Sigur Hetju einn af hápunktum ræktunarstarfsins

  • 25. febrúar 2025
  • Fréttir

Örn heldur í Hetju frá Hofi I sem stóð efst í flokki sex vetra hryssa á síðasta Landsmóti

Viðtal við Örn Bergsson á Hofi I í Öræfum.

Árið 1980 hófu þau Örn Bergsson og Brynja Kristjánsdóttir búskap að Hofi I í Öræfum en Örn er sjötti ættliðurinn sem situr jörðina. Saman eiga þau þrjú börn, dæturnar Hrefnu og Höllu Tinnu og soninn Steinþór. Lengst af stunduðu þau sauðfjárbúskap og voru með rúmlega 400 fjár á vetrarfóðrum þegar mest lét. Í haust voru þrjú ár liðin síðan þau hættu í sauðfjárrækt. Meðfram búskap hefur Örn verið virkur þátttakandi í félagsmálum bænda og sinnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum. Hrossarækt hóf Örn fyrir rúmlega þrjátíu árum og nú fæðast á bænum fimm folöld. Blaðamaður Eiðfaxa hafði samband við Örn til þess að fræðast meira um hrossaræktarsögu hans.

Smitaðist af hrossaræktaráhuga

Upphaf hrossaræktarinnar má rekja til ársins 1993 þegar fyrstu folöldin fæddust Erni. „Þegar ég er að alast upp voru eingöngu til smalahross hér á bæ, þau voru mjög misjöfn að gæðum og langflest þeirra ekki skemmtileg reiðhross. Ég var þar af leiðandi ekki mikið í útreiðum mér til skemmtunar. Ég smitaðist af hrossaræktaráhuga af þeim Reyni á Hlíðarbergi og Jóni Finni Hanssyni. Upphafið má rekja til þess að ég sat í stjórn Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga. Reynir var formaður þess og Jón Finnur var ráðunautur. Það er af þeirra völdum að mér datt í hug að fara að rækta hross og var Jón Finnur minn helsti ráðgjafi í upphafi. Ég lærði mikið af honum. Hann er hreinskilinn maður og ég tel mig  taka gagnrýni vel, þannig að samstarf okkar var mjög gott. Hann verslaði fyrir mig hross og ég ráðfærði mig við hann um það hvaða stóðhesta ég skyldi nota. Það var svo einhverju sinni að við vorum ekki alveg sammála um hvaða stóðhest ég ætti að halda undir. Jón Finnur sagði þá við mig, haltu þá bara undir hann, það skiptir engu máli hvaða hesta þú notar þú ert svo hestheppinn. Jóni á ég mikið að þakka og við höldum góðum vinskap enn í dag.“ Jón Finnur hafði lög að mæla því frá upphafi hefur ræktunin tekist vel.

Upphafsárið 1993

Úr fyrsta árgangi hlutu þrjú hross 1.verðlaun. Það voru þau Loki, Þruma og Gifting (eldri). Loki var undan Gný frá Hrepphólum og Þokkadís frá Hala, sem Jón Finnur verslaði fyrir Örn af Jóni í Hala. Hann var á meðal þátttakenda í fimm vetra flokki stóðhesta á Landsmóti árið 1998 sýndur af Marjolijn Tiepen og var svo seldur til Bandaríkjanna. „Þokkadís var frjósöm og átti 18 folöld af þeim komu 12 til fullnaðardóms. Þeirra á meðal var gæðingurinn Þula, undan Andvara frá Ey I, en hún var í 4.vetra flokki á Landsmóti árið 2004 ásamt knapa sínum Marjolijn Tiepen. Þar hlaut hún m.a. 9,0 fyrir tölt, stökk og hægt stökk. Þulu, ásamt öðrum afkvæmum Þokkadísar, seldi ég og á því ekkert hrossa af hennar ættmeiði i dag.“

Þula frá Hofi I, undan Andvara frá Ey og Þokkadís frá Hala. Hún var sýnd í 4.vetra flokki á Landsmóti árið 2004. Þar hlaut hún m.a. 9,0 fyrir tölt, stökk og hægt stökk. Knapi er Marjolijn Tiepen

Þruma var undan Tvisti frá Krithóli og Sölku frá Syðra-Skörðugili. „Sölku keypti ég af Einari Eylert Gíslasyni á Syðra-Skörðugili. Við Einar vorum miklir mátar og vorum heilmikið saman í félagsmálum. Ég keypti Sölku sem mertryppi og undan henni átti ég þrjú hross sem öllu komu til kynbótadóms. Hana seldi ég svo síðar meir. Það má segja að hún standi nú á bak við flest af mínum hrossum í gegnum dóttur sína Þrumu.“ Þruma hlaut háan kynbótadóm og stóð m.a. efst 6.vetra hryssa á Fjórðungsmóti Austurlands árið 1999, sýnd af Kristni Guðnasyni, hlaut hún þá 8,44 fyrir hæfileika og  í aðaleinkunn 8,32. Hún hlaut svo heiðursverðlaun fyrir afkvæmi árið 2011.

Örn með Þrumu frá Hofi árið sem hún hlaut heiðursverðlaun. Folaldið á myndinni er Skuggi frá Hofi I sem átti m.a. eftir að vinna silfur í fimmgangi á HM með knapa sínum Sigursteini Sumarliðasyni

Gifting (eldri) var undan Tvist frá Krithóli og Aldísi frá Jaðri. Aldísi keypti Jón Finnur fyrir Örn af Ásmundi Þór Þórissyni. Gifting hlaut í aðaleinkunn 8,15 í kynbótadómi, sýnd af Kristni Guðnasyni. „Hana missti ég því miður, en átti undan henni fjögur hross. Út af henni og Þrumu eru allar þær hryssur sem ég er með í ræktun í dag því dóttir Giftingar (eldri) og Ófeigs frá Flugumýri, sem Vaka hét, er móðir tveggja hryssa sem ég nota til ræktunar í dag þeirra Giftingar (yngri) og Aldísar.

Tekur virkan þátt í ræktunarstarfinu

Þau Kristinn Guðnason og Marjolijn Tiepen í Árbæjarhjáleigu komu í ríkum mæli að hrossaræktinni hjá Erni því á upphafsárunum tömdu þau og sýndu nær öll hross fyrir Örn og í seinni tíð hefur dóttir þeirra, Hekla Katharína, komið að tamningu og sýningum á hrossum í eigu Arnar. „Ég var svo lánsamur að komast í kynni við fjölskylduna í Árbæjarhjáleigu og það hefur verið mín gæfa í hrossaræktinni að nánast öll mín hross hef ég látið temja þar á bæ. Þau eiga því stóran þátt í þeim árangri sem ég hef náð og á samskipti okkur hefur aldrei borið skugga.“

Gifting „yngri“ frá Hofi I á Landsmóti árið 2011. Knapi Hekla Katharína Kristinsdóttir. Ljósmynd: Jens Einarsson

Á þessum 30 árum sem Örn hefur stundað hrossarækt hafa honum fæðst 158 hross, af þeim eru 138 hross á tamningaraldri. 50 þeirra hafa mætt til kynbótadóms, 44 til fullnaðardóms og 29 hlotið 1.verðlaun. Það verður að teljast frábær árangur að sýna tæplega 40% fæddra hrossa í kynbótadómi og með því hefur Örn fengið verðmætar upplýsingar um hvað megi bæta og hvar hann standi með sýna ræktun. „Ég hef alltaf reynt að nota stóðhesta sem ég tel að geti bætt það í mínum hryssum sem upp á vantar og þannig reynt að ná framförum. Reynslan hefur kennt mér að það borgar sig að horfa mikið í ættir stóðhestanna, að í kringum þá séu langræktuð hross sem náð hafa árangri. Ég hef því fylgt kynbótadómum og notað hátt dæmda hesta og þá sem skara fram úr hverju sinni. Ég hef samhliða þessu verið ófeiminn við það að selja frá mér hross og hika í raun ekki við það. Ég vona alltaf að þetta verði gæðingar og að kaupandinn verði ánægður, um það snýst málið. Ég hef í gegnum tíðina verið heppinn með kaupendur sem flestir hafa fylgt hrossunum eftir og komið þeim á framfæri eða þá notið þeirra sem góðra reiðhrossa.“

Á Landsmótinu síðasta sumar bar slík sala ávöxt þegar Hetja frá Hofi I, dóttir Álfakletts og Giftingar (yngri), stóð efst í flokki 6.vetra hryssa sýnd af Helgu Unu Björnsdóttur. Hún er í eigu Fákshóla og feðganna Lárusar Finnbogasonar og Arnars Heimis Lárussonar.

„Sigur Hetju er einn af hápunktunum í mínu ræktunarstarfi og gaman þegar svona vel gengur. En auk þessa augnabliks stendur það einnig upp úr þegar Þruma stóð efst á Fjórðungsmóti árið 1999 og þegar Skuggi varð annar í fimmgangi á Heimsmeistaramóti árið 2013, sýndur af Sigursteini Sumarliðasyni.“

Hetja frá Hofi I stóð efst í flokki sex vetra hryssna á nýafstöðnu Landsmóti með 8,52 í aðaleink.,sýnandi Helga Una Björnsdóttir. Mynd: Kolla Gr.

Fimm 1.verðlauna hryssur í ræktun

Þær hryssur sem Örn er með í ræktun í dag eru fimm talsins og allar hafa þær hlotið 1.verðlaun í kynbótadómi. Heiðursverðlauna hryssan  Gifting, sem er undan Vöku og Hágangi frá Narfastöðum. Gáta, dóttir Giftingar og Jarls frá Árbæjarhjáleigu II, þær köstuðu báðar hestfölöldum undan Vökli frá Efri-Brú og er nú haldið undir Þráinn frá Flagbjarnarholti. Aldís, sem er undan Þóroddi frá Þóroddsstöðum og Vöku, hún á nú hestfolald undan Sindra frá Hjarðartúni. Stálflís, undan Stála frá Kjarri og Þrumu, gengur með hestfolaldi undan Fróða frá Flugumýri og Glíma, undan Álffinni frá Syðri-Gegnishólum og Þrumu, gengur með merfolaldi undan Sindra frá Hjarðartúni. Þær þrjár síðastnefndu fara nú í ár allar undir Safír frá Laugardælum.
„Þessar hryssur eru þær sem ég verð með í ræktun nú á næstu árum auk þess að Steinþór, sonur minn, á 1.verðlauna hryssu undan Spaða frá Stuðlum og Giftingu sem ég reikna með að bætist við ræktunarstarfið í framtíðinni. Ég hef svo selt öll unghross og á því eingöngu helminginn í þriggja vetra stóðhesti til móts við Heklu Katharinu en sá kom til tamningar í haust og er undan Draupni frá Stuðlum og Giftingu.“

Eins og áður segir hefur Örn verið virkur þátttakandi í matskerfi kynbótahrossa um 30 ára skeið en eins og eðlilegt er hafa ræktendur á því sterkar skoðanir sem þar fer fram. „Mér finnst ræktunin standa mjög sterkum fótum og á þessum tíma hef ég séð gríðarlegar framfarir. Þar hefur einnig mikið að segja hversu tamning og þjálfun hrossa er orðin mun betri en áður var, það hefur orðið algjör bylting á allri umönnun og það skilar miklu. Ég hef aftur á móti áhyggjur af sölumálum og hversu dýr hestamennska er orðinn. Þetta er því miður að þróast í þá átt að það er ekki fyrir hvern sem er að vera þátttakandi í hrossarækt og hestamennsku, ég óttast þá þróun til framtíðar.“

Við þökkum Erni fyrir spjallið og óskum honum áframhaldandi velgengni í hrossaræktinni.

Sextán hæst dæmdu hross frá Hofi I

Nafn Faðir Móðir Sköpulag Hæfileikar A.e.
Hetja Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum Gifting frá Hofi I 8.27 8.65 8.52
Skuggi Aron frá Strandarhöfði Þruma frá Hofi I 7.85 8.78 8.41
Svarthöfði Álfur frá Selfossi Þruma frá Hofi I 8.19 8.52 8.39
Höttur Hróður frá Refsstöðum Þruma frá Hofi I 8.76 8.08 8.35
Fáfnir Álfaklettur frá Syðri-Gegnishólum Glíma frá Hofi I 8.22 8.41 8.34
Þruma Tvistur frá Krithóli Salka frá Syðra-Skörðugili 8.2 8.44 8.32
Mökkur Galsi frá Sauðárkróki Þruma frá Hofi I 8.09 8.46 8.31
Dreyri Mjölnir frá Hlemmiskeiði Gifting frá Hofi I 8.28 8.34 8.31
Þrenna Þristur frá Feti Þruma frá Hofi I 8.25 8.3 8.28
Gifting (yngri) Hágangur frá Narfastöðum Þruma frá Hofi I 7.91 8.53 8.28
Gáta Jarl frá Árbæjarhjáleigu II Gifting frá Hofi I 7.96 8.43 8.27
Harpa Konsert frá Hofi Gifting frá Hofi I 8.51 8.08 8.24
Særós Sær frá Bakkakoti Þrá frá Hofi I 8.07 8.34 8.23
Þrá Bikar frá Hólum Þruma frá Hofi I 7.96 8.29 8.16
Gifting (eldri) Tvistur frá Krithóli Aldís frá Jaðri 8.02 8,23 8,15
Aldís Þóroddur frá Þóroddsstöðum Vaka frá Hofi I 8.13 8.15 8.14
Viðtal þetta birtist upphaflega í tölublaði Eiðfaxa síðastliðið sumar.

Nýjasta tölublað

Tengdar greinar