Heimsmeistaramót „Hesturinn er í eins góðum höndum og hægt er að hugsa sér“

  • 24. nóvember 2024
  • Fréttir

Jóhanna Margrét og Bárður á HM2023. Ljósmynd: Krijn Buijtelaar

Hvernig eru heimsmeistaranir hestaðir?

Framundan á næsta ári er Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Sviss. Landsliðhópar Íslands fyrir komandi tímabil hafa verið tilkynntir, þó að sjálfsögðu þar geti orðið breytingar á fram að móti og endanlegt lið liggur ekki fyrir. Ljóst er þó að nokkrir knapar eiga rétt á þátttöku í mótinu sökum þess að þeir urðu Heimsmeistarar á síðasta móti. Eiðfaxi ætlar að taka hús á þeim núna á næstu misserum og athuga stöðuna fyrir næsta ár.

Jóhanna Margrét Snorradóttir vann tvo heimsmeistaratitla, í tölti og samanlögðum fjórgangsgreinum á síðasta heimsmeistaramóti og munaði litlu að þau Bárður frá Melabergi nældu sér í þann þriðja í fjórgangi. 

“Að verða heimsmeistari breytti kannski ekki miklu nema mótiverar mann enn meira. Ég hef farið mikið út þar sem Bárður er og hef fengið að fylgja honum eftir með nýjum eiganda. Hann náði hvílíkum árangri í sumar en hann varð tvöfaldur svissneskur meistari og Mið-Evrópumeistari í samanlögðum fjórgangsgreinum og í fjórgangi. Hesturinn er í eins góðum höndum og hægt er að hugsa sér,” segir Jóhanna Margrét. 

Jóhanna Margrét stefnir með Kormák frá Kvistum á næsta heimsmeistaramót en þau hafa átt góðu gengi að fagna í fjórgangsgreinum á þessu ári en sem dæmi voru þau í úrslitum í bæði tölti og fjórgangi á Íslandsmótinu. Maður byrjaði strax að hugsa hestakostinn, eiginlega ári áður en maður fór út. Þetta er alltaf upplifun að fara á heimsmeistaramót og ekkert grín að finna annan Bárð. Ég stefni með Kormák og hef gríðarlega mikla trú á honum. Hann er að stíga mikið upp og á mikið inni ennþá. Ef ég held vel á spöðunum og hann tekur næstu skref þá verður hann vonandi kominn á þetta stig að berjast við þá bestu. Spurningin er bara er eitt ár nægur tími? Ég er með fleiri hesta og sér maður aðeins næsta vor hvernig hlutirnir standa. Ef hann er ekki að taka þetta skref sem ég hef fulla trú á að hann geri. Verð ég vonandi með einhvern annan,” segir Jóhanna sem leggur upp með sama upplag í þjálfuninni og þegar hún var að fara með Bárð á Heimsmeistaramótið, þ.e.a.s sparaði hestinn í keppni um veturinn og lagði fulla áherslu á heimsmeistaramótið í ágúst.

Jóhann Margrét og Kormákur. Ljósmynd: Jón Björnsson

“Ef þú ætlar að mæta í fjórganginn í janúar og vera í toppnum að þá þarftu að ýta verulega á hestinn í janúar. Mig langar ekki að gera það með Kormák þegar ég ætla að toppa í ágúst. Ég fann á Kormáki þegar fór að líða á sumarið núna, eftir svona langt tímabil, að það var komin smá þreyta í hann. Hestar eru samt auðvitað ólíkir hvað þetta varðar. Aðrir hestar eru meiri naglar og þú finnur ekkert fyrir því. Ég fann þetta með Bárð og finn það með Kormák svo ætla að spara hann í vetur,” segir Jóhanna og vísar í Meistaradeildina en hún er, líkt og í fyrra, í liði Hestvit/Árbakka. 

“Síðan þarftu sjálfur líka að vera í líkamlega góðu standi og hausinn þarf að vera í lagi,” bætir hún við að lokum. 

Elvar Þormarsson stefnir ótrauður á næsta HM

Glódís er hvergi nærri hætt þrátt fyrir heimsmeistaratitil

 

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar