Íslenskur hestur til Tansaníu
Ekki hefur það gerst áður í sögunni, svo vitað sé, að hestur af íslensku kyni sé fluttur alla leið til Afríku. Nú stefnir í að það gerist í mars á þessu ári. Þá verður flogið með fyrsta íslenska hestinn til Tansaníu og er líklegt að fleiri fylgi í framhaldinu.
Allt frá því að markviss markaðssetning á íslenska hestinum hófst hefur hann farið sigurför um heiminn. Hundruðir þúsunda manna hafa hrifist með og viljað njóta hans ásetugæða og úrvals geðslags. Aldrei skal vanmeta þá landkynningu sem í þessu felst, enda íslenski hesturinn oft nefndur sem mikilvægasti sendiherra þjóðarinnar. Nú eru rúmlega 300.000 íslensk hross skráð í 22 mismunandi löndum heimsins í þremur heimsálfum og sú fjórða að bætast í hópinn.
Vera Weber, sem stundar hestamennsku í Sviss, er einn af aðalleikurnum á bak við þessa mögnuðu sögu. “Síðasta sumar gerðist það að hingað til mín kom kona sem heitir Saskia Rechsteiner, hún vildi fá reiðkennslu á íslenskum hesti og í stuttu máli sagt að þá féll hún algjörlega fyrir íslenska hestinum. Saskia býr ásamt fjölskyldu sinni í Tansaníu á gullfallegu svæði mjög nærri hinu fræga eldfjalli Kilimanjaro. Þar eru þau með stóran búgarð í um 800 metra hæð yfir sjávarmáli í miðjum þjóðgarði. Í kjölfarið á reiðtímanum kom upp sú hugmynd að hún myndi kaupa íslenska hesta og flytja þá til Tansaníu. Ég var örlítið skeptísk á það í upphafi, þekkjandi ekki aðstæður þar í landi og ekki viss um hvernig þær hentuðu íslenskum hestum. Úr varð að konan bauð mér til Tansaníu þar sem ég dvaldi í mánuð og eftir það varð ég fullviss um að íslenski hesturinn gæti vel þrifist á þessum framandi slóðum.”
Kaupandi hestsins og fjölskylda hennar eru nú þegar með hesta af öðrum kynjum og bjóða meðal annars upp á útreiðar túra fyrir ferðamenn í gríðarlega fallegu landslaginu. “Markmiðið er að flytja einn gelding til þeirra nú í mars, þá er vetrartími þar í landi og hitastigið í kringum 15° gráður og því ætti að vera þægilegt fyrir íslenskan hest að þrífast og aðlagast. Að loknum ákveðnum tíma og ef allt gengur vel er svo markmiðið að flytja fleiri íslensk hross til Tansaníu, því eru virkilega spennandi og nýjir tímar framundan sem gaman verður að fylgja á eftir.”
Eiðfaxi mun fylgja þessari sögulegu uppákomu eftir og segja og sýna lesendum sínum frá ferðasögu hestsins. Þegar hann flýgur frá Sviss til Tansaníu í mars mánuði og gerist enn einn ferfættur sendiherra lands og þjóðar.