Framtíð kynbótahrossa á Landsmóti

  • 9. janúar 2024
  • Fréttir

Frá afkvæmasýningu Lukku-Láka frá Stóra-Vatnsskarði á LM2018 í Reykjavík

Vangaveltur um framtíð kynbótahrossa á Landsmóti

Frá því að fyrsta Landsmót hestamanna var haldið að Þingvöllum árið 1950 hafa þangað verið leidd bestu kynbótahross hvers tíma og þau dæmd og verðlaunuð, bæði sem einstaklingar og afkvæmahross. Í tímans rás hafa aðstæður vitanlega breyst mikið og hinar ýmsu breytingar verið gerðar á matskerfinu sem og á mótinu sjálfu. Landsmót eru vítamínsprauta fyrir hestamennskuna og það skal aldrei vanmeta. Á mótinu verða til stjörnur í hópi hrossa sem dreifa erfðaefni sínu áfram og fleyta ræktuninni fram. Það er gömul og ný umræða hvernig dómum á kynbótahrossum skal háttað og hafa margar hugmyndir komið fram í gegnum tíðina um það hvernig hestamenn vilja sjá þessa hlið landsmótanna þróast.

Einkunnalágmörk ekki málið

Nýjasta breytingin í þeim efnum var framkvæmd fyrir Landsmót 2016 á Hólum í Hjaltadal þegar hætt var að taka inn kynbótahross á einkunnalágmörkum og byrjað að styðjast við þátttökufjölda í hverjum aldursflokki. Þær breytingar voru gerðar í kjölfarið á aðalfundi Félags Hrossabænda haustið 2014 þar sem ákveðið var að stofna nefnd til að skoða aðkomu kynbótahrossa á Landsmótum. Nefnd þessi vann gott starf og ályktaði m.a. það sem hér á eftir fer.

Til að sá fjöldi kynbótahrossa sem vinnur sér þátttökurétt á mótinu verði fyrirsjáanlegri er hugmyndin að hafa ákveðin fjölda í hvern flokk kynbótahrossa – í stað einkunnalágmarka. Sú aðferð að styðjast við einkunnalágmörk hefur skapað mikla óvissu um fjölda kynbótahrossa á mótinu með tilheyrandi kostnaði en sú aðferð sem lögð er til eyðir þessari óvissu nánast alveg. 

Í kjölfarið á þessu var ákveðið að hafa eftirfarandi fjölda í hverjum aldursflokki sem nú hefur því verið í gildi á þremur Landsmótum. Þessu til viðbótar var ákveðið að til að auðvelda klárhrossum að komast inn á mót í sínum aldursflokki er tíu stigum bætt við aðaleinkunn þeirra

Flokkur             Fjöldi

7v. og eldri hryssur:    15

6v. hryssur:      30

5v. hryssur:      35

4v. hryssur:      20

4v. hestar:       15

5v. hestar:       20

6v. hestar:       20

7v. og eldri hestar:      10

Samtals:          165

Ekki skal draga úr fjölda kynbótahrossa

Aðalfundur búgreinadeildar hrossabænda innan BÍ árið 2022 samþykkti að fela stjórn að skipa starfshóp til að ræða aðkomu kynbótahrossa á landsmótum og fyrirkomulag sýninga þeirra. Starfshópinn skipuðu: Eysteinn Leifsson ritari og fulltrúi stjórnar, Helga Una Björnsdóttir, Elvar Þormarsson, Guðmundur Sveinsson, Gísli Gíslason og Eyrún Ýr Pálsdóttir

Í skýrslu frá starfshópnum kom þetta m.a. fram:

Hópurinn er á því að núverandi fyrirkomulag dóma og sýninga á LM sé æskilegast og ekki megi draga úr fjölda hrossa né hlut kynbótahrossa í dagskrá mótanna. Mikilvægt sé að vallaraðstæður séu mjög góðar og haldin sé kynbótasýning á viðkomandi velli að vori landsmótsárs, einnig væri æskilegt að fulltrúi ræktenda/knapa ættu aðkomu að úttekt á sýningaraðstöðu. Kynningar og upplýsingar til áhorfenda þurfa að vera góðar, og einnig vanda til við framsetningu á dómsorðum afkvæmahrossa almennt.

Forgjöf klárhrossa óþörf?

Nú þegar Landsmót er framundan næsta sumar í Reykjavík má því ætla að ekki verði gerðar breytingar á vali kynbótahrossa né tilhögun dóma á þeim en fróðlegt er að velta fyrir sér hinum ýmsu hlutum þrátt fyrir það um framtíð kynbótahrossa á Landsmótum.

  • Hlutur klárhrossa á Landsmótum hefur aukist með tilkomu þess að þau fá 10 stig ofan á aðaleinkunn sína, sem átti að virka sem hjálp fyrir þau til að komast inn á mótið. Þó virðist það sérstaklega hafa tekið stökk eftir að vægisstuðlum á dæmda eiginleika var breytt fyrir nokkrum árum. Á Landsmóti árið 2022 voru þau hross sem sýnd voru sem klárhross 43% hrossa og alhliðahross 57%. En á síðustu þremur Landsmótum á undan var hlutfallið um og í kringum 20%. Því má leiða líkur að því að sú forgjöf sé óþörf og bestu klárhross landsins komist inn á mótið án þessarar aðstoðar.
  • Getur verið að fjölda-lágmörk í stað einkunnalágmarka geri það að verkum að meira sé um endursýningar á vorin og að það bitni hvað mest á yngri hrossunum sem fá því ekki frí að lokinni kynbótasýningu í einhverja daga milli vorsýninga og Landsmót því að það þurfi að halda þeim í þjálfun ef til þess kæmi að þau væru ekki í hópi þeirra efstu og þá sýna þau að nýju með þá von að ná inn á mót. Mætti skoða það að taka yngstu hrossin inn á einkunna lágmörkum en eldri hrossin með fjölatakmörkunum?
  • Landssýning kynbótahrossa árið 2020 og samhliða Fjórðungsmóti árið 2021 þóttu takast vel og gefa ákveðin fyrirheit um það að ekki þyrfti að endurdæma hrossin að nýju á Landsmótum. Á sænska Meistaramótinu í sumar voru kynbótahross í fyrsta sinn á meðal þátttakenda og voru þau ekki endurdæmd þar að fullu. Þau þurftu hins vegar að sýna tölt og brokk og skeið, ef þau bjuggu yfir þeim eiginleika. Þessi leið hélt áfram spennu við það hvort hrossin stæðu við sitt á þeim gangtegundum sem mest vega og þ.a.l. hvort röðin inn á mót héldist óbreytt og hver stæði uppi sem sigurvegari.

 

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar