Þjálfararnir voru með bestu meðmæli
Eins og áður hefur komið fram á vef Eiðfaxa stöðvaði Matvælastofnun tímabundið sérstaka þjálfun á hestum til þátttöku í kvikmyndaframleiðslu.
Kvikmyndaverkefnið sem um ræðir er þáttaröðin King and Conqueror sem verið er að framleiða fyrir BBS og CBS. Baltasar Kormákur er leikstjóri fyrsta þáttarins og einn framleiðandi þáttaraðarinnar fyrir hönd RVK Studios. Framleiðslufyrirtækið RVK Studios óskaði eftir hrossum til leigu eða kaups á samfélagsmiðlum um miðjan janúar. Þurftu hrossin að vera tilbúin í verkefnið sem fyrst, þar sem þjálfun myndi hefjast á allra næstu vikum.
Í gær fór myndband frá einni slíkri þjálfunarstund, ef svo mætti kalla, eins og sinueldur um netheima sem vakti hörð viðbrögð þeirra sem það sáu og skyldi engan undra.
Vísir greinir frá því að Baltasar Kormákur og hans teymi hafi verið verulega brugðið þegar þeim barst veður af meðferð hrossanna og kemur þar fram að þjálfararnir hafa verið reknir um leið og upp komst um málið.
„Við vorum auðvitað í miklu sjokki og við rákum þetta fólk strax. Um leið og ég fékk veður af þessu í gær var þetta fólk kallað inn og rekið. Þetta eru sjö manns,“ segir Baltasar í viðtali við Vísi. Hann segist hafa séð myndbandið í gærkvöldi um sexleytið og hafi þjálfararnir verið reknir klukkutíma seinna.
Einnig kemur þar fram að þjálfararnir hafi verið með bestu meðmæli sem hægt er að fá en þeir hafa t.d. starfað við framleiðslu Game of Thrones og Gladiator.