Ákvörðun tekin um val kynbótahrossa á LM
Fundargerð fagráðs í hrossarækt frá því þann 21. febrúar er nú aðgengileg á vef RML. Á fundinum var meðal annars tekið fyrir og rætt hvernig vali kynbótahrossa á Landsmót í sumar skyldi háttað.
Rétt tæpur helmingur
Líkt og fjallað var um á vef Eiðfaxa fyrr í vetur að þá voru klárhross á síðasta Landsmóti rétt tæpur helmingur þeirra sem þátttökurétt hlutu á mótinu eða 46% allra hrossa. Þessa aukningu má helst rekja til þess að árið 2020 ákvað fagráð að við val inn á landsmót væri farin sú leið að 75% hrossa í hverjum flokki væri valinn eftir aðaleinkunn og 25% hrossa eftir aðaleinkunn án skeiðs. Þá urðu breytingar á vægisstuðlum kynbótadóma árið 2020 þar sem vægi á brokki og feti var hækkað auk þess að hægt stökk fékk vægi í heildar einkunn hrossa.
Sami fjöldi
Á fundi fagráðs var eftirfarandi ákveðið: Fagráð ákveður að 170 hross hafi þátttökurétt í einstaklingssýningum kynbótahrossa á Landsmóti 2024 þannig að viðhaldið sé þeim fjölda sem verið hefur frá árinu 2018. Einnig ákveður fagráð að viðhaldið verði þeim fjölda sem hafi þátttökurétt í hverjum flokki fyrir sig. Þá má einnig lesa í fundargerðinni að Fagráð ákveður að val kynbótahrossa á stöðulista fyrir Landsmót 2024 fari eftir aðaleinkunn.
Hér fyrir neðan má sjá fjölda kynbótahrossa á Landsmóti eftir hverjum aldursflokki og þá verður eingöngu stuðst við aðaleinkunn við valið.
Flokkur | Fjöldi |
7 vetra og eldri hryssur | 15 |
6 vetra hryssur | 30 |
5 vetra hryssur | 30 |
4 vetra hryssur | 20 |
4 vetra hestar | 20 |
5 vetra hestar | 20 |
6 vetra hestar | 20 |
7 vetra og eldri hestar | 15 |
Samtals: | 170 |