahesta
Nýr kynbótamatsútreikningur birtist í Worldfeng nú um miðjan október. Fjöldi alþjóðlegra kynbótadóma (fullnaðardóma) sem lágu til grundvallar útreikningnum að þessu sinnu var 36.160. Fyrir forvitna hestaspekúlanta er gaman að skoða nýja kynbótamatsútreikninga og spá í spilin.
Nú beinum við sjónum okkar að þeim hestum sem eiga 50 eða fleiri dæmd afkvæmi og eru með 118 eða meira í aðaleinkunn kynbótamats.
Þessir stóðhestar ná því allir lágmörkum til heiðursverðlauna og hafa sumir þeirra hlotið verðlaun sem slíkir að undanskildum Arion frá Eystra-Fróðholti, sem var felldur árið 2018 í kjölfar slyss og þeim Vita frá Kagaðarhóli, Konsert frá Hofi og Ölnir frá Akranesi sem nú hljóta heiðursverðlaun. Þeir eru staðsettur erlendis og ætti samkvæmt samþættum reglum aðildarlanda FEIF að fá afkvæmaorð í Worldfeng.
Flest dæmd afkvæmi af þessum hestum á Spuni frá Vesturkoti alls 187 með fullnaðardóm. Fjórir af þessum stóðhestum hafa verið fluttir úr landi en það eru þeir Kiljan frá Steinnesi, Konsert frá Hofi, Ölnir frá Akranesi og Viti frá Kagaðarhóli.
Þrír af þessum hestum eru fallnir frá en það eru auk Arions þeir Óskasteinn frá Íbishóli og Loki frá Selfossi.
Skýr frá Skálakoti stendur efstur þessarra hesta með 135 stig í aðaleinkunn og 124 dæmd afkvæmi en hann hlaut Sleipnisbikarinn eftirsótta árið 2020 og heldur áfram að bæta rósum í hnappagatið.
Nafn | Sköpulag | Hæfileikar | Aðaleinkunn | Öryggi | Fj. afkv. Með fullnaðardóm |
Skýr frá Skálakoti | 135 | 128 | 135 | 98% | 124 |
Spuni frá Vesturkoti | 115 | 128 | 130 | 99% | 187 |
Kiljan frá Steinnesi | 116 | 126 | 128 | 97% | 91 |
Konsert frá Hofi | 125 | 121 | 127 | 98% | 101 |
Jarl frá Árbæjarhjáleigu | 108 | 125 | 125 | 96% | 53 |
Trymbill frá Stóra-Ási | 110 | 123 | 124 | 96% | 60 |
Hrannar frá Flugumýri II | 108 | 122 | 122 | 97% | 91 |
Óskasteinn frá Íbishóli | 101 | 124 | 122 | 97% | 75 |
Sjóður frá Kirkjubæ | 112 | 121 | 122 | 96% | 60 |
Arion frá Eystra-Fróðholti | 109 | 120 | 121 | 97% | 93 |
Ölnir frá Akranesi | 122 | 114 | 119 | 97% | 69 |
Loki frá Selfossi | 107 | 118 | 118 | 97% | 71 |
Viti frá Kagaðarhóli | 111 | 117 | 118 | 96% | 55 |
Gott er að hafa í huga þegar kynbótamatið er skoðað að þetta er spá um kynbótagildi hrossa og því þarft að hafa öryggið til hliðsjónar því eftir því sem öryggið er meira því hærra verður forspárgildi kynbótamatsins. Allir hafa þessir hestar 96% öryggi eða meira í kynbótamatinu.
Nánar má lesa um kynbótamat og erfðaframför í íslenska hrossastofninum með því að smella hér.